Bætt staða raforkuöryggis á þriðja ársfjórðungi 2025 og 2026
18 júlí 2025
Fyrstu raforkuvísar ársins 2025 eru nú komnir út. Í raforkuvísunum kemur meðal annars fram að staða og horfur raforkuöryggis á þriðja ársfjórðungi áranna 2025 og 2026 eru betri samkvæmt nýjum upplýsingum og greiningum á orkujöfnuði, í samanburði við fyrri útgáfu Raforkuvísa birtum í nóvember 2024.
Raforkuöryggi
Raforkuöryggi er metið m.a. með spá Raforkueftirlitsins um vænta eftirspurn og framboð raforku, ásamt óvissubili um þætti sem valdið geta lægri framleiðslu eða aukinni eftirspurn.
Bætt staða raforkuöryggis þýðir að minni óvissa ríkir um að fullnægjandi framboð raforku verði til staðar fyrir afhendingu forgangsorku, til samanburðar við greiningar Raforkueftirlitsins í lok árs 2024. Staðan er þó enn viðkvæm samkvæmt lágspá ef horft er til væntrar eftirspurnar frá þriðja ársfjórðungi 2025 til loka árs 2026. Mikilvægt er að halda áfram að greina horfur með ítarlegum og gagnsæjum hætti auk þess sem undirbúa þarf mögulegar mótvægisaðgerðir. Í þessu samhengi skiptir miklu máli að gera breytingar á raforkulögum og tryggja að Raforkueftirlitið hafi skýrar heimildir til ákvarðanatöku um raforkuöryggi sem og fullnægjandi lagaheimildir til markaðseftirlits. Virkari raforkumarkaður mun einnig stuðla að því að jafnvægi náist milli framboðs og eftirspurnar.
Ofangreindur orkujöfnuður nær til lok 2026 þar sem ítarleg greining á væntri framleiðslu er borin saman við forgangsnotkun og skerðanlega notkun. Raforkueftirlitið hefur frá hausti 2023 safnað upplýsingum mánaðarlega, frá öllum helstu vinnslufyrirtækjum og sölufyrirtækjum um vænta framleiðslu og sölu sem orkujöfnuðurinn byggir á.
Uppfærð gögn
Í nýútgefnum raforkuvísum koma einnig fram uppfærðar upplýsingar um orkuinnihald uppistöðulóna, markaðshlutdeild fyrirtækja á smásölumarkaði raforku, ásamt markaðshlutdeild vinnslufyrirtækja í framboði á almennan markað.
Einnig eru birtar uppfærðar upplýsingar um hversu vel sölufyrirtæki hafa tryggt orkukaup sín fram í tímann. Samkvæmt nýjustu Raforkuvísum 2025/1 eru sölufyrirtæki búin að tryggja kaup á meiri orku og lengra fram í tímann til samanburðar við síðustu útgáfu Raforkuvísa.
Tafin birting og úrræði
Einn helsti flöskuháls í vinnu Raforkueftirlitsins við útgáfu vísanna felst í söfnun og úrvinnsla gagna. Töluverður tími og starfskraftur hefur farið í að greina og leiðrétta villur í gögnum sem berast frá raforkuvinnslufyrirtækjum. Að því sögðu er þó vert að nefna að ábyrgð á töfum hvílir ekki einungis á vinnsluaðilunum. Raforkueftirlitið hefur hafið endurskoðun á þeim gögnum sem óskað er eftir mánaðarlega, sem og aðferðum við gagnaöflun og skil. Markmið þessarar vinnu er að einfalda gagnaafhendingu til eftirlitsins og tryggja betri gæði gagna til framtíðar.
Sjá nánar á: https://orkustofnun.is/upplysingar/talnaefni/raforka.