Raforkueftirlitið birtir uppgjör tekjumarka Landsnets fyrir árið 2024
2 júlí 2025
Raforkueftirlitið hefur lokið uppgjöri tekjumarka Landsnets fyrir árið 2024. Tekjumörk setja sérleyfisfyrirtækjum í flutningi og dreifingu raforku mörk varðandi leyfðar tekjur og útgjöld.
Tekjuheimildir Landsnets voru vanteknar um 44.424 þús.kr. fyrir almenna notendur og ofteknar um 858.645 þús.kr. fyrir stórnotendur. Við árslok 2024 voru uppsafnaðar vanteknar tekjur Landsnets:
- -8,3% af tekjumörkum fyrir almenna notendur (634.195 þús.kr.)
- -8,5% af tekjumörkum fyrir stórnotendur (1.046.331 þús.kr.)
Fyrir almenna notendur getur þetta leitt til hækkunar á flutningsgjaldi í framtíðinni í þeim tilgangi að bæta upp fyrir vanteknar tekjur. Fyrir stórnotendur er aftur á móti líklegt að flutningsgjöld lækki til þess að leiðrétta ofteknar tekjur.
Markmið að tryggja skilvirkni
Markmiðið með setningu viðmiðunarútgjalda er að ná fram hagræðingu og skilvirkni í rekstri sérleyfisfyrirtækjanna. Á hverju ári fer svo fram uppgjör fyrir nýliðið ár þar sem bókhald sérleyfisfyrirtækja er borið saman við sett tekjumörk. Bókhald vegna tekjumarka fylgir raforkulögum en er þó að miklu leyti hliðstætt ársreikningum sérleyfisfyrirtækjanna.
Setning tekjumarka 2021-2025
Tekjumörk miðast nú við setningu tekjumarka 2021-2025 sem eru meðaltal útgjalda á tímabilinu 2015-2019, uppfærð með vísitölu neysluverðs og launavísitölu ásamt afskriftum og leyfðri arðsemi af fastafjármunum og veltufjármunum. Gjaldskrár raforkuflutnings, sem notendur greiða, taka annars vegar mið af tekjumörkum og hins vegar kerfisþjónustu og flutningstöpum.
Ný setning tekjumarka fyrir flutningsfyrirtækið tekur gildi 15. september 2025 og mun byggja á meðaltal útgjalda flutningsfyrirtækisins á tímabilinu 2020-2024.
Greining á skilvirkni í vinnslu
Raforkueftirlitið vinnur að greiningu á skilvirkni flutningsfyrirtækisins. Niðurstaða þess verður grundvöllur að ákvörðun að mögulegri hagræðingarkröfu sem yrði síðar innleidd í setningu tekjumarka flutningsfyrirtækisins.
Finna má nánari upplýsingar um uppgjör flutningsfyrirtækisins hér: Tekjumörk — Orkustofnun