Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Hetjur hitaveitunnar

Hetjur hitaveitunnar

6 mars 2024
Hetjur hitaveitunnar

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri skrifar:

„Við erum þegar búin með yfir níutíu suður“, segir verkstjórinn og bendir á gneista frá suðutæki í kuldanum um leið og ég virði fyrir mér nýju hitaveitulögnina í rjúkandi hrauninu. „Það var erfið ákvörðun að fara hér yfir hraunið, en hófst að ná því í gegn, enda teymið á svæðinu þétt eftir mörg gos“ bætir hann við.

 

Hér er vitnað óbeint í samtöl við nokkrar af hetjum hitaveitunnar; þeim fjölmörgu verktökum, sérfræðingum og viðbragðsaðilum sem stilltu saman strengi á ólýsanlegum tímum í kjölfar síðasta goss á Reykjanesskaga. Þessar hógværu hetjur unnu verkin af yfirvegun og sýndu að allt er hægt ef hugurinn sækir fram og viljinn er fyrir hendi. Stuttu síðar tókst þeim að tengja nýju hitaveitulögnina og heita vatnið -  gullið okkar Íslendinga  - streymdi hús úr húsi. 

 

Þessar aðstæður minna okkur hressilega á að jarðhitinn er lykill að lífsgæðum okkar á marga vegu. Frá síðasta gosi hefur því gilt að nýta tímann til lausna vel. Því er fagnaðarefni að vinna er hafin við leit að lághita, til vara s.s. á Njarðvíkurheiði og Miðnesheiði. Verkefnið tekur nokkra mánuði og verður leitin vonandi árangursrík. 

 

Samhliða má fagna að fyrirtækin hafa sömuleiðis hannað svokallaða varmaskipta sem geta nýst með neyðarkötlum sem leigðir væru til landsins ef Svartsengi yrði óstarfhæft. Verði fjárfest í smíði þeirra má nota búnaðinn á móti rafhitun til að auka hita í húsum í neyð. Búnaðurinn er í takt við tillögur sem lagðar voru fram á síðasta ári af Orkustofnun og Almannavörnum og byggðu á nánu samráði við HS Orku og HS Veitur um nauðsynlegar aðgerðir í neyð sem nýst gætu áfram fyrir bilanir víða um land.  orku- og verkfræðifyrirtækjunum á síðasta ári og getur nýst fyrir bilanir víðar um land. 

 

Auk þessara aðgerða er nauðsynlegt að skoða fleiri varaleiðir heits vatns að svæðinu eins og með lögn frá Reykjanesvirkjun að Reykjanesbæ eða lögn frá Reykjanesbæ yfir í Hafnarfjörð. Hér gildir að meta til fulls ólíka valkosti til að velja þá raunhæfu og slá aðra út af borðinu. Sömuleiðis þarf að huga að styrkingum á æðakerfum raforkunnar sem reynt hefur nú á og vinna að nýtingu jarðhita á Krísuvíkursvæðinu sem mun að öllum líkindum gegna hlutverki í hitaveitu höfuðborgarsvæðisins í framtíðinni.

 

Þrátt fyrir krefjandi verkefni framundan á Reykjanesskaga, og víðar um land, er nú lag í að efla samstarf og sókn því við sjáum að allt er hægt. Það sönnuðu frumkvöðlar fortíðarinnar, sem byggðu upp nýtingu á jarðhita með viljann einan að vopni. Það sannar líka hitaveituhetjur dagsins í dag sem vinna þakklátt þrekvirki - er ylja bæði hús og hjörtu landsins.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 7. mars