Ertu nýr notandi neysluveitu? Hefur þú valið sölufyrirtæki rafmagns?
24 júní 2022Við viljum ekki lenda í því að lokað verði fyrir rafmagnið hjá okkur. En það getur gerst á næstu dögum ef að samningur um afhendingu raforku er ekki til staðar, vegna þess að þá hafa dreifiveitur heimildir til að stöðva afhendingu raforku. Það er því mikilvægt að við veljum okkur raforkusala einfaldlega vegna þess að dreifiveitum er óheimilt að afhenda rafmagn til þeirra sem ekki hafa gildan samning við sölufyrirtæki raforku.
Raforkusala: þitt er valið!
Við könnumst öll við að velja okkur það fyrirtæki sem við kaupum farsímaþjónustu af. Rétt eins og þar þá hafa allir neytendur sem tengjast rafveitu val um af hvaða fyrirtæki þeir kaupa raforku óháð búsetu. Neytendur verða að taka upplýsta ákvörðun um hvar þeir vilja vera í viðskiptum um kaup á raforku og gera samning við valið sölufyrirtæki.
Raforkusala er á samkeppnismarkaði og öllum frjálst að velja og skipta um raforkusöluaðila með einföldum hætti, rétt eins og við veljum okkur símafyrirtæki. Eftirfarandi söluaðilar eru á markaði.
Dreifiveitur eru ekki söluaðilar
Dreifing raforku er sérleyfisþáttur þannig að einn aðili sér um dreifingu á hverjum stað. Notendur geta ekki valið sér dreifiaðila. Hlutverk dreifiveitna er að annast dreifingu raforku og kerfisstjórnun á dreifiveitusvæði sínu. Fimm dreifiveitur eru starfandi á Íslandi. Þær eru: HS Veitur, Norðurorka, Orkubú Vestfjarða, Veitur og RARIK. Dreifiveitum er óheimilt að hafa aðkomu að vali þínu á raforkusala, með því að gefa upp kjör raforkusölufyrirtækja.
Hvernig veit ég að ég þurfi að velja? Og hvenær þarf ég að vera búin að velja?
Ef þú hefur ekki verið í viðskiptum við sölufyrirtæki raforku síðastliðna 90 daga, t.d. ert að kaupa þína fyrstu íbúð eða það tekur einhvern tíma að skipta um húsnæði, svona millibilsástand, eins og við könnumst mörg við, eða hreinlega af einhverjum öðrum ástæðum þú ert að tengjast rafveitu í fyrsta skipti, þá er mikilvægt að hafa samband við það raforkusölufyrirtæki sem þú kýst að vera í viðskiptum við og gera raforkusölusamning. Ef þessu er ekki sinnt innan 30 daga frá notendaskiptum er dreifiveitum heimilt að stöðva raforkuafhendingu til viðkomandi notanda, að undangenginni skriflegri viðvörun um stöðvun raforkuafhendingar. Raforkusölufyrirtækið kemur raforkuviðskiptum á fyrir viðkomandi viðskiptavin.
Hvað ef þú vilt bara skipta?
Ef þú vilt skipta og eiga viðskipti við annað raforkusölufyrirtæki er það gert með því að hafa samband við það raforkusölufyrirtæki sem þú hyggst eiga í viðskiptum við og raforkusalinn sér um söluaðilaskiptin.
Fleiri fréttir