Teikningasafn

teikningasafn

Teikningasafn stofnunarinnar rekur uppruna sinn langt aftur, eða til þess tíma þegar embætti landsverkfræðings skiptist í nokkur embætti sem eru forverar núverandi stofnunar. Elstu teikningarnar eru frá 1924 en þá teiknuðu verkfræðingar sjálfir sínar teikningar við misgóðar aðstæður. Teiknistofa var starfrækt frá u.þ.b. 1936 og sá um gerð teikninga, korta, línurita, glæra, veggspjalda og annars myndefnis sem til þurfti í starfseminni, auk verkefna sem lutu að útgáfumálum.

Númeramerking teikninganna var ekki tekin upp fyrr en á fimmta átatug og þá voru allar eldri teikningar líka númeraðar með svonefndu Frumritsnúmeri. Starfmenn teiknistofunnar voru mismargir í gegnum tíðina, en 7-8 þegar flest var. Einar Þorláksson (1933-2006) listmálari, var starfsmaður Raforkumálastjóra og OS á árabilinu 1954-2000. Hann skráði Teikningasafnið í gagnagrunninn Oracle á árunum 1994 til 1998 en eftir það var starfsemi teiknistofunnar hætt. Ný tækni var þá komin almennt til sögunnar og sérfræðingar stofnunarinnar farnir sjálfir að vinna þá verkþætti sem teiknistofan hafði áður sinnt.

Sú rafræna skrá sem Einar Þorláksson sló inn er kölluð eldri teikningaskráin. Hún samanstendur af nokkrum efnisatriðum teknum beint upp úr færslubókum teiknistofunnar. Slegin voru inn frumritanúmer, stærðir teikninga, titlar, fangamörk og deildir. Á vefsíðu OS hefur um nokkurt skeið verið mögulegt að leita í skránni eftir ártali, númeri teikningar og í textasvæði skrárinnar. Þessi eldri skrá var ekki tæmandi því í ljós kom að sleppt hafði verið að skrá flestar elstu teikningarnar (eldri en 1944) og eftir endurskráningu breyttist fjöldatalan úr tæplega 38.000 í 40.000 skráð eintök. Eldri skráin er ennþá leitarbær á vefsíðu Orkustofnunar, en stefnt er að því að skipta henni út fyrir nýja og uppfærða skrá þegar hún verður tilbúin (áætlað 2016).

Ef þörf er á nánari upplýsingum úr Teikningasafninu má hafa samband við Orkustofnun (Þórunn E. Sighvats).

Teikningasafn – Leit í teikningaskrá Orkustofnunar (eldri rafræn skrá)

Með því að smella á fyrirsögnina er hægt að leita í teikningaskránni eftir þremur leiðum:

  • Textaleit. Hér má slá inn staðarnafn eða annað leitarorð. Dæmi: “Þjórsá” á að skila orðum eins og “Þjórsárver, Þjórsá, Þjórsársvæði. Ekki skiptir máli hvort slegnir eru inn há- eða lágstafir.
  • Teikningarnúmer. Númerin á frumritum teikninganna eru tvenns konar, eldri og yngri númeraröð: Ef leitað er að teikningum eldri en frá 1981 þarf að slá inn sjö tölustafi og F-bókstafinn (dæmi um númer á teikningu: F-6383, þá skal slá inn ártal + F + númer: 63F06383). Yngri númeraröðin byggist á átta tölustafa númeri sem sést á frumritinu (með punktum á milli árs, mánaðar og hlaupandi númers, dæmi: 81.02.0100), punktana skal ekki slá inn við leit, aðeins tölustafina).
  • Ártal. Með því að velja ártal í lista má kalla fram skrá í númeraröð yfir allar teikningar sem unnar voru á því ári (en aðeins frá og með 1944).
Leitarniðurstöður sýna teikningarnúmer, ártal, stærð og lýsingu.