Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Orkustofnun afhendir frumrit Teikningasafns síns til Þjóðskjalasafns Íslands

Orkustofnun afhendir frumrit Teikningasafns síns til Þjóðskjalasafns Íslands

28 apríl 2021
Frá afhendingu teikningasafnsins. F.v. Þórunn Erla Sighvats, sérfræðingur, upplýsingamál, Orkustofnun, Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri skjala- og upplýsingasviðs Þjóðskjalasafns og Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.

Orkustofnun hefur afhent Þjóðskjalasafni Íslands frumrit Teikningasafns síns, alls um 45.000 teikningar sem unnar voru á vegum teiknistofu stofnunarinnar og forvera hennar á tímabilinu 1924-2001.

Teikningasafnið er einstakt heimildasafn um sögu íslenskra virkjana, jarðborana, vatnamælinga og jarðfræði, svo eitthvað sé nefnt. Safnið er bein afurð þeirra vísindamanna og brautryðjenda sem mörkuðu sín spor á uppvaxtarárum lýðveldisins. Safnið er ekki aðeins einstök heimild um frumskráningar og frummælingar á sviði stofnunarinnar og forvera hennar heldur einnig heimild um vinnubrögð, efnivið og tækni sem beitt var á hverjum tíma.

Teikningar safnsins eru í stærðum frá A6 upp í A0 og eru um 50 % safnsins A3 og stærri. Safnefninu hefur verið pakkað og það skráð til langtímavarðveislu í samræmi við reglur Þjóðskjalasafns.

 
Teikningasafnið rekur uppruna sinn langt aftur eða til embættis landsverkfræðings, en teiknistofa var starfrækt eftir 1936 og sá stofan um gerð teikninga, korta, línurita, glæra, veggspjalda og annars myndefnis auk verkefna sem lutu að útgáfumálum. Starfsmenn teiknistofunnar voru mismargir í gegnum tíðina, en 7-8 þegar flest var. Teikningasafnið var skráð með völdum skráningarþáttum í gagnagrunn undir lok síðustu aldar. Um það leyti var starfsemi stofunnar hætt þar sem ný tækni var þá komin til sögunnar og sérfræðingar Orkustofnunar farnir sjálfir að vinna þá verkþætti sem teiknistofan hafði áður.

Eldri gagnaskrá safnsins var aðgengileg með nokkrum leitarþáttum á vef Orkustofnunar frá 2012. Árið 2016 var svo hafist handa við að endurskrá Teikningasafnið með fleiri efnisþáttum, en það verk vann Þórunn Erla Sighvats, upplýsingafræðingur. Skráningarþáttum var fjölgað og samhliða innslætti var safnið skannað með það markmið að gera teikningarnar aðgengilegar öllum. Einnig var safnið skráð í geymsluskrá skjalasafns Orkustofnunar og því pakkað í öskjur, möppur og hólka til afhendingar og framtíðarvarðveislu í Þjóðskjalasafni Íslands. Því verki lauk fyrir nokkru, en það er ekki fyrr en nú sem Þjóðskjalasafn hefur möguleika á að taka á móti safninu.

Allt safnefnið hefur nú verið skannað og gert aðgengilegt fyrir leit á vef stofnunarinnar þar sem finna má teikningar eftir efnisþáttum eins og titli, stærðarflokki, formi, tegund gagna, ártali og teikningarnúmeri. Þá hefur efni safnsins einnig verið tengt að hluta við landfræðilegar gagnaþekjur í Kortasjá Orkustofnunar.

Nánari upplýsingar: 

Um teikningasafn OS     
Kortasjá OS