Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Orka, vatn og jarðefni – nýting af alúð í þágu samfélagsins

Orka, vatn og jarðefni – nýting af alúð í þágu samfélagsins

14 september 2023
Orka, vatn og jarðefni – nýting af alúð í þágu samfélagsins

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri skrifar:

Íslenska þjóðin er rík af auðlind­um, ekki síst þeim sem eru hjartað í umræðunni um verðmæti og lífs­gæði þjóða til framtíðar. Nátt­úra okk­ar, vatn, jarðhiti, sjáv­ar­fang og land­búnaðar­af­urðir eru skýr dæmi um slíkt. Lög­gjöf í kring­um þess­ar mis­mun­andi auðlind­ir er ólík og mis­um­fangs­mik­il, en eitt af kjarna­verk­efn­um Orku­stofn­un­ar er að veita leyfi til nýt­ing­ar hluta þeirra, nán­ar til­tekið; orku, vatns og jarðefna. Um­sókn­ir um nýt­ingu ber­ast til Orku­stofn­un­ar að afloknu und­ir­bún­ings­ferli sem get­ur eft­ir eðli máls falið í sér um­hverf­is­mat, ramm­a­áætl­un og önn­ur laga­ferli sem eiga við á ólík­um stjórn­sýslu­stig­um hverju sinni. Slíkt get­ur verið tíma­frekt en veit­ir verk­efn­um um leið mikið aðhald hvað varðar gæði und­ir­bún­ings og ákvörðun­ar­töku fram­kvæmd­araðila, og að tryggja rétt al­menn­ings og hagaðila til að koma að mál­um og veita um­sagn­ir.

Fjölg­un leyf­is­um­sókna í öll­um mála­flokk­um

Leyf­is­um­sókn­um til nýt­ing­ar hef­ur fjölgað í öll­um mála­flokk­um Orku­stofn­un­ar, sem ætti ekki að koma á óvart. Orku­skipti eru í for­grunni stefnu stjórn­valda og eft­ir­spurn eft­ir orku hef­ur auk­ist með orkukrís­unni í Evr­ópu. Vatnsnýt­ing er mik­il í vax­andi grein­um eins og fisk­eldi og sömu­leiðis hef­ur heita vatnið okk­ar kallað á aukna at­hygli í sam­ræmi við ferðaþjón­ustu og fólks­fjölg­un. Jarðefna­nýt­ing á hafs­botni hef­ur auk­ist á ný eft­ir mög­ur ár í kjöl­far hruns­ins árið 2008 og ut­anaðkom­andi at­b­urðir, líkt og Úkraínu­stríðið, aukið eft­ir­spurn eft­ir skeljasandi sem kalk­gjafa á tún þegar dró úr aðgengi að áburði á alþjóðamörkuðum.

Eitt um­fangs­mesta ár leyf­is­veit­inga í sögu Orku­stofn­un­ar

Síðasta ár var eitt um­fangs­mesta leyf­is­ár í sögu Orku­stofn­un­ar en 24 leyfi til nýt­ing­ar og rann­sókna á auðlind­um voru gef­in út. Var það afrakst­ur þess að ferli höfðu verið yf­ir­far­in og skil­virkni auk­in án þess að gefa af­slátt af gæðum í mati. Er um­fangið í raun og veru þrek­virki því stofn­un­in er sögu­lega smá í sniðum þótt hún búi yfir afar hæf­um mannauði. Þess má geta að í sam­hengi stærða stofn­ana er Orku­stofn­un nær Minja­stofn­un í starfs­manna­fjölda sem end­ur­spegl­ar ekki endi­lega þá sókn sem stjórn­mál­in leggja á mála­flokk­inn á meðan skyld­ar stofn­an­ir svo sem Um­hverf­is­stofn­un og Veður­stofa hafa þris­var til fimm sinn­um fleiri starfs­menn.

Af­greiðslu­tími og gjald­taka

Af­greiðslu­tími leyfa er iðulega til um­fjöll­un­ar í þessu sam­hengi og stofn­un­in hef­ur lagt sig fram um að bæta máls­hraða og um leið vanda málsmeðferð enn frek­ar með of­an­greind­um ár­angri. Á árs­fundi Orku­stofn­un­ar var farið yfir þá veg­ferð sem sjá má á mynd­bands­formi á heimasíðu stofn­un­ar­inn­ar. Al­mennt er mik­il­vægt að fram­kvæmd­araðilar kynni sér vel þær kröf­ur sem gerðar eru við skil á leyf­is­um­sókn­um til að tryggja sem skil­virk­asta málsmeðferð þeirra. Ann­ars fer mik­ill tími, jafn­vel marg­ir mánuðir, í að kalla eft­ir og fá send nauðsyn­leg gögn frá um­sækj­end­um sem hæg­ir á ferl­inu og mati því tengdu.

Í fæst­um til­vik­um get­ur Orku­stofn­un inn­heimt gjald fyr­ir þjón­ustu við leyf­is­um­sækj­end­ur í sam­ræmi við vinnu­fram­lag stofn­un­ar­inn­ar við úr­vinnslu leyf­is­um­sókna, líkt og skyld­ar stofn­an­ir hafa mögu­leika á. Dreg­ur þetta úr getu stofn­un­ar­inn­ar til að koma til móts við auk­inn fjölda um­sókna. Orku­stofn­un hef­ur und­an­farið unnið með ráðuneyt­inu að bætt­um heim­ild­um til gjald­töku fyr­ir af­greiðslu um­sókna og er unnið að frum­varpi þess efn­is.

For­gangs­röðun ekki leyfð í lög­gjöf

Í umræðu um leyf­is­mál heyr­ast reglu­lega radd­ir um að flýta eigi þjóðhags­lega mik­il­væg­um verk­efn­um sér­stak­lega. Sam­bæri­leg­ar kröf­ur koma einnig frá leyf­is­um­sækj­end­um um vatnsnýt­ingu, svo sem fyr­ir fisk­eldi sem er í mik­illi sókn víða um land, og sömu­leiðis frá fyr­ir­tækj­um í jarðefna­nýt­ingu sem vilja anna auk­inni eft­ir­spurn. Sjón­ar­mið um mögu­leika á for­gangs­röðun er um­hugs­un­ar­vert og hægt að ræða á vett­vangi stjórn­mál­anna. Stofn­un­in tek­ur hins veg­ar ekki slík­ar ákv­arðanir held­ur vinn­ur hún á grund­velli gild­andi laga sem um starf­semi henn­ar eru sett. Í dag er ekk­ert í lög­gjöf sem gef­ur færi á að flýta af­greiðslu leyf­is­um­sókna vegna vatns fram yfir jarðefni eða orku á kostnað hinna, eða veita af­slátt af skil­yrðum eða gæðum leyf­is­ferla í ljósi mik­il­væg­is verk­efna hverju sinni eða mögu­leik­um þeirra til vaxt­ar – enda af­slátt­ur af gæðum ekki í takt við ríka áherslu stjórn­valda á sjálf­bæra nýt­ingu auðlinda.

Mik­il­vægt að vanda til verka

Sam­tím­is fjölg­un leyf­is­um­sókna hafa leyf­is­ferli og lagaum­gjörð orðið viðameiri og vit­und­ar­vakn­ing orðið um mik­il­vægi um­hverf­is­mála hjá al­menn­ingi sem sést meðal ann­ars í fjölda um­sagna og kæru­mála. Er það vel því að það veit­ir stjórn­sýsl­unni aðhald, styrk­ir og bæt­ir niður­stöður mála og ákv­arðanir. Orku­stofn­un legg­ur höfuðáherslu á að vanda all­ar leyf­is­veit­ing­ar. Það er líka skylda okk­ar sem stjórn­valds því að við veit­um aðgang til nýt­ing­ar margra helstu nátt­úru­auðlinda lands­ins, og stund­um ráðstafa slík leyfi mik­il­væg­um gæðum jafn­vel ótíma­bundið. Leyf­is­veit­inga­ferlið fel­ur í sér ít­rekuð sam­skipti, spurn­ing­ar og at­huga­semd­ir við um­sækj­end­ur varðandi efni um­sókna, við sér­fræðistofn­an­ir og/​eða al­menn­ing og grein­ingu á sam­spili mis­mun­andi hags­muna og laga­bálka. Hag­ur um­sókn­araðila er einnig fólg­inn í því að vandað sé til verka við leyf­is­veit­ing­ar því þannig stand­ast leyfi frek­ar gagn­rýni og kær­ur og verk­efni því lík­legri til vera unn­in í sátt við sam­fé­lagið.

Jafn­ræði stjórn­sýsl­unn­ar sama hver á í hlut

Ólík­ir hags­mun­ir koma oft sam­an í auðlinda­nýt­ingu og eru mis­há­vær­ir í umræðunni hverju sinni. Þá er mik­il­vægt að vita að það skipt­ir ekki máli hver þú ert eða hversu stór þú ert, þú get­ur treyst á jafn­ræði og fag­leg vinnu­brögð stjórn­sýsl­unn­ar. Orku­stofn­un sinn­ir öll­um þeim sem að mál­um koma á jafn­ræðis­grunni, ekki sem hags­munaaðili eins eða neins, held­ur sem þjón­ustuaðili í fram­kvæmd lag­anna með áherslu á að nýta auðlind­ir af alúð og sjálf­bærni, sam­fé­lag­inu og land­inu okk­ar til heilla.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2023