Umsókn um virkjunarleyfi til stækkunar Sigölduvirkjunar - Gagnamappa
23 maí 2024Orkustofnun hefur auglýst umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi til stækkunar Sigöldustöðvar í Ásahreppi og Rangárþingi ytra úr 150 MW í 215 MW í Lögbirtingablaðinu. Birtist auglýsingin föstudaginn 17. maí 2024 og þar er þeim aðilum er málið varðar gefið færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingarinnar. Gögn málsins má nálgast með því að smella hér.
Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Katrínartúni 2, Reykjavík, hefur óskað eftir virkjunarleyfi til stækkunar Sigöldustöðvar vatnsaflsvirkjunar í Ásahreppi og Rangárþingi ytra, í samræmi við 1. mgr. 4. gr. raforkulaga, nr. 65/2003 og með vísan til 4. gr. reglugerðar um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005, með síðari breytingum.
Ætlunin er að auka aflgetu stöðvarinnar með því að bæta fjórðu aflvél við þær þrjár sem fyrir eru, ásamt því að ráðast í nauðsynlegar breytingar á mannvirkjum stöðvarinnar vegna þess.
Skv. ákvörðun Orkustofnunar dags. 7. júlí 2023 er fyrirhuguð stækkun Sigöldustöðvar undanþegin ákvæðum um verndar- og nýtingaráætlun í samræmi við ákvæði 3. mgr. 3 gr. laga nr. 48/2011.
Í ágúst 2023 lagði Landsvirkjun fram umhverfismatsskýrslu fyrir framkvæmdinni til Skipulagsstofnunar. Álit Skipulagsstofnunar lá fyrir þann 18. desember 2023.
Fyrirhugaðar framkvæmdir eru í samræmi við aðalskipulag Ásahrepps 2020-2032 og Rangárþings ytra 2016-2028, og deiliskipulag Sigöldustöðvar í Ásahreppi og Rangárþingi ytra sem samþykkt var í hreppsnefnd Ásahrepps 18. október 2023 og í sveitarstjórn Rangárþings ytra 13. september 2023, sbr. auglýsingu nr. 428/2024 í B-deild stjórnartíðinda.
Orkustofnun hefur farið yfir gögn máls og telur að þau uppfylli viðmið raforkulaga og reglugerðar um framkvæmd raforkulaga til frekari málsmeðferðar.
Auglýsing um umsóknina var gefin út í Lögbirtingarblaðinu þann 17. maí 2024.
Í samræmi við 4. mgr. 34. gr. raforkulaga er þeim aðilum er málið varðar gefið færi á að kynna sér umsókn Landsvirkjunar og veita um hana umsögn. Umsagnarfrestur er til 14. júní 2024. Gögn málsins má nálgast með því að smella hér.
Nánari upplýsingar veita Rán Jónsdóttir, netfang ranjon@os.is og Kristján Geirsson, netfang kg@os.is.
Umsagnir skulu sendar með tölvupósti til Orkustofnunar, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík, á netfangið os@os.is.
Fleiri fréttir