Umtalsverð aukning í fjárfestingum dreifiveitna raforku
23 maí 2024Gagnaskjal um starfsemi dreifiveitna raforku hefur verið birt á vefsíðu Orkustofnunar og er þar að finna helstu upplýsingar úr fjárfestingaráætlunum dreifiveitna fyrir árin 2024 til 2028.
Í skjalinu kemur m.a. fram að hlutfall snjallmæla með gagnasöfnun er á bilinu 1% til 91% eftir því hvaða dreifiveitu um ræðir. Snjallmælar eru nauðsynlegir til að auka aðgengi almennings að ódýrari raforku að nóttu til, stuðla að orkunýtni, þeir nýtast einnig í almannavörnum við sérstakar aðstæður og auka samkeppni í smásölu raforku. Því er mikilvægt að allar dreifiveitur fjárfesti í snjallmælum fyrir notendur.
Samkvæmt raforkuspá Orkustofnunar er vænt aukning í almennri notkun til ársins 2035 ca. 35%. Þrjár dreifiveitnanna áætla að fjárfestingar aukist um 20-40% á komandi fimm árum samanborið við nýliðin fimm ár, ein dreifiveita áætlar nærri tvöföldun fjárfestinga og önnur dreifiveita áætlar að fjárfestingar verði hliðstæðar að umfangi og verið hefur. Fjárfestingar hafa að jafnaði ekki áhrif á gjaldskrár umfram verðbólgu ef notkun eykst samhliða auknum fjárfestingum.
Af áætluðum heildarfjárfestingum dreifiveitnanna er 11% vegna orkuskipta og önnur 37% vegna styrkinga dreifikerfis fyrir orkuskipti. Snjallmælar eru forsenda þess að hægt sé að auka hvata fyrir notendur að nota dreifikerfið með hagkvæmum hætti en ein helsta áskorun dreifiveitnanna er að mæta ójafnara álagi notenda vegna rafhleðslu og annarra orkuskipta, sem getur dregið úr hagkvæmni.
Fjárfestingaráætlanir dreifiveitna voru unnar og sendar til Raforkueftirlits Orkustofnunar í fyrsta skipti í febrúar sl. samkvæmt nýju ákvæði í raforkulögum. Áætlanirnar verða uppfærðar á tveggja ára fresti.
Í gagnaskjalinu er einnig að finna aðgengilegar sögulegar upplýsingar um rekstur og tekjumörk dreifiveitna sem er grundvöllur gjaldskráa þeirra. Gögnin eru sett fram fyrir tímabilið 2013 til 2022 og geta nýst notendum, ásamt sérfræðingum og fræðasamfélagi til greininga á rekstri dreifiveitnanna.
Hægt er að sjá nánari upplýsingar um fjárfestingaráætlanir dreifiveitna 2024-2028 hér.