Orkustofnun efld á sviði stjórnsýslu orku og auðlindamála með ráðningu þriggja nýrra starfsmanna
8 nóvember 2022Gengið hefur verið frá ráðningum í þrjár stöður hjá Orkustofnun, en um er að ræða tvær stöður lögfræðinga á sviði orku og auðlindamála auk ráðningu sérfræðings í beinni nýtingu jarðhita og hitaveitu. Stofnunin vinnur að eflingu stjórnsýslu og aukinni skilvirkni og endurspegla ráðningarnar þá vegferð.
Þau Inga Helga Jónsdóttir og Sigurjón Njarðarson voru ráðin í störf lögfræðinga Orkustofnunar, á sviði raforkueftirlits annars vegar og leyfisveitinga og auðlindamála hins vegar, og var Dr. Heimir Tryggvason ráðinn í stöðu sérfræðings í beinni nýtingu jarðhita og hitaveitum.
Halla Hrund Logadóttir: „Við viljum vanda vel til verka í auðlindanýtingu landsins og hér erum við að styrkja burði okkar til að sinna stjórnsýslu og ráðgjöf til stjórnvalda enn betur með sjálfbærni að leiðarljósi. Við hlökkum til að efla okkur og bæta með þessum öfluga liðsauka.“
Um jarðhitan segir Halla: „Hitaveitan er hjarta þjóðarinnar og partur af lífsgæðum landsmanna. Mikilvægt er að hafa yfirsýn yfir stöðu og framtíðarsýn hitaveitna á Íslandi og að stjórnvöld styðji við hlutverk þeirra með hliðsjón af sjálfbærri auðlindanýtingu og orkuöryggi til langrar framtíðar. Við finnum jafnframt sterkt hvað margar þjóðir horfa til okkar á Íslandi sem fyrirmynd í jarðhitanýtingu, og með því að miðla íslensku hugviti og lausnum höfum við mikil tækifæri að hafa áhrif á orkuskipti og loftslagsmál í Evrópu.“
Inga Helga Jónsdóttir er með LLM gráðu frá Freie University í Þýskalandi, þar sem hún lagði meðal annars stund á evrópskan orkurétt, hún er með ML gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í lögfræði frá sama skóla. Inga starfaði um sjö ára skeið sem Senior Legal Officer hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), þar sem hún hafði umsjón með málum er varða samkeppnisrétt, fjarskiptarétt og ríkisaðstoð auk þess sem hún sinnti erlendu samstarfi. Áður starfaði hún sem sérfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu m.a. við rannsóknir mála, ritun ákvarðana, álita og umsagna og sem lögfræðingur á Fjarskiptastofu með ábyrgð á margvíslegum stjórnsýslumálum.
Sigurjón Njarðarson er með ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í lögfræði frá sama skóla. Hann hefur undanfarin ár starfað sem lögfræðingur hjá Matvælastofnun meðal annars á sviði fiskeldis þar sem hann hafði umsjón með ýmsum stjórnsýslulegum málefnum, ritun umsagna og álitsgerða, sinnt leyfisveitingum og vann að umsögnum til úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála. Sigurjón hefur sinnt ýmsum nefndar og trúnaðarstörfum á vegum Matvælastofnunar auk þess að hafa birt greinar og ritgerðir um lögfræðileg málefni.
Dr. Heimir Tryggvason lauk doktorsprófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2021. Hann lauk meistaragráðu í vélaverkfræði frá DTU árið 2004 þar sem hann lagði áherslu á orkutækni og straumfræðigreinar, og BS gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands.
Heimir hefur undanfarin ár starfað sem ráðgjafi hjá Veitum ohf, við skilgreiningu verkefna í uppbyggingu og viðhaldi hitaveitukerfa og við verkefni á sviði jarðhitavinnslu, flutnings og dreifingar. Hann starfaði áður sem staðarstjóri í byggingarframkvæmdum hjá LNS SAGA ehf, sem verkefnastjóri hjá Mannviti og við verkefnastjórnun hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.