Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Evrópa kynnir sér jarðhita á Íslandi

Evrópa kynnir sér jarðhita á Íslandi

6 júlí 2022
Evrópa kynnir sér jarðhita á Íslandi

Nýting jarðhita fer vaxandi í Evrópu.
Dagana 26. til 28. apríl kom sendinefnd og samstarfsaðilar Orkustofnunar hingað til lands frá Póllandi, Ungverjalandi, Slóvakíu og Noregi í User4GeoEnergy verkefninu sem miðar að því að bæta orkunýtingu í hitaveitna með bættri orkunotkun neytenda. 

Markmið verkefnisins að auka hagkvæmni, sjálfbærni og draga úr losun koltvísýrings

Markmið verkefnisins er að auka hagkvæmni hitaveitukerfa í Póllandi, Ungverjalandi og Slóvakíu, til að auka sjálfbærni, draga úr loftmengun og losun á koltvísýrings, CO2.Verkefnið á því að auka vinsældir jarðhitakerfis í borgum og stuðla að því að draga úr loftslagsbreytingum og auka orkuöryggi.

Samstarfsaðilar verkefnisins með Orkustofnun eru Mineral and Energy Economy Research Institute of the Polish Academy of Sciences (MEERI PAS) frá Póllandi, sem leiðir verkefnið, SLOVGEOTERM a.s. frá Slóvakíu, InnoGeo Ltd. frá Ungverjaland og NORCE Norwegian Research Centre AS frá Noregi. 

Kynningarfundir og heimsóknir til fyrirtækja

Í heimsókninni til Íslands var áhersla lögð á að kynna starfsemi fyrirtækja á Íslandi sem tengjast jarðhita og hitaveitum. Í þeim tilgangi var fundur hjá Orkustofnun þar sem Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, tók á móti hópnum og var með erindi auk Mörtu Rósar Karlsdóttur, sviðsstjóra sjálfbærrar auðlindanýtingar. Fyrirtæki og stofnanir á Íslandi sem tengjast jarðhita voru svo með stuttar kynningar um sína starfsemi þar sem tækifæri gafst á umræðum, til að efla tengsl og mögulegt samstarf í framtíð.

Einnig var farið í heimsóknir til ýmissa fyrirtækja sem tengjast nýtingu á jarðhita og auðlindagarðarnir á Hellisheiði og Reykjanesi voru heimsóttir, þar sem hröð framþróun hefur verið. Þar hitti hópurinn fyrirtæki sem nýta jarðhita í ýmsar vörur og þjónustu og tengda starfsemi. Helstu fyrirtæki sem hópurinn heimsótti eða voru með kynningar í auðlindagörðunum, voru Hitaveita Seltjarnarness, HS Orka, Bláa lónið, Geothermal Research Cluster (GEORG), Geothermica, Laxar fiskeldi, Pure North, ON, OR, Carbfix, Climeworks, GeoSilica, Friðheimar, Varmaorka, Flúðasveppir og Límtré.

Hröð framþróun á Íslandi

Það var mat hinna erlendu gesta að mikil framþróun hefur orðið hér á landi á mörgum sviðum er tengjast jarðhita og afleiddri starfsemi s.s. í auðlindagörðum og orkuklösum, sem hægt væri að læra af og nýta erlendis. Jafnframt kom fram áhugi á frekara samstarfi á milli aðila frá viðkomandi löndum og Íslands.

Verkefnið byrjaði í október 2020 og stendur til apríl 2024. Fjárhagsáætlunin er 1,32 milljónir evra og er fjármögnuð af Uppbyggingarsjóð EES og Noregs á sviði byggðamála. Umsjón með verkefninu fyrir hönd Orkustofnunar hefur Baldur Pétursson, verkefnisstjóri alþjóðlegra verkefna.

Helstu áherslur verkefnisins

· Miðlun þekkingar á hagnýtum atriðum er varðar stjórnun og rekstur hitaveitna með jarðhita á milli Íslands og Noregs annars vegar og Póllands, Slóvakíu og Ungverjalands hins vegar, til að auka efnahagslegan ávinning sem og ávinning í umhverfis- og loftslagsmálum fyrir alla.

· Gerð stærðfræðilíkans af jarðhitakerfum (orkugjafi - hitadreifing – notendur), til að greina ákjósanlegar lausnir fyrir framboð jarðhita í Póllandi, Slóvakíu og Ungverjalandi miðað við jarðhitaskilyrði og verð á innlendum mörkuðum.

· Áhersla verður lögð á hitastýringarkerfi og mikilvægi einstakra viðskiptavina, með því að miðla þekkingu, reynslu og tæknilegum lausnum til að bæta nýtingu í jarðhita, sem byggist á notkun sjálfbærra lausna. Verkefnið leggur einnig áherslu á að hvetja notendur á heimilum til að breyta áherslum við húshitun og bæta nýtingu.

Nánari upplýsingar um verkefnið, kynningar frá fyrirtækjum í heimsókninni o.fl. má sjá hér.