Útflutningur á íslenskri þekkingu sem dregur úr notkun jarðaefnaeldsneytis
2 október 2023Félagið Arctic Green Energy, sem á rætur á Íslandi, vinnur að þróun átta verkefna í Póllandi. Fjallað var um uppbyggingu fyrirtækisins í Póllandi í mbl.is í vikunni í kjölfar kynningarfundar um möguleika á samstarfi í uppbyggingu hitaveitna og endurnýjanlegrar orku í Póllandi sem haldinn var á hótel Reykjavík Natura. Fundurinn er liður í uppbyggingar- og þjálfunarverkefni á jarðhita í Póllandi, sem unnið er að í samstarfi á milli Orkustofnunar á Íslandi og IGSMiE PAN í Póllandi, á vegum Uppbyggingarsjóðs EES.
„Í þessum verkefnum höfum við alla jafna notast við íslenskar verkfræðistofur þannig að það skiptir okkur miklu máli að Pólverjar komi hingað heim, eins og í dag, til að kynna sér notkun jarðhitans hér á landi,“ sagði Eiríkur Bragason, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Arctic Green Energy, í viðtali við mbl.is. Hann segir þörfina fyrir hreina orku í Póllandi vera gríðarlega og að þessi verkefni geti vaxið mikið að umfangi.
Útflutningur á íslenskri þekkingu
Arctic Green Energy hefur verið að byggja upp varmaorku- og raforkuver sem nýta jarðhita víða um heim. Félagið hefur hingað til aðallega unnið í Asíu þar sem það rekur rúmlega 700 varmaorkuver í félögum sem það á í um helmingshlut. Þar er um að ræða stærsta jarðhitarekstur í heimi með um 6,5 gígavött í varmaorkugetu. Fyrir þremur árum hóf félagið að þróa nokkur verkefni í mið-Evrópu, meðal annars í Póllandi en í Póllandi búa um 40 milljón manns og þar eru um 500 dreifikerfi fyrir heitt vatn í rekstri sem öll eru knúin áfram með heitu vatni sem hitað er upp með kolum og gasi.
Segir Eiríkur að bæði í tengslum við verkefni Arctic Green Energy í Asíu og í Evrópu hafi verið treyst á íslensku verkfræðistofurnar.„Þannig að við erum að flytja út þekkingu í stórum stíl,“ segir Eiríkur.
Pólland eigi mikla möguleika á sviði jarðhita
Fundinn ávörpuðu meðal annars Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra og Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri. Sagði Halla Hrund jarðhita Íslendinga vera gullnámu þjóðarinnar og þekkingarsköpun Íslendinga á sviði nýtingar hans mikilvægt framlag til heimsins. Guðlaugur Þór kvaðst hann stoltur af því að Pólland líti til Íslands þegar kemur að orkumálum og endurnýjanlegri orku. Möguleikar í Póllandi á sviði jarðvarma væru miklir sem skapi bjartsýni um að hægt verði að skipta jarðvarma inn fyrir steinefnaeldsneyti þar í landi. Sagðist hann vona að nýsköpun í orkugeiranum fái að njóta sín í tengslum við verkefnið og sagðist vona að pólskir fundargestir fari aftur til síns heima uppfullir af hugmyndum frá Íslandi um endurnýjanlega orku.
Starf uppbyggingarsjóðsins skili miklum ávinningi
Baldur Pétursson, verkefnastjóri alþjóðlegra verkefna hjá Orkustofnun, segir að verkefni Uppbyggingarsjóðs EES á sviði orku-, umhverfis- og loftslagsmála í Póllandi, sem Ísland tekur meðal annars þátt í, komi til með að skila ávinningi á sviði loftslagsmála sem muni nema um það bil 600 þúsund tonnum minni losun koltvísýrings á hverju einasta ári. Uppbyggingarsjóðurinn veitir styrki til verkefna í 16 löndum í Austur- og Mið-Evrópu, auk Portúgals og Spánar. Orkustofnun er umsjónaraðili með verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku og umhverfis- og loftslagsmála í Póllandi og endurnýjanlegrar orku í Rúmeníu og Búlgaríu.