Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Mánaðarleg eldsneytisgögn nú aðgengileg

Mánaðarleg eldsneytisgögn nú aðgengileg

25 september 2024
Mánaðarleg eldsneytisgögn nú aðgengileg

Í fyrsta skipti verða mánaðarleg gögn um eldsneytissölu aðgengileg. Þessi gögn veita mikilvægar upplýsingar um þróun eldsneytisnotkunar og losun gróðurhúsalofttegunda. Söluaðilar eldsneytis á Íslandi skila mánaðarlega gögnum til Orkustofnunar um sölu á eldsneyti og þessi gögn verða uppfærð reglulega og birt aðeins tveim mánuðum síðar. 

Gögnin eru flokkuð í fimm megin notkunarflokka: vegasamgöngur, fiskiskip, siglingar, flug og aðrar notkunargreinar. Einnig er birt samtala allra flokka. Fyrir hvert gagnasett eru birt tvenn gröf, sem annars vegar sýnir söluna eftir mánuðum og orkugjöfum og hins vegar uppsafnað magn selds jarðefnaeldsneytis á árinu 2023 og það sem af er 2024. 

Gögnin hafa lifandi tengingu við gagnagrunn Orkustofnunar og geta því tekið breytingum ef leiðréttingar berast frá söluaðilum. Samhliða birtingunni er opnað á gagnatengingu (API) sem gefur öllum sem vilja aðgang að þeim gögnum sem liggja til grundvallar. 

multi image

Eldsneytisnotkun og loftslagsmarkmið 

Notkun jarðefnaeldsneytis veldur stærstum hluta losunar gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Því er mikilvægt að hafa aðgang að rauntímagögnum um þróun á sölu jarðefnaeldsneytis til að fylgjast með framvindu þessara markmiða. 

Fyrsta heila árið sem mánaðarleg gögn ná yfir er 2023 og nú hefur Orkustofnun safnað gögnum til júlí 2024. Gögnin sýna að sala jarðefnaeldsneytis hefur aukist um 5% fyrstu sjö mánuði ársins miðað við sama tímabil árið áður. 

Aukin eldsneytisnotkun í flugumferð og öðrum flokkum 

Þegar gögnin eru skoðuð eftir notkunarflokkum kemur í ljós að mesta aukningin í magni er í flugsamgöngum, þar sem notkun jókst um 11 ktoe (þúsund tonn olíuígilda), eða um 4% frá fyrra ári. Hlutfallslega er aukningin mest í flokknum „annað“, þar sem 23% aukning varð, eða 7 ktoe. Það má að mestu rekja til skerðingar á ótryggri raforku til fjarvarmaveitna og fiskimjölsverksmiðja. 

Samdráttur í vegasamgöngum 

Þrátt fyrir aukningu í flestum flokkum er notkun jarðefnaeldsneytis í vegasamgöngum að minnka. Á fyrstu sjö mánuðum ársins varð 4% samdráttur í vegasamgöngum, sem nemur 6 ktoe. Þessi samdráttur bendir til þess að orkuskipti í vegasamgöngum séu farin að skila árangri, þrátt fyrir fjölgun ökutækja og aukna umferð. 

Mikilvægt skref en langt í land 

Þrátt fyrir framfarir í vegasamgöngum er enn langt í að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð. Ef sama notkunarmynstur heldur áfram gæti ársnotkun jarðefnaeldsneytis í vegasamgöngum árið 2024 orðið um 290 ktoe, sem er nokkuð meira en notkunin var árið 2005, viðmiðunarár skuldbindinga Íslands. Á því ári nam notkunin 254 ktoe. 

Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 29% fyrir árið 2030 miðað við 2005. Líklega munu þær skuldbindingar hækka í um 40%. Ef jarðefnaeldsneytisnotkun í vegasamgöngum á að standa undir þessu markmiði þarf hún að vera um helmingi minni en notkun 2024 stefnir í, eða 10% samdráttur á hverju ári frá og með 2025, sem þýðir að notkunin þarf að minnka um rúm 20 ktoe ár hvert. 

Myndræn samantekt á mánaðarlegum gögnum má nálgast hér:  

 https://orkustofnun.is/orkuskipti/eldsneytisnotkun/eldsneytistolur 

Aðgangur að API gagnatenginu má nálgast hér: https://docs.orkustofnun.is/