Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Auglýsing umsóknar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun - Gagnamappa

Auglýsing umsóknar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun - Gagnamappa

23 maí 2024
Auglýsing umsóknar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun - Gagnamappa

Orkustofnun hefur auglýst umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir 95 MW Hvammsvirkjun í Þjórsá í Lögbirtingablaðinu þann 17. maí 2024. Þar er þeim aðilum er málið varðar gefið færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar. Gögn málsins má nálgast með því að smella hér.

Þann 15. júní 2023 úrskurðaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 11 og 12/2023 að fella bæri úr gildi ákvörðun Orkustofnunar, dags. 6. desember 2022, um virkjunarleyfi fyrir 95 MW Hvammsvirkjun í Þjórsá (leyfi OS-2022-L022-01).

Mat nefndin svo að Orkustofnun hefði ekki nægjanlega gætt að ákvæðum laga um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, hvað varðar áhrif virkjunar á vatnshlotið Þjórsá 1, vatnshlotanúmer 103-663-R, og samræmi leyfisveitingar við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun, sbr.:

Orkustofnun hafi sem leyfisveitanda borið að tryggja að leyfið væri í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, sbr. 5. tl. 1. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Vatnshlotið sem um ræði sé nr. 103-663-R, Þjórsá 1, í gildandi vatnaáætlun fyrir 2022–2027 og sé ekki mikið breytt vatnshlot samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar frá 2020. Það merki að samkvæmt bestu þekkingu hafi það því ekki orðið fyrir umtalsverðum vatnsformfræðilegum áhrifum af mannavöldum en ekki hafi farið fram fullt mat á öðrum ástandsþáttum þess, svo sem líffræðilegum gæðaþáttum. Líkur séu á því að með framkvæmdinni muni ástand yfirborðsvatnshlotsins Þjórsár 1 fara niður um flokk. Það hafi verið forsenda þess að Landsvirkjun gæti nýtt vatnsauðlindina að Umhverfisstofnun hafi veitt heimild fyrir breytingu á vatnshloti skv. 18. gr. laga nr. 36/2011, en það hafi stofnunin ekki gert.

Með bréfi, dags. 16. janúar 2023, óskaði Landsvirkjun eftir heimild Umhverfisstofnunar til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá 1 (nr. 103-663-R), með vísan til 18. gr. laga nr. 36/2011. Með bréfi, dags. 9. apríl 2024, heimilaði Umhverfisstofnun umbeðna breytingu á vatnshlotinu.

Að fenginni niðurstöðu Umhverfisstofnunar sendi Landsvirkjun Orkustofnun bréf dags. 10. apríl 2024 og 8. maí 2024 með upplýsingum vegna afstöðu Umhverfisstofnunar og svo uppfærð fylgigögn með umsókn ásamt uppfærslu á umsóknareyðublaði til samræmis við þær breytingar.

Eftirfarandi breytingar hafa verið gerðar á fyrri umsókn:

  • 8. kafli greinargerðar í fylgiskjali 1 hefur verið uppfærður
  • Fylgiskjal 10 sem fjallar um ytri skilyrði, kröfur, mótvægisaðgerðir og vöktun er uppfært í heild sinni með tilliti til skilyrða í leyfi Fiskistofu og kröfu í heimild Umhverfisstofnunar um vöktun.
  • Fylgiskjal 8b er nýtt en þar eru teikning sem sýnir einstaka einingar hins breytta vatnshlots Þjórsá 1 og teikning sem sýnir afmörkun á áhrifasvæði í vatnshlotinu Þverá (103-895-R).
  • Leyfi Fiskistofu er nýtt fylgiskjal 11.
  • Heimild Umhverfisstofnunar er nýtt fylgiskjal 12.
  • Tillaga að vöktunaráætlun vegna lífríkis og eðlisefnafræði er nýtt fylgiskjal 13.
  • Gögn sem Landsvirkjun lagði fram í málsmeðferð Umhverfisstofnunar eru ný fylgiskjöl 14a, 14b, 14c, 14d og 14e.

Orkustofnun hefur farið yfir svo breytt umsóknargögn og metur framkomnar upplýsingar nægjanlegar til áframhaldandi málsmeðferðar.

Umsóknargögn hafa verið vistuð í gagnamöppu fyrir aðila sem óska eftir því að gera athugasemdir við svo uppfærða umsókn Landsvirkjunar um leyfi til að reisa og reka allt að 95 MW Hvammsvirkjun í Þjórsá, með vísan til 4. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, sbr. og 4. mgr. 34. gr. laganna. Gögn málsins má nálgast með því að smella hér.

Samkvæmt 4. mgr. 34. gr. raforkulaga er þeim aðilum er málið varðar gefinn kostur á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar í Lögbirtingablaðinu þar að lútandi.

Auglýsing um Hvammsvirkjun í Þjórsá birtist í Lögbirtingablaðinu þann 17. maí 2024. Umsagnarfrestur er til 14. júní 2024 og fljótlega eftir það verður mappan fjarlægð.

Nánari upplýsingar veita Kristján Geirsson, netfang kg@os.is og Rán Jónsdóttir, netfang ranjon@os.is.

Umsagnir skulu sendar með tölvupósti til Orkustofnunar, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík á netfangið os@os.is.