Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Ísland - leiðandi þjóð í orkuskiptum

Ísland - leiðandi þjóð í orkuskiptum

2 janúar 2023

Orkumálastjóri fór yfir árið í orkumálum í pistli sem birtist í Morgunblaðinu á gamlársdag, 31. desember 2022.

Árið í orkumálum var sögulegt fyrir margar sakir og ekki aðeins af góðu. Strax í byrjun árs fór saman ein versta vatnsstaða í lónum Landsvirkjunar í hátt í 50 ár, mikil sala til iðnaðar og tíðar bilanir í virkjunum. Sú staða leiddi til skerðinga á afhendingu rafmagns til þeirra sem keypt höfðu orku á lægra verði og olíunotkun jókst umtalsvert. Umræðan um olíuna var hávær, sér í lagi í samhengi við loftslagsmarkmiðin sem stjórnvöld hafa sett sér. Við þetta bættist veðurofsi í upphafi árs sem olli einum mestu rafmagnstruflunum í 30 ár þegar vetur konungur hnyklaði vöðvana, líkt og hann gerði aftur nýlega.

Innrás Rússa í Úkraínu í febrúar breytti svo landslagi orkumála Evrópu á einni nóttu og setti umræðuna um mikilvægi orkusjálfstæðis og grænnar framtíðar rækilega á dagskrá alþjóðamála. Þessi grundvallarbreyting á samskiptum Rússa og Evrópusambandsins mun að öllu óbreyttu vara næstu árin, enda ekki einfalt mál að snúa risavöxnu orkuskipi álfunnar í nýja átt. Það á bæði við þegar kemur að orkuinnflutningi frá öðrum ríkjum en Rússlandi, en ekki síst þegar kemur að uppbyggingu grænnar orkuframleiðslu á meginlandinu. ESB leggur nú allt sitt kapp slíkt og hvetur aðrar þjóðir til dáða, eins og kom fram á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP27) sem fram fór fyrir skömmu.

Umhleypingar ársins höfðu áhrif hér á landi og voru að mörgu leyti eins konar álagspróf á lagaumgjörð orkumálanna. Starfsfólk Orkustofnunar hefur verið vakið og sofið yfir áskorunum ársins og unnið að þörfum umbótum innan stjórnsýslu orkumála til að styðja við að við séum með öflug og áfallaþolin orkukerfi með sjálfbærni og loftslagsmarkmið stjórnvalda að leiðarljósi. Auk þessara mikilvægu málefna einkenndist árið af endurskipulagningu Orkustofnunar. Í nýju skipulagi er stóraukin áhersla á loftslagsmál, orkuskipti og nýsköpun, greiningar og gagnamál, sterkari stjórnsýslu og ráðgjöf til stjórnvalda. Stofnunin hefur umbreyst og eflst með sterkum mannauði og er mun betur í stakk búin að mæta áskorunum nýrra tíma.

Hér á eftir getur að líta nokkur dæmi um málefni sem voru fyrirferðarmikil í starfsemi Orkustofnunar á árinu.

Kalda vatnið aldrei vinsælla

Hreint og tært grunnvatn er ein verðmætasta auðlind Íslendinga. Mikill fjöldi leyfisumsókna um nýtingu grunnvatnsauðlinda barst til Orkustofnunar á árinu. Meginástæða eftirspurnarinnar er vegna landeldis, sem er atvinnugrein í örum vexti. Vatnsnotkun einstakra verkefna getur verið mjög mikil, eins og dæmin sýna í Ölfusi þar sem fyrirætlanir um uppbyggingu fiskeldis og annarrar atvinnustarfsemi þýða notkun sem er þreföld kaldavatnsnotkun Reykjavíkurborgar. Orkustofnun hefur mikilvægt hlutverk þegar að kemur að nýtingu og eftirliti með vatnstöku. Auk þess leggur stofnunin áherslu á að kaldavatnsauðlindin sé kortlögð betur, sem og áhrif nýtingar hennar á sjálfbærni og gæði vatns. Þannig má tryggja að kalda vatnið stuðli að velsæld og áframhaldandi atvinnusköpun um land allt til framtíðar.

Nýting jarðefna í nýju samhengi

Vinnsla jarðefna er umfangsmikil atvinnugrein á Íslandi og á árinu var umræðan um nýtingu þeirra til útflutnings áberandi. Í þeim tilfellum þar sem nýting jarðefna fer fram á jörðum í einkaeigu er hún ekki leyfisskyld hjá Orkustofnun samkvæmt auðlindalögum. Hafa ber í huga að á þeim tíma er lögin voru sett var markmiðið að tryggja heimanot bænda og uppbyggingu innviða, s.s. vegna vegagerðar og húsbyggingar í landinu. Þau voru því ekki hönnuð fyrir jafn umfangsmikla efnistöku og nú eru áætlanir um, s.s. stórtækan útflutning í tengslum við tækifæri nýrra tíma. Helsta brotalöm núverandi lagaumgjarðar er að enginn einn aðili hefur þá ábyrgð að hafa yfirsýn eða eftirlit varðandi framkvæmd efnistöku á landi. Hér er því tækifæri til úrbóta sem gæti jafnframt aukið traust á greininni og tryggt ábyrga nýtingu jarðefna til verðmætasköpunar.

Hitaveiturnar og lífsgæðin

Hitaveiturnar eru réttilega oft kallaðar lífæð þjóðarinnar. Orkustofnun heldur utan um jarðhitanýtingu til húshitunar, þjónustu og iðnaðar og gaf út uppfærða jarðvarmaspá á árinu. Um 70% af varmanotkuninni er til hitunar heimila, þjónustubygginga og fyrirtækja en 30% til iðnaðar, matvælaframleiðslu, sundlauga og snjóbræðslu. Ásókn í heitt vatn til atvinnustarfsemi er sífellt að færast í aukana. Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) vinna nú að því að kortleggja stöðu hitaveitna á landsvísu svo stjórnvöld geti stutt við sjálfbæra þróun þeirra og orkuöryggi almennings til húshitunar um langa framtíð. Jafnframt tekur Orkustofnun þátt í verkefni Húsnæðis-

og mannvirkjastofnunar þar sem unnið er að greiningu á tækifærum til bættrar orkunýtni í mannvirkjum. Ljóst er að fjölmörg tækifæri eru til staðar til að nýta betur jarðhitaauðlindina svo hún þjóni okkur sem best til framtíðar og ættum við öll, almenningur og atvinnulíf, að grípa þau báðum höndum. Erlend samvinna á sviði jarðhita jókst einnig á árinu, en Orkustofnun vinnur þar sérstaklega náið með Póllandi, Rúmeníu og Búlgaríu á sviði Uppbyggingarsjóðs EES, ásamt því að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að efla framþróun orkugjafans um víða veröld.

Forgangur almennings að raforku

Raforkuöryggi almennings var ofarlega á blaði í vinnu ársins hjá Orkustofnun. Í núverandi lagaumgjörð hafa heimilin og hefðbundin fyrirtæki ekki forgang að raforku, né eru til staðar heimildir fyrir stjórnvöld til að kveða á um slíkan forgang við erfiðar aðstæður. Í vetur, þegar takmörkuð orka var á lausu í kerfinu og eftirspurn mikil, reyndi á þetta með beinum hætti. Orkustofnun leiddi hóp er varðar orkuöryggi, skipaðan af ráðherra orkumála, og vinnur ráðuneytið nú að útfærslu á löggjöfinni. Ljóst er að sú löggjöf er grundvallarhagsmunamál fyrir orkuöryggi og verðþróun til heimila og fyrirtækja og gefst nú tækifæri til að læra af hinu stóra álagsprófi orkumarkaða Evrópu frá því í vetur. Auk umbóta á raforkuöryggi almennings hefur Orkustofnun lagt áherslu á þróun raforkuinnviða í þágu orkuöryggis á landsbyggðinni og orkuskipta sem er langt frá því að vera lokið. Sömuleiðis hefur netöryggi raforkuinnviða verið ofarlega á dagskrá hjá stofnuninni.

Sjálfbær nýting og aukin áhersla á nýtni

Alþingi ákveður hvaða orkukostir fara í nýtingarflokk í rammaáætlun og í ár var níu ára kyrrstaða þar rofin undir forystu ráðherra málaflokksins. Því má gera ráð fyrir frekari aukningu í umsóknum virkjunarleyfa. Orkustofnun hefur verið gagnrýnd fyrir langan málsmeðferðartíma sem stofnunin tekur alvarlega. Vinnur stofnunin markvisst að því að efla þjónustu sína með nýju skipulagi og mannauði. Til að efla gagnsæi leyfisveitingaferlisins og auka upplýsingagjöf hefur Orkustofnun þróað mælaborð leyfisveitinga sem kynnt verður í byrjun 2023. Stofnunin mun áfram vanda til verka við málsmeðferð virkjunarumsókna, sem gilda ótímabundið og snúa með beinum hætti að nýtingu auðlinda landsins, og setja nýtingunni viðeigandi skilyrði með sjálfbærni að leiðarljósi.

Samhliða nýjum virkjunarmöguleikum var einnig horft á möguleika til betri nýtni. Afgreitt var frumvarp um að nýta núverandi virkjanir betur sem er lykilþáttur ábyrgrar auðlindanýtingar. Orkustofnun beitti sér einnig fyrir lagabreytingum um einföldun á uppsetningu varmadælna hjá einstaklingum á rafhituðum svæðum. Nú hafa yfir 40 umsóknir verið afgreiddar í þessu nýja kerfi sem skila raforkusparnaði upp á um 600 þúsund kWh eða sem samsvarar raforkunotkun 250 rafbíla.

Vindorkan og leiðin fram á við

Með innleiðingu ramma ESB hefur landslag orkumálanna breyst hratt. Skýrasta birtingarmyndin eru þau 34 vindorkuverkefni sem komið hafa á borð 4. áfanga rammaáætlunar. Ljóst er að umgjörð skortir sárlega um þennan málaflokk en von er á frumvarpi á nýju ári. Vindgæði eru mikil í lögsögu Íslands og vindorka getur að mörgu leyti fallið vel við orkukerfi landsins. Vindurinn blæs t.d. meira á veturna þegar minna vatn er í lónum en hægist um á sumrin þegar lónstaða batnar. Ólíkt Evrópu, býr Ísland yfir fjölbreyttu úrvali endurnýjanlegra orkuauðlinda og hefur því meiri nýtingarmöguleika en stendur jafnframt frammi fyrir stærri áskorun um meðhöndlun einstakra náttúrugæða og þarf að taka ábyrgar ákvarðanir sem henta ólíkum landsvæðum. Virði náttúru vex á tímum loftslagsbreytinga og áhrif nýtingar jarðhita, vatnsafls og vinds er ólíkt þegar horft er til uppbyggingar mannvirkja sem og ólíks eðlis auðlindanna sem orkugjafa.

Orkustofnun telur mikinn lærdóm geta hlotist af því að byggja upp vindorku í skrefum og að horfa þurfi á vindorku á hafi, jafnt á landi, í vali á staðsetningum til framtíðar. Einnig þarf að útfæra hvernig arður af orkulindum skilar sér til þjóðarinnar þar sem flest orkunýtingarverkefni eru nú ekki á vegum hins opinbera, líkt og hefur að mestu verið raunin hingað til hér á landi. Þannig sé líklegra að ákvarðanataka leiði af sér sátt, sem er allra hagur.

Orkuskiptin í nútíð og framtíð

Orkustofnun lagði víða hönd á plóg á árinu varðandi innleiðingu orkuskipta. Orkusjóður, sem stofnunin hefur umsjón með, gegnir lykilhlutverki þegar kemur að stuðningi við fjárfestingar í orkuskiptum en til úthlutunar komu 1.071,7 milljónir til 140 verkefna. Áætluð minnkun á olíunotkun vegna verkefnanna er tæplega 4 milljónir lítra á ári. Einnig voru veittir styrkir til innviðauppbyggingar vegna orkuskipta sem stuðla óbeint að minnkun olíunotkunar.

Á árinu gaf Orkustofnun út orkuskiptalíkan sem er nýi kyndillinn í nauðsynlegri orkuskiptavegferð landsins. Líkanið er gagnvirkt þar sem hægt er að smíða og greina nauðsynlegar sviðsmyndir sem skilað geta ásættanlegum árangri, bæði fyrir loftslagskuldbindingar og orkustefnu landsins. Ein af sviðsmyndunum sem kynnt var við útgáfu líkansins var nauðsynlegur orkuskiptahraði í vegasamgöngum. Þar kom m.a. fram að til að ná lágmarksskuldbindingum okkar í loftslagsmálum í samræmi við aðgerðaráætlun ríkisins þyrfti nýskráningarhlutfall rafknúinna fólks-, bílaleigu- og sendibíla að vera í kringum 100% strax árið 2025 sem skiptir máli að hafa í huga við þróun ívilnana og löggjafar. Orkustofnun hefur einnig unnið að fjölda orkuskiptaverkefna í þessum málaflokki, s.s. framtíðarskipulagi innviðamála og mótun á stuðningskerfi fyrir orkuskipti í bílaleigum og þungaflutningum. Nú þegar eru 40 þúsund ökutæki í landinu sem geta nýtt innlenda orku að hluta til eða öllu leyti en mikilvægast er að auka innleiðingarhraðann.

Nýsköpun og tækniþróun

Aldrei hefur verið jafn mikil gerjun á sviði orku- og loftslagsmála. Eitt stærsta afrekið á árinu er líklega áfangi vísindamanna í Bandaríkjunum á sviði kjarnasamruna, tækni sem gæti umbreytt orkumálum á næstu áratugum takist að hagnýta hana til orkuframleiðslu. Á Íslandi hafa fjölmörg loftslagstengd fyrirtæki sótt fram. Má hér nefna Alor, sem vinnur að nýrri tegund rafhlaðna, Carbfix, sem býr yfir tækni til að breyta CO2 í stein, Laka, sem vinnur að því að bæta öryggi kerfa, Sidewind, sem nýtir vindorku á flutningaskipum og Transition Labs, sem hafa fjárfest í vexti grænna lausna. Nýsköpun og tækniþróun munu vinna með okkur þegar kemur að því að skapa sem mestan ábata í allri nýtingu fyrir samfélagið og því fylgist stofnunin vel með framþróun hér.

Að lokum

Árið hefur verið sögulegt og umfangsmikið í orkumálunum. Ljóst er að tækifæri eru fyrir Ísland að taka ígrundaðar ákvarðanir til framtíðar og vera sömuleiðis leiðandi í lífsgæðum og orkuskiptum. Orkustofnun þakkar ráðherra, ráðuneyti, stofnunum, hagaðilum, þingi og þjóð fyrir samvinnuna á árinu 2022 og hlakkar til að vinna ötullega og í góðri sátt á nýju ári - landinu okkar og framtíðarkynslóðum til góða.

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri - greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2022.