Merk tímamót Orkustofnunar: Yfirlit yfir greiningar og gagnavinnslu
18 desember 2024Við endurskipulagningu Orkustofnunar árið 2021 var sérstök áhersla lögð á styrkingu á söfnun, greiningu og vinnslu gagna. Á þeim tímamótum þar sem Orkustofnun í núverandi mynd er lögð niður hafa nokkrir af þeim áföngum sem þar hafa náðst verið dregnir saman í skýrslu hvar er að finna fjölbreyttar og áhugaverðar upplýsingar um gögn, heimasíðu og útgefið efni stofnunarinnar á þessum tíma. Einnig eru kynntar nýjungar sem hafa verið innleiddar til að bæta aðgengi og upplifun allra sem nýta gögn stofnunarinnar.
Nánari upplýsingar er að finna í skýrslunni:
https://gogn.orkustofnun.is/Skyrslur/OS-2024/Greining_og_gagnavinnsla_2024-3.pdf
Yfirlit gagnasafna Orkustofnunar
Ítarlegt yfirlit yfir gagnasöfn, greiningar og nýja tækni í miðlun upplýsinga er nú aðgengilegt í nýbirtri skýrslu á upplýsingasíðu Orkustofnunar . Þar er fjallað um stöðu gagnasafna, tilgang þeirra og hvernig þau nýtast í greiningum og miðlun.
Skýrslan dregur fram helstu miðlunarleiðir gagna, en undanfarið hefur orðið umtalsverð þróun í innviðum og aðgengi gagna hjá Orkustofnun. Má þar nefna:
- Endurhönnun og opnun nýrrar heimasíðu Orkustofnunar og innleiðingu gagnagáttar með sjálfvirku aðgengi.
- Nýr leitargrunnur fyrir útgefin leyfi Orkustofnunar á heimasíðu, jafnt þau sem eru í gildi sem og þau sem fallin eru úr gildi.
- Gagnvirk birting mánaðarlegra eldsneytisgagna.
- Kortlagning nýrra upplýsinga um yfir 2.400 jarðhitastaði á yfirborði, sem bætt hefur verið við kortasjá.
- Aukið aðgengi að borholugögnum með nýrri upplýsingagátt.
- Fjölmargar umbætur í skráningu og birtingu leyfa sem bæta yfirsýn og mæla skilvirkni leyfisveitingaferla.
Fullt aðgengi að opnum gögnum - Forritunarviðmót
Unnið hefur verið að þróun og uppbyggingu forritunarviðmóts fyrir gagnasöfn, sem hafa annaðhvort verið endurbætt eða tekin í gegn. Skjölun fyrir viðmótið er aðgengileg á docs.orkustofnun.is. Þar má finna nákvæmar upplýsingar og auðvelt aðgengi að fjölbreyttum gögnum.
Dæmi um gögn sem hægt er að nálgast í gegnum forritunarviðmótið:
- Mun nákvæmari upplýsingar um mánaðarlega sölu eldsneytis en birt er á heimasíðu Orkustofnunar.
- Öll gögn tengd borholuskrá, sem veita yfirgripsmikla og ítarlega yfirsýn yfir skráðar borholur.
Unnið hefur verið að uppbyggingu forritunarviðmóts fyrir gagnasöfn sem tekin hafa verið í gegn eða eru í endurnýjun lífdaga. Hægt er að nálgast skjölun fyrir forritunarviðmótið á docs.orkustofnun.is. Þar er sem dæmi hægt að nálgast mun nákvæmari upplýsingar um mánaðarlega sölueldsneytis en birt er á heimasíðunni. Annað dæmi er öll þau gögn sem birt eru um borholuskrá.
Ný heimasíða – betra aðgengi og upplýsingamiðlun
Ný heimasíða Orkustofnunar var hönnuð með það að markmiði að miðla gögnum á sem hagkvæmastan og skilvirkastan hátt. Þar má finna fjölbreytt og aðgengilegt efni sem nýtist bæði almenningi og fagfólki. Heimasíðan var unnin þannig að kóðinn er eign Orkustofnunar og tækni sem notuð var sem líkust því sem gerist á island.is. Þetta býður uppá að sem flestir geti komið að því að bæta hana og breyta. Verkið var unnið með Visku, og þökkum við þeim samstarfið.
Teikningasafnið
Teikningasafn Orkustofnunar inniheldur yfir 38 þúsund teikningar, sem ná yfir fjölbreytt svið tengd orku, mannvirkjum og tækni. Safnið er aðgengilegt á netinu og býður upp á leitaraðgerðir til að finna sértækar teikningar eftir þörfum.
Dæmi úr safninu:
- Tvær teikningar af snjósleða eru aðgengilegar með því að leita að „sleða“ í leitarsvæði safnsins. Sjá nánar á teikningasafninu.
https://orkustofnun.is/upplysingar/gagnasofn/teikningasafn
Borholuskrá
Borholuskrá Orkustofnunar inniheldur yfir 15 þúsund skráðar borholur víðs vegar um landið. Skráin veitir aðgang að umfangsmiklum upplýsingum um hverja borholu, þar á meðal staðsetningu, dýpi, nýtingu og ýmsa aðra tækni- og jarðfræðilega þætti.
- Borhola númer 58008 er sérstaklega áhugaverð, enda er þar að finna ítarleg og yfirgripsmikil gögn.
https://orkustofnun.is/upplysingar/gagnasofn/boruholuskra
Leyfaskrá
Við gerð nýrrar heimasíðu kom í ljós að skráning leyfa þurfti að koma á tölvulesanlegt form til að upplýsingarnar séu aðgengilegar og hægt sé að leita í þeim s.s. til að nýta gögnin með aðstoð gervigreindar. Skráning leyfa var færð í gagnagrunn og umbreytt frá pappír yfir á stafrænt form. Eftirfarandi eru tvö dæmi um útgefin leyfi:
Leyfi til rannsókna vegna sjávarfallavirkjunar í Hvammsfirði í Breiðafirði — Orkustofnun
Leyfi til efnistöku af hafsbotni í Fláskarðskrika við Syðra Hraun — Orkustofnun Skeljasandur
Útgefin leyfi Orkustofnunar – gagnagrunnur, kortasjá og leitarvél
Orkustofnun tók yfir leyfisveitingar vegna leitar, rannsókna og nýtingar auðlinda og til orkuframleiðslu árið 2008, en fyrri leyfi voru gefin út af viðkomandi ráðuneyti. Öll leyfi eru skráð í gagnagrunn og aðgengileg bæði á heimasíðu og á kortasjá stofnunarinnar. Á tímabilinu voru greiningar samræmdar, bætt við upplýsingar í gagnagrunninum og smíðuð fullkomin leitarvél til upplýsinga um leyfin.
https://orkustofnun.is/upplysingar/gagnasofn/utgefin-leyfi
Kortasafn
Gríðarlega mikið starf var unnið á árum áður af Orkustofnun við að kortleggja ýmis svæði á hálendinu og í dag er þetta nánast eina heimild um landslagið á svæðum fyrir framkvæmdir. Til dæmis má nefna Þjórsár/Tungnaársvæðið þar sem uppistöðulón setja nú mikinn svip á landslagið.
orkustofnun_kort_548.jpg (2735×1913) sýnir hluta af hrauneyjunum sem nú eru á kafi í lóni Hrauneyjafossvirkjunar.
https://orkustofnun.is/upplysingar/gagnasofn/kortasafn
Talnaefni
Margvíslegt talnaefni er birt um raforku, jarðvarma, eldsneyti, orkuskipti, og orku alls.
Yfirlit yfir talnaefni má finna hér: https://orkustofnun.is/upplysingar/talnaefni
Orkuskiptin í vegasamgöngum – rauntímayfirlit
Á heimasíðu Orkustofnunar er hægt að fylgjast með framvindu orkuskipta í vegasamgöngum í rauntímagögnum, eða næstum því í beinni útsendingu. Þar eru birtar uppfærðar tölur sem sýna þróun í notkun jarðefnaeldsneytis og framfarir í átt að sjálfbærari samgöngum.
Sjá nánar á: https://orkustofnun.is/orkuskipti/eldsneytisnotkun/eldsneytistolur/vegasamgongur
Leyfi í vinnslu
Innanhúss hefur verið þróað fullkomið mælaborð sem veitir yfirsýn yfir öll leyfi í vinnslu. Mælaborðið gerir starfsfólki kleift að fylgjast með framvindu umsókna í rauntíma.
Aðalmarkmið þessa kerfis er að auka gagnsæi og þjónustu við umsækjendur með því að bjóða þeim upp á yfirlit yfir stöðu umsókna og grunnupplýsingar um ferli leyfisveitinga í sérhannaðri þjónustugátt, sem er í undirbúningi.
Sjá skýrsluna hér: https://gogn.orkustofnun.is/Skyrslur/OS-2024/Greining-og-gagnavinnsla-2024-3.pdf
Sérstakar þakkir
Orkustofnun þakkar öllum þeim fjölmörgu einstaklingum og lögaðilum sem hafa starfað með stofnuninni og stutt á þessari vegferð undanfarin ár. Sérstakar þakkir fá þeir sem hafa lagt borholuskránni lið með því að senda tilkynningar um misskráningar, uppfært gögn og skilað nýjum upplýsingum.