Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Markmiðið að takast á við tímabundinn vanda með almannahagsmuni að leiðarljósi og í samræmi við orkustefnu stjórnvalda

Markmiðið að takast á við tímabundinn vanda með almannahagsmuni að leiðarljósi og í samræmi við orkustefnu stjórnvalda

14 desember 2023
Markmiðið að takast á við tímabundinn vanda með almannahagsmuni að leiðarljósi og í samræmi við orkustefnu stjórnvalda

„Hafa ber í huga að heimili og hefðbundin fyrirtæki hafa ekki sömu samningsaðstöðu og stórir notendur. Heimili sendir ekki lögfræðing sinn á fund orkufyrirtækis til samningaviðræðna ef rafmagnið er tekið af.“ Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri fór yfir okurtengd mál í Kastljósi gær.

Í viðtalinu ræddi hún meðal annars frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og flutt er að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem ætlað er að tryggja raforkuöryggi almennings.

Fyrirhuguð lagasetning færir Ísland því ekki aftur í tímann eins og haldið hefur verið fram heldur er hún innan heimilda löggjafarinnar og í takt við þá þróun sem unnið er að um að verja almenning enn betur. Slík lagasetning er sérstaklega mikilvæg í endurnýjanlegu og einangruðu orkukerfi þar sem sveiflur og aðgangur að orku frá öðrum mörkuðum er ekki fyrir hendi.

Gróft áætlað gæti þurft að forgangsraðaað hámarki 400-600 GWh fyrir almenna markaðinn sem gera um 2-3% af heildarársframleiðslu landsins í aðstæðum þar sem vinnsla er lág og sölufyrirtæki hafa ekki tryggt sér næga raforku. Markaðnum verður því ekki miðstýrt með þessari aðgerð eins og einnig hefur verið haldið fram heldur er um tímabundna varúðarráðstöfun að ræða í þágu almannahagsmuna.

Frumvarpið leysir alls ekki allar áskoranir í orkumálum enda markmið þess aðeins að takast á við tímabundinn vanda með hag almennings og heimila í landinu að leiðarljósi, samanber greinargerð ráðuneytis. Það er einnig í samræmi við meginmarkmið orkustefnu stjórnvalda til 2050 um að tryggja orkuöryggi. Í stefnunni segir einnig að ef kemur að forgangsröðun orkuframboðs skuli almenningur og þjónusta í almannaþágu ávallt njóta forgangs umfram aðra hagsmuni. 

Umræðan um mikilvægi raforkuöryggis einskorðast ekki við raforkumarkaðinn hér á landi enda hafði orkukrísan í Evrópu mikil áhrif á raforkuverð sem og orkuöryggi með miklum afleiðingum fyrir almenna notendur, fyrirtæki og iðnað í álfunni allri. Í löggjöf ESB er raforka skilgreind sem markaðsvara þar sem vinnsla, kaup og sala á henni fara fram á viðskiptalegum forsendum á samkeppnismarkaði til að auka verðmætasköpun og hagkvæmni til hagsbóta fyrir neytendur. Markaðslöggjöf ESB veitir ríkjum hins vegar skýrar heimildir til að leggja tilteknar opinberar skyldur á raforkumarkaði við ákveðnar aðstæður í þágu lögmætra markmiða sem að er stefnt. Þannig skal tryggt að öllum heimilisnotendum og smærri fyrirtækjum skuli bjóðast svokölluð alþjónusta. Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um frekari úrbætur á orkumarkaðnum í kjölfar orkukrísunnar í Evrópu miða jafnframt að því að styrkja enn frekar stöðu heimila og fyrirtækja og skilgreina neytendur sem sérstakan hóp sem ber að vernda.

Orðræða orkumálastjóra er í takt við stefnu stjórnvalda

Samkvæmt lögum er eitt af hlutverkum Orkustofnunar að vera ríkisstjórninni til ráðgjafar um orkumál og í því felst að benda á alvarlega stöðu í raforkumálum. Orðræða orkumálastjóra á opinberum vettvangi hefur miðað að því að vekja athygli á að ákvæðið skorti til að vernda raforkuöryggi almennings í takt við opinbera orkustefnu Íslands til 2050. Þar er kveðið á með skýrum hætti að „almenningur skuli ávallt vera í forgangi umfram aðra hagsmuni“. Jafnframt hefur orðræðan miðað að því að styðja við lögbundin markmið Íslands er varða orkuskipti og kolefnishlutleysi í takt við alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins.

Þetta, vindorka og COP er til umræðu í áhugaverðu viðtali við Höllu Hrund Logadóttur orkumálastjóra sem sjá má hér.