Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Grunnvatn – hin falda auðlind

Grunnvatn – hin falda auðlind

22 mars 2022
Grunnvatn – hin falda auðlind

Í dag, 22. mars, halda Sameinuðu þjóðirnar upp á alþjóðlegan dag vatnsins þrítugasta árið í röð. Meginmarkmið dagsins er að hvetja alþjóðasamfélagið til að beina sjónum sínum að heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna nr. 6, þ.e. að tryggja hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fyrir alla jarðarbúa fyrir árið 2030. Í ár beinist athyglin að grunnvatni, sem er aðalundirstaða drykkjarvatns á jörðinni auk þess sem það er notað í matvælaframleiðslu, iðnaði og uppbyggingu hreinlætisaðstöðu um heim allan.

Staða Íslands, gerð þess og myndunarsaga eru grunnur að einni verðmætustu auðlind landsins, grunnvatni. Fyrst og fremst er hér um að ræða ferskt og tært neysluvatn langstærsta hluta þjóðarinnar en jafnframt er grunnvatn nýtt í landbúnað, til iðju og, ekki síst, í fiskeldi. Þá er ónefnd notkun jarðhitavatns, sem á uppruna sinn að rekja til grunnvatns, s.s. til húshitunar.

Víða er auðlindin umfangsmikil og á sumum svæðum, einkum í og við gosbeltin, má segja að stórfljót streymi til sjávar neðanjarðar, stundum án þess að nokkurt vatn sé að finna á yfirborði, líkt og á stærstum hluta Reykjanesskagans. En þó að mikið vatn fram streymi er það ekki óendanlegt og á sumum stöðum hefur ásókn í grunnvatn, bæði ferskt og salt (jarðsjó) margfaldast á örfáum árum.

Orkustofnun veitir nýtingarleyfi til töku á grunnvatni af ýmsum gæðum og uppruna. Við leyfisveitingar er leitast við að tryggja að vinnslu verði hagað með þeim hætti að nýting verði sem best þegar til lengri tíma er litið og þess sé gætt að ekki sé tekið meira vatn en þörf er á til starfseminnar sem um ræðir. Þá verði tekið tillit til umhverfissjónarmiða, nýting auðlindanna sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og tekið sé tillit til nýtingar sem þegar er hafin í næsta nágrenni.

Verndun og viðhald grunnvatnsauðlindarinnar er sameiginlegt hagsmunamál og verkefni okkar allra. Engin stofnun, líkt og Orkustofnun, getur tryggt þessi dýrmætu gæði ein og sér heldur þurfa öll sem að koma að vanda vel til verka við nýtingu hennar. Því er mikilvægt að einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og stjórnvöld sameinist um ábyrga nýtingu, og virðingu fyrir hinum falda fjársjóði undir fótum okkar.

Skráðir vatnstökustaðir grunnvatns skv. nytjavatsskrá Orkustofnunar (sjá www.map.is/os)

Í dag, 22. mars, halda Sameinuðu þjóðirnar upp á alþjóðlegan dag vatnsins þrítugasta árið í röð. Meginmarkmið dagsins er að hvetja alþjóðasamfélagið til að beina sjónum sínum að heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna nr. 6, þ.e. að tryggja hreint vatn og hreinlætisaðstöðu fyrir alla jarðarbúa fyrir árið 2030. Í ár beinist athyglin að grunnvatni, sem er aðalundirstaða drykkjarvatns á jörðinni auk þess sem það er notað í matvælaframleiðslu, iðnaði og uppbyggingu hreinlætisaðstöðu um heim allan.

Á vefsíðunni https://www.worldwaterday.org/ má nálgast margvíslegt fræðslu- og miðlunarefni tengt efni dagsins.

Orkustofnun, ásamt Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Íslenska vatnafræðifélaginu, Landsvirkjun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnun, og Veðurstofu Íslands skipa fulltrúa í Íslensku vatnafræðinefndina sem fer með alþjóðasamstarf á sviði vatnafræði innan vébanda UNESCO. Á degi vatnsins hvetur Íslenska vatnafræðinefndin til umræðu um þessa mikilvægu auðlind Íslendinga og áréttar að horfa þurfi til framtíðar í skipulagi og nýtingu til að hægt verði að tryggja gæði og aðgengi að þessari mikilvægu en földu auðlind til framtíðar. Gæði hennar eru ekki sjálfgefin.