Borð fyrir báru
1 febrúar 2022Ísland er eitt auðugasta land í heimi af grænni orku. Við getum hins vegar framleitt mismikið á milli ára. Við byggjum orkunýtinguna nefnilega á náttúrunni sem hefur sínar sveiflur. Sum ár rignir meira, og þá er meiri vatnsorka í boði. Alveg eins og að sum ár er mikill snjór og þá er skíðavertíðin góð. Þessu þurfa orkufyrirtækin sem selja orkuna að gera ráð fyrir, sérstaklega þegar orkan er seld fram í tímann. Að hafa borð fyrir báru eins og sagt er. Sveigjanleika í anda náttúrunnar sem við nýtum.
Umræðan um orkuskort hefur verið áberandi undanfarið. Hún hefur kristallast í því að skerða þurfi raforku til rafkyntra hitaveitna sem hluti íbúa landsins reiða sig á. Þessar mikilvægu veitur nota um 1% af raforku Íslands. Heimilin heilt yfir nota um 5% raforkunnar, en sala til þessa hóps hefur aukist lítið. Að hvetja landsmenn til að spara orku til að koma í veg fyrir orkuskort á Íslandi er því eins og að velja að kreista safa úr rúsínu á vínberjaakri. Ávinningur er minniháttar þó að orkunýtni sé afar mikilvæg og eigi alltaf við.
Eins skrítið og það hljómar, þá er „skerðanleg orka“ hins vegar góð leið til að nýta orkuauðlindina vel. Slík samningsákvæði gera okkur kleift að selja meiri orku þegar mikið hefur rignt (eins og að selja fleiri miða í brekkurnar í góðu færi) en draga úr orkusölu þegar minna er í boði. Áskorunin er því fyrst og fremst að tryggja að íbúar sem treysta á rafkyntar veitur sem nota olíu sem varaafl, séu ekki á slíkum samningum, heldur eingöngu kaupendur sem vilja njóta góðs af kjörum þeirra og geta dregið úr orkunotkun þegar við á, eins og nú er gert þegar lítið hefur rignt.
Fleira þarf þó að bæta ef vel á að ganga í orkumálum í örri þróun. Skýra þarf ábyrgð aðila á því að hafa borð fyrir báru, útfæra þarf leikreglur markaðarins og gagnaöflun þarf að bæta svo að kerfið virki óháð árferði og fjölda virkjana á hverjum tíma. Það er kjarni málsins. Slík vinna er einnig grunnur þess að vel takist við að ákveða rammaáætlun, orkuskiptin og önnur stór mál sem eru á dagskrá í stjórnarsáttmála. Hér gildir að horfa heildarsamhengið og útfæra hvernig upphafið og endirinn mætast.
Vöndum umræðuna og rennum okkur í samlyndi í átt að lausnum í orkumálum fyrir land og þjóð.
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri - greinin birtist fyrst á visir.is - 31 janúar 2022