Kerfisáætlun Landsnets samþykkt af Raforkueftirliti Orkustofnunar
13 febrúar 2024Raforkueftirlit Orkustofnunar hefur samþykkt Kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2023-2032. Áætlunin snýr að uppbyggingu og rekstri á flutningskerfi raforku sem liggur um allt Ísland. Kerfið tengir saman raforkuframleiðslu, dreifiveitur sem tengja minni notendur og stórnotendur sem tengjast flutningskerfinu beint.
Styrking meginflutningskerfisins frá Hvalfirði og norður í land með Holtavörðuheiðarlínu ásamt Blöndulínu mun koma á 220 kV tengingu við kerfið á Austurlandi. Þetta mun auka flutningsgetu á milli landshluta og bæta nýtingu virkjana á landinu öllu. Nýtt 220 kV tengivirki á Hryggstekk á Austurlandi mun færa fiskimjölsverksmiðjur inn fyrir flöskuháls í kerfinu og auka aðgengi þeirra að raforku auk þess að bæta raforkuöryggið á svæðinu. Þetta mun bæta nýtingu núverandi virkjana um að minnsta kosti 300 GWh.
Á framkvæmdaáætlun er tenging tveggja nýrra virkjanakosta, Búrfellslundar og Hvammsvirkjunar. Búrfellslundur er 120 MW með 30 vindmyllum og er fyrsti vindorkulundurinn sem mun tengjast flutningskerfinu. Hvammsvirkjun er 95 MW vatnsaflsvirkjun og mun nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar.
Nýr afhendingarstaður Landsnets á Laugarbakka í Húnaþingi er á miðri leið milli höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar. Hann mun styðja uppbyggingu innviða fyrir hleðslustöðvar sem nýtast bæði einkabílum og stærri bifreiðum við orkuskipti.
Auk framgreindar verkefna er styrking á flutningskerfinu á Suðurfjörðum Vestfjarða, Suðurnesjalína 2, Þorlákshafnarlína, Vestmannaeyjarlínur, Kópaskerslína 1, Dalvíkurlína 2, ásamt styrkingu og endurnýjun kerfisins á ýmsum stöðum á landinu. Það er mat Raforkueftirlits Orkustofnunar að verkefnin í kerfisáætlun Landsnets muni stuðla að auknu öryggi og áreiðanleika flutningskerfisins. Auk þess er uppbygging flutningskerfisins ein grunnforsenda orkuskipta.
Hægt er að nálgast Ákvörðun Raforkueftirlits Orkustofnunar hér.
Ef upplýsinga er óskað er hægt að samband við Þorstein Sigurjónsson verkfræðing raforkumála hjá ROE eða Hönnu Björg Konráðsdóttur Deildarstjóra ROE.