Teikningasafn

teikningasafn

Teikningasafn Orkustofnunar og forvera rekur uppruna sinn langt aftur, eða til embættis landsverkfræðings sem stofnað var fyrir aldamótin 1900. Embættið skiptist síðar niður í nokkrar sérgreinar eins og vegagerð og raforkumál en þær stofnanir voru forverar Orkustofnunar. Elstu skráðu teikningar safnsins eru frá 1924 en því miður finnast þær ekki í safninu (þær eru um virkjun Sogsins og hafa líklega orðið viðskila og endað hjá öðru embætti á sínum tíma), en elsta aðgengilega teikningin er frá 1926 (Virkjun Kvoslækjar í Fljótshlíð, nr. F-3234). Fyrstu árin teiknuðu verkfræðingar sjálfir sínar teikningar við misgóðar aðstæður.

Teiknistofa var starfrækt eftir 1936 og sá um gerð teikninga, korta, línurita, glæra, veggspjalda og annars myndefnis auk verkefna sem lutu að útgáfumálum. Starfsmenn teiknistofunnar voru mismargir í gegnum tíðina, en 7-8 þegar flest var. Einar Þorláksson (1933-2006) listmálari, var starfsmaður teiknistofunnar á árabilinu 1954-1999. Hann skráði Teikningasafnið í Oracle-gagnagrunn á árunum 1994 til 1998 en þá var starfsemi teiknistofunnar hætt. Ný tækni var þá komin til sögunnar og sérfræðingar Orkustofnunar farnir sjálfir að vinna þá verkþætti sem teiknistofan hafði áður. Oracle-skráin var gerð aðgengileg með nokkrum leitarþáttum á vef stofnunarinnar frá 2012. Við endurskráningu og yfirferð safnsins kom í ljós að nokkuð vantar af eldri teikningum, eða rúmlega 3.600, mest frá upphafsárum safnsins,  aðallega virkjanateikningar sem teknar voru úr safninu og afhentar rafmagnsstjóraembættinu (síðar RARIK).

Teikningasafnið er einstakt heimildasafn um sögu íslenskra virkjana, jarðborana, vatnamælinga og jarðfræði, svo eitthvað sé nefnt. Safnið er bein afurð þeirra vísindamanna og brautryðjenda sem mörkuðu sín spor á uppvaxtarárum lýðveldisins. Safnið er ekki aðeins einstök heimild um frumskráningar og frummælingar á sviði stofnunarinnar og forvera hennar heldur einnig heimild um vinnubrögð, efnivið og tækni sem beitt var á hverjum tíma við varðveislu og birtingu frumgagna.

Á teiknistofunni var skráð í færslubækur Teikningasafnsins og fékk hver teikning (frumrit) einkvæmt númer. Númeramerkingin var ekki tekin upp frá byrjun en eftir að teiknistofan hóf starfsemi var fljótlega farið að númera og skrá teikningarnar með skipulögðum hætti (það var þó ekki fyrr en eftir 1950 sem númer og dagsetningar náðu að haldast í hendur í færslubókunum, sem skýrir hvers vegna ein elsta teikningin, frá 1926, fékk númerið F-3234). Rafræna skráin í Oracle byggðist á þeim skráningarþáttum sem notaðir voru í færslubókum teiknistofunnar (númer teikninga, stærðir, titlar, fangamörk höfunda og teiknara og málsnúmer). Við innsláttinn þurfti að aðlaga frumritanúmerin að 8 tölustafa ramma og einnig þurfti að takast á við tvenns konar númeraröð (sjá skýringar á númerum frumrita ).

Árið 2016 var hafist handa við að endurskrá Teikningasafnið. Það verk vann Þórunn Erla Sighvats, upplýsingafræðingur hjá Orkustofnun. Skráningarþáttum var fjölgað og samhliða innslætti var safnið skannað með það markmið að gera teikningarnar aðgengilegar öllum. Einnig var safnið skráð í geymsluskrá skjalasafns Orkustofnunar og því pakkað í öskjur, möppur og hólka til afhendingar og framtíðarvarðveislu í Þjóðskjalasafni Íslands. Því verki lauk á árinu 2018.

Ef þörf er á nánari upplýsingum úr Teikningasafninu má hafa samband við Orkustofnun

Leit í Teikningasafni Orkustofnunar

Ef smellt er á fyrirsögnina opnast leitarvalmynd með sex leitarþáttum: Númer, Stærð, Ártal, Flokkun, Teikning til og Titill.

Númer. Hægt er að leita eftir númerum teikninga. Númerin eru einkvæm (auðkennisnúmer). Um tvenns konar númer er að ræða í safninu. Eldri númeraröð (1924-1980) byggist á númerum sem byrja á ártali, svo kemur bókstafurinn F (= Frumrit) og loks hlaupandi tala (og fyllt upp í átta stafa ramma með núllum), dæmi: 33F00433, 51F01588, 80F18940 (á sjálf frumritin er aðeins skráð: F-433, F-1588, F-18940). Yngri númeraröðin (1981-2001) byggist á ártali, mánuði og hlaupandi tölu, dæmi: 81010010, 88120850 (á sjálfum teikningunum eru skráðir punktar á milli þátta: dæmi: 81.01.0010,           88.12.0850).

Stærð. Hægt er að leita eftir stöðluðum arkarstærðum, A0 til A6 (valið úr fellilista).

Ártal. Hægt er að leita eftir ártölum teikninga, miðast við teikniár (elsta ártal er 1924, það yngsta 2001). Hægt er að velja ártöl úr fellilista.

Flokkun. Hægt er að leita eftir efnislegri flokkun, t.d. Kort, Snið, Kort/Snið, Línurit o.fl. Hægt er að velja flokkana úr fellilista.

Teikning til hjá OS. Segir hvort teikningin er til í safninu (Já/Nei). Ef færslan hefur merkinguna „Nei“ er eftir sem áður hægt að skoða skráninguna eins og hún hefur verið slegin inn samkvæmt færslubók safnsins.

Titill. Hægt er að leita með opinni textaleit eftir titlum eða ígildi titla. Ekki þarf að slá inn fullan titil, aðeins lykilorð, t.d. ,,Þjórsá” - sem skilar orðum eins og Þjórsárver, Þjórsár, Þjórsársvæði. Ekki skiptir máli hvort slegnir eru inn há- eða lágstafir.

Nánari skýringar …

Teikningasafn