Ný rannsókn um raforkumarkað á Norðurlöndunum
6 maí 2024Í lok apríl birti Nordic Energy Research nýja rannsókn um smásölumarkaði raforku á Norðurlöndunum og bendir þar á tækifæri til umbóta til að auka velferð og traust meðal viðskiptavina. Rannsóknin greinir frá því hvernig smásölumarkaðir með raforku virka með því að meta reglugerðir, samkeppni og ánægju viðskiptavina í hverju landi fyrir sig. Markmið rannsóknarinnar er að bera kennsl á sameiginlegar aðferðir og stuðla að gagnkvæmum lærdómi.
Hvernig virkar raforkumarkaðurinn á Íslandi?
Samkeppni á íslenskum raforkumarkaði hefur aukist undanfarin ár, en er enn takmarkaðri en í öðrum norrænum löndum. Nú eru níu raforkusalar á smásölumarkaði og þar af eru fimm stærstu raforkusalarnir með 85% markaðshlutdeild af heildarmarkaðnum. Niðurstöður benda til þess að nokkur samkeppni ríkir á raforkusölumarkaði, en samkeppni í heildsölu raforku er takmörkuð. Samkvæmt Nordic Energy Research er megin orsökin ríkjandi markaðsstaða Landsvirkjunar. Landsvirkjun framleiðir um 70% af raforku landsins og er 80% af framleiddri orku seld til stórnotenda með langtíma samningum.
Nordic Energy Research greinir frá því að skortur á virkum heildsölumarkaði og fjármálamarkaði fyrir rafmagn torveldi áhættustýringu og samkeppnishæft verð til almennra notenda. Lítil virkni þessara markaða leiðir til örðugleika við setningu skilvirks framtíðar raforkuverðs sem getur leitt af sér sveiflur í verði til neytenda til lengri tíma litið.
Almennir notendur
Á íslenska raforkumarkaðnum geta almennir notendur, þ.e.a.s. heimili og smærri fyrirtæki, valið sér raforkusala. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að auka samkeppni og lækka kostnað fyrir neytendur. Hins vegar eru tilfærslur neytenda milli raforkusala og samninga fátíðar, sem rekja má m.a. til nokkurra þátta.
Til að mynda sjá neytendur takmarkaða sparnaðarmöguleika í nýjum samningum. Margir eru ánægðir með núverandi samninga, en einnig þykir neytendum erfitt að fá upplýsingar um núverandi samninga. Þetta bendir til þess að samkeppni um verð sé takmörkuð eða að raforkunotkun heimila sé svo lítil að jafnvel smávægilegar verðbreytingar skili ekki verulegum sparnaði. Einungis 22% af neytendum sem svöruðu könnun Nordic Energy Research höfðu borið saman raforkusamninga eða skipt um raforkusala. Niðurstöðurnar benda til þess að íslenski raforkusölumarkaðurinn sé ekki nægilega virkur.
Geta til að auka ánægju og traust neytenda
Til að auka ánægju og traust neytenda á íslenskum orkumarkaði þarf að bæta gegnsæi og þjónustu við viðskiptavini. Skilvirk samskipti um val í orkukaupum og verðlagningu, ásamt viðbragðsfljótum þjónustudeildum, eru lykilatriði í að byggja upp traust. Auk þess er mikilvægt að veita skýrar og aðgengilegar upplýsingar um kosti þess að skipta um orkusala og hvernig hægt er að framkvæma skiptin, sem gæti aukið samkeppni á markaði og ánægju viðskiptavina.
Samskonar viðfangsefni Norðurlanda
Mikil tækifæri eru til að auka ánægju og traust viðskiptavina á Norðurlöndunum með umbótum á borð við betri upplýsingagjöf til neytenda, þróun verðsamanburðar, aukna neytendavernd og upplýsingamiðlun raforkusala til notenda. Rannsóknin sýnir hvers vegna samstarf milli Norðurlandanna er mikilvægt og hvernig aukið samstarf getur leyst sameiginlegar áskoranir raforkumarkaða.
Lesa má nánar um niðurstöður rannsóknar Nordic Energy Research á íslenska raforkumarkaðnum hér.
Hægt er að horfa á kynningu um framkvæmd og niðurstöður rannsóknar Nordic Energy Research hér.
Fleiri fréttir