Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Orkuskiptaárið 2023

Orkuskiptaárið 2023

4 janúar 2024
Orkuskiptaárið 2023

Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðstjóri hjá Orkustofnun, fer yfir árið 2023 þegar kemur að orkuskiptum.

Árið 2023 var nokkuð farsælt hvað varðar orkuskipti í vegasamgöngum. Vegasamgöngur eru stærsti einstaki losunarvaldur gróðurhúsalofttegunda á íslenskri ábyrgð og því afar mikilvægt að orkuskipti gangi hratt og örugglega fyrir sig á þeim vettvangi. Hafa ber í huga að þó hér sé fjallað um orkuskipti bifreiða þá eru hagkvæmustu orkuskiptin alltaf að finna í breyttum ferðavenjum, þ.e. að nota bifreiðar hreinlega minna, með göngu, hjólreiðum, almenningssamgöngum og heimavinnu.

Nýskráningar bifreiða

Samkvæmt Samgöngustofu voru rétt tæplega 24 þúsund bifreiðar nýskráðar á göturnar á síðasta ári. Þar af voru tæplega 11 þúsund hreinir rafbílar. Helmingur allra nýskráðra fólksbíla voru hreinir rafbílar sem segir ekki alla söguna því sláandi munur er á nýskráningum heimila og bílaleigna. Nýskráningarhlutfall raf-fólksbíla utan bílaleiga var 71% og 82% ef tengiltvinnbílum er bætt við. Nýskráningarhlutfall raf-fólksbíla var á sama tíma aðeins 16% hjá bílaleigum. Markaðshlutdeild hreinna rafbíla var því afgerandi þegar kemur að nýskráningum heimilisbíla og almennra fyrirtækja þrátt fyrir að 5% vörugjöld hafi verið lögð á rafbíla 2023 og bifreiðagjöld hækkuð. Hæst var hlutfall nýskráðra raf-fólksbíla í desember en þá voru 85% allra nýskráðra fólksbíla hreinir rafbílar eða 1.432 stk.

Bifreiðaflotinn

Einokun jarðefnaeldsneytis í vegasamgöngum hefur svo sannarlega verið rofin. Nú eru yfir 28 þúsund rafbílar í flotanum og 52 þúsund þegar metan- og tengiltvinnbifreiðum er bætt við. Rúmlega 18% bifreiðaflotans í umferð getur því gengið að hluta eða öllu leyti í á hreinni íslenskri orku. Þetta skiptir miklu máli fyrir orkuöryggi, mengun og losun gróðurhúsalofttegunda. Án þessara orkuskipta værum við gróflega að flytja inn 40 milljónum fleiri lítra af olíu en við gerum nú þegar. Þetta samsvarar um 250 þúsund olíutunnum eða rúmlega 700 tunnum á dag. Orkuöryggi Íslands er því kvartmilljón tunnum meira en það væri ef engin orkuskipti hefðu orðið. Losun gróðurhúsalofttegunda væri líka rúmlega 100 þúsund tonnum meiri ef orkuskiptin hefðu ekki komið til. Fylgjast má með þróun orkuskipta á síðum Orkustofnunar og Orkuseturs.

Breytt skatta- og ívilnanaumhverfi

Miklar breytingar á skatta- og ívilnanaumhverfi rafbíla tóku gildi nú um áramót þar sem kílómetragjald var tekið upp fyrir rafbíla þar sem þeir borga 6 kr/km. Með þessum breytingum borga rafbílar samsvarandi gjöld til ríkissjóðs og bensín- og dísilbílar gera nú í gegnum bensín- og olíugjöld á dælu. Stefnan er að sama kílómetragjald leggist á bensín- og dísilbíla á næsta ári. Með þessum breytingum má segja að rafbílar njóti engra ívilnana í rekstri og borgi jafnmikið til reksturs og viðhalds vegakerfisins eins og aðrir bílar. Frábær orkunýtni rafbíla tryggir þó að áfram verða rafbílar mun ódýrari í rekstri en sambærilegir bensín og dísilbílar. Nú um áramótin féll niður VSK ívilnun fyrir rafbíla sem gat að hámarki orðið 1.320 þús. kr. Nýtt stuðningskerfi var tekið upp þar sem sem hægt verður að sækja um fjárfestingastyrk til rafbílakaupa hjá Orkusjóði í gegnum Ísland.is. Umsækjendur fara inn á Ísland.is með rafrænum skilríkjum og ganga frá umsóknum með auðveldum hætti. Styrkur greiðist á bankareikning kaupanda bifreiðarinnar. Nýjar fólksbifreiðar sem kosta undir 10 milljónum króna fá styrk að upphæð 900 þúsund krónur. Nýjar sendibifreiðar sem kosta undir 10 milljónum fá styrk að upphæð 500 þúsund krónur.

Áfram verður því í boði styrkur fyrir flestar gerðir raf-fólksbíla þó að styrkupphæðin sé að jafnaði minni en sem nam VSK afslættinum. Styrkurinn er hærri en býðst í flestum Evrópuríkjum í kringum okkur en spurningin er hvort þessar breytingar hægi á orkuskiptum eða að lækkun á framleiðslukostnaði rafbíla og aukið úrval og gæði tryggi áframhaldandi kraft í orkuskiptum íslenska bílaflotans.

Greinin birtist fyrst á Vísi 4. janúar 2023