Orkustofnun og viðbrögð á Reykjanesi
24 nóvember 2023Orkustofnun hefur í samráði við almannavarnir, HS Orku, HS Veitur og Verkís unnið að tillögum að neyðarviðbrögðum varðandi öryggi á Reykjanesi ef allt færi á versta veg í mögulegu eldgosi, og sent til ríkisstjórnarinnar. Unnið er að neyðaráætlun annars sem annars vegar snýr að varavatnsbóli og hins vegar neyðarhitaveitu. Í liðinni viku var gefið út nýtingarleyfi fyrir helgi fyrir varavatnsból í Garði ef vatnstökusvæðið í Lágum færi undir hraun. Orkufyrirtækin, í samvinnu við Orkustofnun, vinna nú að uppsetningu þess.
Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri ræddi um stöðuna og mögulegar aðgerðir við Morgunblaðið fyrr í vikunni. „Ef allt fer á versta veg, og virkjunin í Svartsengi dettur út, þá væri staðan heldur skárri varðandi raforkuhlutann en hitaveituhlutann. Landsnet á töluvert af færanlegu varaafli eftir óveðrið 2019 sem hægt er að nýta fyrir Grindavík sem dæmi og sömuleiðis til að styðja við fyrirtæki og heimili á Reykjanesi til að byrja með. Suðurnesjalína 1 er æð inn á svæðið ásamt Reykjanesvirkjun sem styður þá við þá starfsemi en þó þyrfti vafalítið að skerða raforkuafhendingu hjá stórnotendum og stóriðju,“ sagði Halla en slík staða myndi setja þrýsting á kerfið fyrir allt landið.
Áhersla á að tryggja stöðu almennings í frumvarpi
Fyrir liggur frumvarp á Alþingi sem snýr að raforkuöryggi almennings og er í meðferð atvinnuveganefndar. Frumvarpið miðar að því að koma í veg fyrir að almenningur lendi undir í samkeppni um raforku en um er að ræða breytingatillögu þar sem frumvarpið óbreytt tryggir almenningi ekki slíkan forgang. Halla segir að hætta sé á að almenningur lendi undir í samkeppni um raforku hvort sem um er að ræða vegna náttúruhamfara eða við venjulegar aðstæður verði breytingar ekki gerðar. Samkeppni um raforku sé enda mikil og verði virkjunin í Svartsengi óstarfhæf sé enn mikilvægara að breytingarnar á frumvarpinu nái fram að ganga til að styrkja stöðu almennings á öllu landinu varðandi aðgengi að raforku.
„Við leggjum því áherslu á að breytingarnar nái í gegn og að frumvarpið verði afgreitt fyrir jól.“ Halla bendir á að Orkustofnun hafi unnið ásamt fleirum að tillögum að neyðarviðbrögðum sem snúa sérstaklega að húshitun á Reykjanesi til að fólk geti hitað húsnæði sitt með rafhitun. Því hafi verið unnið markvisst með fyrirtækjunum á svæðinu, HS Orku, HS Veitum ásamt Verkís, og einnig Almannavörnum að tillögum að neyðarviðbrögðum sem fela í sér aðgengi að hitagjöfum eins og litlum rafmagnsblásurum sem dreifikerfið þolir án þess að slá út og geta þá haldið húsum fyrir ofan frostmark til að koma í veg fyrir skemmdir. Í tillögunum er hvatt til þess að aðgengi að búnaði sé tryggt, bæði fyrir rafhitun og einnig fyrir svokallaða neyðarhitaveitu. Þar er átt við varmaskipti vegar, sem eru eins konar millistykki sem tekur einhverjar vikur að smíða, og hins vegar að hitagjafar eins og olíukatlar séu fyrir hendi. Hluti þess búnaðar er til á landinu, eins og hjá Landsvirkjun og Rarik, en annað væri hægt að nálgast í gegnum leigu í neyð.
Almenningur þarf að vera efst á lista í orkumálum
Þá er í tillögunum lögð áhersla á að tryggja aðgengi að búnaði strax en um leið þarf að horfa á frekari nýtingu jarðhita á fleiri stöðum á Reykjanesi. Mikilvægasta langtímalausnin er að tengja hitaveitukerfið við jarðhita á öðrum stöðum sem er hagkvæmari og umhverfisvænni lausn.
„Við skiluðum tillögum til ríkisstjórnarinnar um þarsíðustu helgi og styðjum nú ráðherra og ráðuneyti orkumála í nánari útfærslu og fjármögnun með aðkomu fyrirtækjanna og ÍSOR,“ segir Hall sem segist skynja vilja allra aðila til að fylgja þessum tillögum eftir og vinna saman að því að grípa til aðgerða. Hún leggur áherslu á að þörf sé á að styrkja stöðu almennings burtséð frá náttúruhamförum og því skipti miklu máli að frumvarpið um raforkuöryggi fari í gegn með breytingatillögunum hvort sem til náttúruhamfara kemur eður ei því þá mun Orkustofnun hafa töluvert betri heimildir til að styðja við raforkuöryggi heimila og venjulegra fyrirtækja. „Almenningur þarf alltaf að vera efst á lista í orkumálum eins og við sjáum svo glögglega á stöðunni á Reykjanesi í dag þar sem þúsundir heimila eru undir.“
Frekari fréttir má lesa á eftirtöldum slóðum:
Fleiri fréttir