Eldsneytisspá 2021-2060
22 september 2021Orkuspárnefnd Orkustofnunar hefur gefið út nýja eldsneytisspá fyrir tímabilið 2021-2060. Starfandi eru þrír vinnuhópar á vegum Orkuspárnefndar, og sér hver þeirra um undirbúning orkuspár á sínu sviði, þ.e. eldsneytisspár, jarðvarmaspár og raforkuspár.
Við endurskoðun eldsneytisspár frá 2016 var hópnum falið að endurskoða almennu forsendurnar og hafa þær verið gefnar út í sérstakri skýrslu. Eldsneytishópur nefndarinnar hefur unnið þessa spá en í honum eiga sæti fulltrúar frá atvinnulífinu, Umhverfisstofnun og Orkustofnun. Ýmsir aðilar hafa einnig komið að gerð eldsneytisspárinnar og veitt hópnum upplýsingar um afmarkaða þætti sem tengjast henni.
Samhliða útgáfu vill nefndin minnast Jóns heitins Vilhjálmssonar en hann kom að undirbúningi eldsneytisspárinnar líkt og flestum fyrri orkuspám. Jón lést í nóvember 2020.
Aukin áhersla á orkuskipti
Aukin áhersla hefur verið á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis undanfarin ár og hafa stjórnvöld sett sér markmið um hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og haftengdri starfsemi. Þá hafa verið sett markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til að mæta skuldbindingum Íslands gagnvart Parísarsáttmálanum, en þar er miðað við árið 2030. Stjórnvöld hafa ennfremur lögfest að Íslands skuli vera kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040. Í samþykktri orkustefnu fyrir Ísland, sem unnin var þverpólitískt, er stefnt að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti á lofti, láði og legi fyrir árið 2050.
Sviðsmyndagreining
Grunnspáin sem sett er fram sýnir þróun miðað við óbreyttar forsendur (e. business as usual) sem í meginatriðum felur í sér að horft er til þeirrar framfara sem orðið hafa í orkuskiptum hingað til og ólíklegt er að snúi til baka en á móti gerir ekki ráð fyrir mögulegum aðgerðum til að flýta fyrir orkuskiptum í geirum sem eru skammt á veg komnir. Ljóst er að forsendur munu þurfa að breytast mikið ef stjórnvöld ætla sér að ná markmiðum sínum í orkuskipta- og loftslagsmálum. Því hafa verið útbúnar ólíkar sviðsmyndir um innleiðingu sem tilraun til að skoða hvernig þróunin þurfi að líta út til að ná þeim markmiðum.
- Sviðsmyndin hægar framfarir gerir ráð fyrir minni efnahagsumsvifum, hagvexti og mannfjölda miðað við grunnspá ásamt hægari orkuskiptum.
- Sviðsmyndin aukin orkuskipti gerir ráð fyrir óbreyttum efnahagsumsvifum, hagvexti og mannfjölda miðað við grunnspá og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050 á lofti, láði og legi.
- Sviðsmyndin Græn framtíð gerir ráð fyrir auknum efnahagsumsvifum, hagvexti og mannfjölda ásamt því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2050 á lofti, láði og legi.
Niðurstöður
Olíunotkun á Íslandi náði hámarki árið 2018 þegar ferðamannafjöldinn var hvað mestur en þá voru seld yfir 1.025 þúsund tonn af olíu á Íslandi. Olíunotkun dróst töluvert saman árið 2020 og var um 570 þúsund tonn sem skiptist í 460 þúsund tonn innanlandsnotkun og 110 þúsund tonn millilandanotkun. Ljóst er að áhrif COVID-19 á komu ferðamanna hafði töluverð áhrif á olíunotkun.
Grunnspá eldsneytisspárinnar gerir ráð fyrir að olíunotkun árið 2050 verði um 600 þús. tonn sem skiptist í um 200 þús. tonn innanlandsnotkun og 400 þús. tonn millilandanotkun.
Sviðsmyndagreiningin sýnir muninn á áætlaðri þróun miðað við óbreyttar forsendur og þeirri þróun sem þarf að eiga sér stað svo að markmið stjórnvalda náist. Er hér átt við markmið og skuldbindingar gagnvart Parísarsáttmála, lögum um kolefnishlutleysi árið 2040, ásamt settum markmiðum sem koma fram í aðgerðaráætlun í loftslagsmálum, og orkustefnu Íslands til ársins 2050.
Eldsneytisspáin gerð aðgengilegri
Nú samhliða útgáfu eldsneytisspár er í fyrsta skipti gefin út gagnvirk framsetning niðurstaðna spárinnar og sviðsmyndagreiningar. Þar er hægt að skoða söguleg gögn um olíunotkun á Íslandi eftir notkunarflokkum og eldsneytistegund. Enn fremur er hægt að skoða sviðsmyndagreiningu um áætlaða olíunotkun hverrar sviðsmyndar til ársins 2060.
Eldsneytisspá 2021 - 2060 - Skýrsla Orkuspárnefndar Orkustofnunar
Talnaefni - OS-2021-T011-01 - töflur og myndir úr eldsneytisspánni
Almennar forsendur orkuspáa 2021
Eldsneytispá 2021-2060 með gagnvirkri framsetningu niðurstaðna