Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Upplýsingar um bráðabirgðaákvæði í raforkulögum til að efla orkuöryggi almennings

Upplýsingar um bráðabirgðaákvæði í raforkulögum til að efla orkuöryggi almennings

8 desember 2023
Upplýsingar um bráðabirgðaákvæði í raforkulögum til að efla orkuöryggi almennings

Undanfarin ár hafa verið krefjandi í raforkumálum hér á landi. Vatnsstaða í miðlunarlónum Landsvirkjunar hefur verið sögulega lág sem þýðir að minna magn raforku er til ráðstöfunar. Nú í október upplýsti Landsvirkjun Orkustofnun um að staða miðlunarlóna væri það slæm að mögulega þyrfti að grípa til skerðinga í lok árs 2023 og á árinu 2024 ef vatnsstaða myndi ekki breytast til hins betra. Í ljósi mikillar eftirspurnar og sölu á endurnýjanlegri orku hefur lítið svigrúm verið til staðar til að bregðast við sveiflum og áföllum sem geta komið upp í orkukerfinu.

Með setningu raforkulaga frá 2003 var aflögð skylda Landsvirkjunar til að sjá notendum á landinu fyrir fullnægjandi framboði raforku. Núgildandi löggjöf mælir því ekki fyrir um ábyrgð eða skyldu orkuorkufyrirtækja til að afla orku fyrir almenna markaðinn. Áskoranir undanfarið í raforkumálum sýna að þörf er á frekari vernd almennra notanda og er því unnið að lagabreytingum á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sem hefur þann tilgang að efla orkuöryggi almennings.

Slík vinna er flókin og tekur tíma í mótun og innleiðingu. Sú staða sem nú er komin upp kallar hins vegar á aðgerðir þegar í stað í þágu almennings og liggur nú fyrir frumvarp til laga um breytingar á raforkulögum nr. 65/2003 sem efla á raforkuöryggi notenda raforku, annarra en stórnotenda.

Ljóst er að raforkuvinnsla á Íslandi er takmörkuð af stöðu endurnýjanlegra orkuauðlinda hverju sinni. Ekki er hægt að leysa þann tímabundna vanda sem skapast vegna óhagstæðrar vatnsstöðu miðlunarlóna og umfram eftirspurnar hratt með nýjum virkjunum, enda tekur fjölda ára að byggja slíka innviði. Þörf er því á að hægt sé að bregðast við þessum vanda þegar í stað til að tryggja raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja.

Umræðan um mikilvægi raforkuöryggis einskorðast ekki við raforkumarkaðinn hér á landi enda hafði orkukrísan í Evrópu mikil áhrif á raforkuverð sem og orkuöryggi með miklum afleiðingum fyrir almenna notendur, fyrirtæki og iðnað í álfunni allri. Í löggjöf ESB er raforka skilgreind sem markaðsvara þar sem vinnsla, kaup og sala á henni fara fram á viðskiptalegum forsendum á samkeppnismarkaði til að auka verðmætasköpun og hagkvæmni til hagsbóta fyrir neytendur. Markaðslöggjöf ESB veitir ríkjum hins vegar skýrar heimildir til að leggja tilteknar opinberar skyldur á raforkumarkaði við ákveðnar aðstæður í þágu lögmætra markmiða sem að er stefnt. Þannig skal tryggt að öllum heimilisnotendum og smærri fyrirtækjum skuli bjóðast svokölluð alþjónusta. Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um frekari úrbætur á orkumarkaðnum í kjölfar orkukrísunnar í Evrópu miða jafnframt að því að styrkja enn frekar stöðu heimila og fyrirtækja og skilgreina neytendur sem sérstakan hóp sem ber að vernda.

Í takt við löggjöf ESB veitir frumvarp atvinnuveganefndar Alþingis til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (forgangsorka), sem flutt er að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og liggur fyrir í þinginu, lagaheimild til þess að grípa inn í ef fyrirséð er að raforkuskortur verði á almenna markaðinum fyrir raforkunotkun heimila og smærri fyrirtækja. Heimildinni má beita tímabundið við sérstakar aðstæður og eingöngu í þágu almennra notenda. Um varúðarráðstöfun eða neyðarúrræði sem felur um leið í sér hvata fyrirtækja til að tryggja sér orku fyrir þennan hóp fram í tímann og dregur úr líkum á að grípa þurfi til hennar endurtekið. Breytingin tryggir raforkuöryggi almennings ekki að fullu en takmarkar líkur á orkuskorti til þessa hóps. Ákvarðanir um beitingu slíkra heimilda yrðu byggðar á gögnum frá aðilum á orkumarkaði og greiningum þeim tengdum. Munu markaðsaðilar fá aðkomu að máli og fá tækifæri til að sýna fram á að kaup þeirra af heildsölumarkaði séu í þágu almennra notenda.

Frumvarpið leysir ekki allar áskoranir í orkumálum enda markmið þess aðeins að takast á við tímabundinn vanda með hag almennings og heimila í landinu að leiðarljósi, samanber greinargerð ráðuneytis.

Samkvæmt lögum er eitt af hlutverkum Orkustofnunar að vera ríkisstjórninni til ráðgjafar um orkumál og í því felst að benda á alvarlega stöðu í raforkumálum. Orðræða orkumálastjóra á opinberum vettvangi hefur miðað að því að vekja athygli á að ákvæðið skorti til að vernda raforkuöryggi almennings í takt við opinbera orkustefnu Íslands til 2050. Þar er kveðið á með skýrum hætti að „almenningur skuli ávallt vera í forgangi umfram aðra hagsmuni“. Jafnframt hefur orðræðan miðað að því að styðja við lögbundin markmið Íslands er varða orkuskipti og kolefnishlutleysi í takt við alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins.