Ný gögn um tekjur dreifiveitna
8 september 2023Ný gögn um tekjur dreifiveitna
Raforkueftirlit Orkustofnunar hefur birt tekjumörk dreifiveitna vegna ársins 2022. Tekjumörkin eru heildartekjur sem sérleyfisfyrirtæki mega hafa að viðbættum óviðráðanlegum kostnaði. Gjaldskrárbreytingar fyrirtækjanna eru einnig sendar til Raforkueftirlitsins til yfirferðar áður en þær taka gildi. Í ár eru útreikningar fyrir uppgjör tekjumarka dreifiveitna birtir með niðurstöðunum í fyrsta skipti til að auka gagnsæi og skilning á forsendum gjaldskráa. Tekjur flestra dreifiveitna á árinu 2022 voru ekki nægar til að standa undir öllum kostnaði.
Uppgjör tekjumarkanna sýnir að tekjur Veitna voru vanteknar um 2,4% hins vegar voru tekjur HS Veitna ofteknar um 3,4% árið 2022. Tekjur Orkubús Vestfjarða voru vanteknar um 10,3% fyrir þéttbýli og 18,7% fyrir dreifbýli. Tekjur RARIK voru vanteknar um 12,5% fyrir þéttbýli og 8,6% fyrir dreifbýli. Tekjur Norðurorku voru vanteknar um 8,0%.
Vanteknar tekjur þýðir að dreifiveiturnar nýttu ekki þær tekjur sem Orkustofnun ákvarðaði fyrir þær til að tryggja nægar fjárfestingar, rekstraröryggi og aðra þjónustu.
Rafmagn er flutt frá virkjunum af flutningsfyrirtækinu og dreift áfram á hverju svæði af dreifiveitum. Flutningsfyrirtæki og dreifiveitur hafa sérleyfi á sinni starfsemi og því eru tekjur þeirra ákvarðaðar af Orkustofnun.
Nánari upplýsingarnar er að finna á eftirfarandi vefsíðu: www.orkustofnun.is/raforkueftirlit/tekjumork