Orka, vatn og jarðefni – nýting af alúð í þágu samfélagsins
14 september 2023Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri skrifar:
Íslenska þjóðin er rík af auðlindum, ekki síst þeim sem eru hjartað í umræðunni um verðmæti og lífsgæði þjóða til framtíðar. Náttúra okkar, vatn, jarðhiti, sjávarfang og landbúnaðarafurðir eru skýr dæmi um slíkt. Löggjöf í kringum þessar mismunandi auðlindir er ólík og misumfangsmikil, en eitt af kjarnaverkefnum Orkustofnunar er að veita leyfi til nýtingar hluta þeirra, nánar tiltekið; orku, vatns og jarðefna. Umsóknir um nýtingu berast til Orkustofnunar að afloknu undirbúningsferli sem getur eftir eðli máls falið í sér umhverfismat, rammaáætlun og önnur lagaferli sem eiga við á ólíkum stjórnsýslustigum hverju sinni. Slíkt getur verið tímafrekt en veitir verkefnum um leið mikið aðhald hvað varðar gæði undirbúnings og ákvörðunartöku framkvæmdaraðila, og að tryggja rétt almennings og hagaðila til að koma að málum og veita umsagnir.
Fjölgun leyfisumsókna í öllum málaflokkum
Leyfisumsóknum til nýtingar hefur fjölgað í öllum málaflokkum Orkustofnunar, sem ætti ekki að koma á óvart. Orkuskipti eru í forgrunni stefnu stjórnvalda og eftirspurn eftir orku hefur aukist með orkukrísunni í Evrópu. Vatnsnýting er mikil í vaxandi greinum eins og fiskeldi og sömuleiðis hefur heita vatnið okkar kallað á aukna athygli í samræmi við ferðaþjónustu og fólksfjölgun. Jarðefnanýting á hafsbotni hefur aukist á ný eftir mögur ár í kjölfar hrunsins árið 2008 og utanaðkomandi atburðir, líkt og Úkraínustríðið, aukið eftirspurn eftir skeljasandi sem kalkgjafa á tún þegar dró úr aðgengi að áburði á alþjóðamörkuðum.
Eitt umfangsmesta ár leyfisveitinga í sögu Orkustofnunar
Síðasta ár var eitt umfangsmesta leyfisár í sögu Orkustofnunar en 24 leyfi til nýtingar og rannsókna á auðlindum voru gefin út. Var það afrakstur þess að ferli höfðu verið yfirfarin og skilvirkni aukin án þess að gefa afslátt af gæðum í mati. Er umfangið í raun og veru þrekvirki því stofnunin er sögulega smá í sniðum þótt hún búi yfir afar hæfum mannauði. Þess má geta að í samhengi stærða stofnana er Orkustofnun nær Minjastofnun í starfsmannafjölda sem endurspeglar ekki endilega þá sókn sem stjórnmálin leggja á málaflokkinn á meðan skyldar stofnanir svo sem Umhverfisstofnun og Veðurstofa hafa þrisvar til fimm sinnum fleiri starfsmenn.
Afgreiðslutími og gjaldtaka
Afgreiðslutími leyfa er iðulega til umfjöllunar í þessu samhengi og stofnunin hefur lagt sig fram um að bæta málshraða og um leið vanda málsmeðferð enn frekar með ofangreindum árangri. Á ársfundi Orkustofnunar var farið yfir þá vegferð sem sjá má á myndbandsformi á heimasíðu stofnunarinnar. Almennt er mikilvægt að framkvæmdaraðilar kynni sér vel þær kröfur sem gerðar eru við skil á leyfisumsóknum til að tryggja sem skilvirkasta málsmeðferð þeirra. Annars fer mikill tími, jafnvel margir mánuðir, í að kalla eftir og fá send nauðsynleg gögn frá umsækjendum sem hægir á ferlinu og mati því tengdu.
Í fæstum tilvikum getur Orkustofnun innheimt gjald fyrir þjónustu við leyfisumsækjendur í samræmi við vinnuframlag stofnunarinnar við úrvinnslu leyfisumsókna, líkt og skyldar stofnanir hafa möguleika á. Dregur þetta úr getu stofnunarinnar til að koma til móts við aukinn fjölda umsókna. Orkustofnun hefur undanfarið unnið með ráðuneytinu að bættum heimildum til gjaldtöku fyrir afgreiðslu umsókna og er unnið að frumvarpi þess efnis.
Forgangsröðun ekki leyfð í löggjöf
Í umræðu um leyfismál heyrast reglulega raddir um að flýta eigi þjóðhagslega mikilvægum verkefnum sérstaklega. Sambærilegar kröfur koma einnig frá leyfisumsækjendum um vatnsnýtingu, svo sem fyrir fiskeldi sem er í mikilli sókn víða um land, og sömuleiðis frá fyrirtækjum í jarðefnanýtingu sem vilja anna aukinni eftirspurn. Sjónarmið um möguleika á forgangsröðun er umhugsunarvert og hægt að ræða á vettvangi stjórnmálanna. Stofnunin tekur hins vegar ekki slíkar ákvarðanir heldur vinnur hún á grundvelli gildandi laga sem um starfsemi hennar eru sett. Í dag er ekkert í löggjöf sem gefur færi á að flýta afgreiðslu leyfisumsókna vegna vatns fram yfir jarðefni eða orku á kostnað hinna, eða veita afslátt af skilyrðum eða gæðum leyfisferla í ljósi mikilvægis verkefna hverju sinni eða möguleikum þeirra til vaxtar – enda afsláttur af gæðum ekki í takt við ríka áherslu stjórnvalda á sjálfbæra nýtingu auðlinda.
Mikilvægt að vanda til verka
Samtímis fjölgun leyfisumsókna hafa leyfisferli og lagaumgjörð orðið viðameiri og vitundarvakning orðið um mikilvægi umhverfismála hjá almenningi sem sést meðal annars í fjölda umsagna og kærumála. Er það vel því að það veitir stjórnsýslunni aðhald, styrkir og bætir niðurstöður mála og ákvarðanir. Orkustofnun leggur höfuðáherslu á að vanda allar leyfisveitingar. Það er líka skylda okkar sem stjórnvalds því að við veitum aðgang til nýtingar margra helstu náttúruauðlinda landsins, og stundum ráðstafa slík leyfi mikilvægum gæðum jafnvel ótímabundið. Leyfisveitingaferlið felur í sér ítrekuð samskipti, spurningar og athugasemdir við umsækjendur varðandi efni umsókna, við sérfræðistofnanir og/eða almenning og greiningu á samspili mismunandi hagsmuna og lagabálka. Hagur umsóknaraðila er einnig fólginn í því að vandað sé til verka við leyfisveitingar því þannig standast leyfi frekar gagnrýni og kærur og verkefni því líklegri til vera unnin í sátt við samfélagið.
Jafnræði stjórnsýslunnar sama hver á í hlut
Ólíkir hagsmunir koma oft saman í auðlindanýtingu og eru misháværir í umræðunni hverju sinni. Þá er mikilvægt að vita að það skiptir ekki máli hver þú ert eða hversu stór þú ert, þú getur treyst á jafnræði og fagleg vinnubrögð stjórnsýslunnar. Orkustofnun sinnir öllum þeim sem að málum koma á jafnræðisgrunni, ekki sem hagsmunaaðili eins eða neins, heldur sem þjónustuaðili í framkvæmd laganna með áherslu á að nýta auðlindir af alúð og sjálfbærni, samfélaginu og landinu okkar til heilla.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2023