Úthlutun sólarsellustyrkja Orkuseturs Orkustofnunar
14 október 2024Raforkuframleiðsla með sólarsellum beint á raforkukerfið á Íslandi er, eins og staðan er í dag, engan vegin fýsileg. Setji notendur hinsvegar upp sellur til að draga úr eigin notkun má segja að ávinningur þrefaldist enda sparar notandinn þá vegna kaupa á raforku, flutnings og skattgreiðslna.
Í sumar auglýsti Orkusetur Orkustofnunar samkeppnisstyrk fyrir sólarsellum sem allir gátu sótt um óháð lögheimili eða starfsemi. Styrkurinn nemur aldrei meira en 50% af efniskostnaði og er styrkurinn greiddur út eftir á, út frá þeim reikningum sem umsækjandi leggur fram.
Um samkeppnisstyrk var að ræða og við val á umsóknum var horft til úthlutunarreglna sem fylgdu auglýsingunni. Samkeppnin var mjög hörð og bárust Orkusetri 90 umsóknir sem var langt umfram það sem Orkusetur hafði til umráða í þetta verkefni.
Lagt var upp með að styrkjum Orkuseturs yrði einkum beint þangað sem hagsmunir notenda og ríkis eru hvað mestir. Verkefni sem hafa forgang eru í þessari röð: Eignir utan samveitna, notendur á dreifbýlistaxta og notendur á rafhituðum svæðum.
Vegna mikillar aðsóknar fengu öll þau verkefni sem voru í efsta forgangi styrk en ekki var fjármagn til að styrkja fleiri verkefni. Þau verkefni sem fengu styrk voru því ýmist utan samveitna og/eða þar sem raforkuframleiðsla fer fram með dísilrafstöðvum. Draga sólarsellur þar úr olíunotkun og þar með losun gróðurhúsalofttegunda sem samræmist orkustefnu og skuldbindingu ríkisins.