Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Greining leiðir í ljós mikil tækifæri í betri raforkunýtni

Greining leiðir í ljós mikil tækifæri í betri raforkunýtni

21 nóvember 2023
Greining leiðir í ljós mikil tækifæri í betri raforkunýtni

Nýta má raforku á Íslandi mun betur en nú er gert, eða sem nemur um átta prósent af núverandi heildarraforkunotkun þjóðarinnar, sem jafngildir um 1.500 GWst á ári. Þetta er meðal þess sem fram kemur í greiningu dönsku ráðgjafastofunnar Implement sem unnin var fyrir Landsvirkjun, Orkustofnun og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

Markmið greiningarinnar var að:

  • Skapa sameiginlegan skilning á umfangi tækifæra á Íslandi til bættrar orkunýtni og raforkusparnaðar.
  • Stuðla að aukinni vitund almennings, stjórnvalda og orkugeirans um orkunýtni.
  • Stuðla að málefnalegri umræðu um orkuþörf landsins.

Notast var við gögn frá Orkustofnun, gögn um orkunotkun í Evrópu og upplýsingar frá hagaðilum og notendum raforku.

Helstu niðurstöður greiningarinnar eru meðal annars þær að hægt er að ná fram orkusparnaði á flestum sviðum samfélagsins, meðal annars í þjónustugeiranum, á heimilum og í orkufrekri stóriðju, eða 320 GWst. Þá er einnig að finna stór tækifæri í bættri orkunýtni til hitunar þar sem notast er við raforku (178 GWst), endurnýtingu glatvarma frá iðnaði (357 GWst) og bættri nýtni raforku í áliðnaði (112 GWst). Þá eru einnig tækifæri til bættrar nýtingar innan heimila (58 GWst), í landbúnaði (43 GWst), í framleiðslu járnlausra málma (38 GWst) og hjá fiskimjölsverksmiðjum (24 GWst). Einnig felast tækifæri í því að minnka töp í flutningskerfi raforku (25 GWst).

Einnig kemur fram að loftslagsmarkmið stjórnvalda sem fela í sér hröðun umskipta yfir í græna orku, fyrirsjáanleg fólksfjölgun og vöxtur atvinnulífsins munu kalla á aukna eftirspurn á endurnýjanlegri raforku á næstu árum og áratugum. Til að mæta aukinni eftirspurn sé nauðsynlegt að draga úr orkusóun og nýta þannig endurnýjanlegar orkuauðlindir þjóðarinnar á enn ábyrgari hátt og efla orkuvinnslu í landinu.

Talið er að hægt sé að ná 24% af þeim orkusparnaði sem greiningin dregur fram á næstu fimm árum og 53% á næsta áratug.

Íslensk útgáfa skýrslunnar

Ensk útgáfa skýrslunnar

Einnig er hægt að horfa á upptöku af streymi kynningarfundar á greiningunni á meðfylgjandi slóð. Athugið að fundurinn sjálfur hefst ekki fyrr en á tólftu mínútu upptökunnar: https://vimeo.com/event/3895336/27f50999aa

Dagskrá fundarins:

  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra,  opnar fundinn.
  • Hvað er orkunýtni? Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsbreytinga og nýsköpunar hjá Orkustofnun.
  • Fugl í hendi - verðmætin í minni sóun - Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og grænna lausna hjá Landsvirkjun.
  • Tækifæri til bættrar raforkunýtni á Íslandi – Martin Bo Hansen, meðeigandi Implement og sérfræðingur í orku- og loftslagsmálum, kynnir niðurstöður greiningar á tækifærum til bættrar raforkunýtni á Íslandi.

Fundinum var streymt á Facebook-viðburðum Landsvirkjunar, Orkustofnunar og Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytisins auk þess sem einnig var beint streymi á Visir.is og Mbl.is.