Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Bætt nýtni hitaveitukerfa með breyttum áherslum notenda 

Bætt nýtni hitaveitukerfa með breyttum áherslum notenda 

22 desember 2023
Bætt nýtni hitaveitukerfa með breyttum áherslum notenda 

Helstu niðurstöður og árangur í verkefninu „Bætt nýtni hitaveitukerfa með breyttum áherslum notenda“ (User4GeoEnergy) voru kynntar á lokaráðstefnu sem haldin var 21. september 2023 í Kraká Póllandi. Markmið verkefnisins er að auka hagkvæmni í rekstri hitaveitna sem byggja á jarðhita til lengri tíma og bæta umhverfið, draga úr gróðurhúsalofttegundum og auka orkuöryggi í Evrópu.

Samstarfsaðilar verkefnisins með Orkustofnun voru Mineral and Energy Economy Research Institute of the Polish Academy of Sciences (MEERI PAS) frá Póllandi, sem leiðir verkefnið, SLOVGEOTERM a.s. frá Slóvakíu, InnoGeo Ltd. frá Ungverjalandi og NORCE Norwegian Research Centre AS frá Noregi.

Ráðstefnuna sóttu yfir 30 manns, svo sem fulltrúar sveitarfélaga, fyrirtækja, ráðgjafafyrirtæki, vísindasamfélagsins (vísindamenn, doktorsnemar), tæknisamfélagsins (rekstraraðila hitaveitna, þ.m.t. jarðhitakerfa) og sveitarfélaga (fulltrúar sveitarfélaga og einkaaðila). Ráðstefnan var opin öllum sem fannst viðfangsefni verkefnisins gagnlegt eða einfaldlega áhugavert.

Á ráðstefnunni voru forsendur, aðferðafræði og niðurstöður verkefnisins kynntar ítarlega. Markmið verkefnisins var að auka skilvirkni í notkun jarðhita og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, og auka um leið nýtingu og ávinning þeirra sem nota jarðhita til hitunar húsa. 

Mikilvægi á nýtingu jarðhita fyrir húshitun hefur aukist verulega vegna orkukreppunnar, sem rekja má til stríðsins í Úkraínu. Orkuöryggi, sem áður var mikilvægt en frekar fræðilegt vandamál, er nú orðið mjög raunverulegt og áberandi vandamál. Nýting jarðvarma er því einn þáttur í auknu orkuöryggi og orkusjálfstæði viðkomandi landa og minnkar um leið notkun innflutts eldsneytis til viðkomandi svæða.     

Niðurstöður verkefnisins staðfesta að ná má fram aukinni skilvirkni í nýtingu jarðhitakerfa í Evrópu, með því að breyta áherslum og gildum hjá notendum. Eitt af aðalatriðum sem fram komu í verkefninu er að auka má nýtingu hitaveitukerfa með því að lækka hitastig í hitaveitukerfum sem nýta jarðhita.

Eitt af markmiðunum var að greina arðsemi þess að samræma kröfur viðtakenda (notenda) við möguleika jarðhitaauðlindar á viðkomandi svæði. Í greiningum var gert  ráð fyrir að hægt væri að nota tækni sem nú er þegar notuð í þessum tilgangi.

Árangurinn sem náðst hefur staðfestir að hægt er að ná árangri á þessu sviði, en til þess þarf samvinnu milli rekstraraðila orkugjafans, orkukerfisins og endanlegs viðtakanda, notenda.   

Áætlanir gera ráð fyrir að nauðsynlegar fjárfestingar, sem orkunotandi ber einkum ábyrgð á, geti leitt af sér sparnað í kostnaði hjá hitaveitum og lækkun á orkutapi í dreifikerfinu. Sýnt hefur verið fram á að þessi samhæfing innan orkukerfisins getur gert aðilum kleift að ná tilætluðum áhrifum og árangri. Hækkandi verð til að mæta orkuþörf, einkum þegar um er að ræða hitaveitur, getur hvatt rekstraraðila til samstarfs við neytendur. Einnig kom fram að ef um er að ræða minnkandi áhuga íbúa á hitaveitukerfum, s.s. vegna hækkandi verðs, getur slíkt leitt til þess að þeir aftengist smám saman hitaveitukerfum.

Verkfæri á sviði upplýsingatækni sem þróað var sem hluti af User4GeoEnergy verkefninu, sem rætt var á fundinum, gera einstaka aðilum, hitaveitum sem neytendum, kleift að slá inn helstu forsendum í módeli verkefnisins, sem um leið gerir þeim kleift að meta ýmsa þætti og tæknilegt fyrirkomulag til að stuðla að hagkvæmni og hámarka arðsemi.

Eitt af verkfærunum sem þróað var og auðvelt er í notkun er svokölluð U4GEcalc reiknivél, sem er aðgengileg á vefsíðu verkefnisins, til að hjálpa viðkomandi til að gera bráðabirgðaáætlanir, hvort sem það eru hitaveitur eða íbúar. Reiknivélin er hönnuð þannig að hitaveitur geta nýtt ýmsar tæknilegar og efnahagslegar forsendur í hitaveitukerfum og fundið þannig bestu lausn. Íbúar geta einnig nýtt módelið til að finna bestu lausn hvað varðar hitun húsa, s.s. með mismunandi valkostum í einangrun húsnæðis, að hluta eða í heild, ásamt fleiri möguleikum.        

U4GEfm er önnur reiknivél sem nýtir stóran gagnagrunn á sviði jarðhita sem þróaður var sem hluti af verkefninu og er einn sá stærsti í Evrópu. Bæði þessi verkfæri voru kynnt og meginreglur,  forsendur og notkun þeirra um rekstur voru ræddar á ráðstefnunni. 

Á ráðstefnunni var einnig fjallað um áhrif samstarfs og miðlun þekkingar og reynslu milli þátttakenda og landa í verkefninu. Slík atriði s.s. þjálfun og upplýsingamiðin eru talin mjög mikilvæg atriði sem hafa áhrif á nýtingu af framkvæmd User4GeoEnergy verkefnisins.  

Í samræmi við markmið verkefnisins verður því komið á fót svokallaðri þjónustumiðstöð jarðvarmahitaveitu (GDHSH), eftir að því lýkur, sem hefur það að markmiði að veita hinum ýmsu aðilum sem eftir því leita, ráðgjöf og aðstoð við að nýta þekkingu sem fram hefur komið svo sem með notkun reiknivélar og ráðgjöf.

Af þessu tilefni verða opnaðar GDHSH-ráðgjafastöðvar í Kraká í Póllandi, Bratislava í Slóvakíu og Szeged í Ungverjalandi, til að miðla þekkingu af verkefninu og sinna ráðgjöf til aðila sem þess óska í þessum löndum, til að auka hagkvæmni og nýtingu á sviði jarðhita í þessum löndum. Tímalengd á starfseminni mun ráðast af aðstæðum, eftirspurn og hagsmunum utanaðkomandi aðila. Eitt af þeim verkfærum sem notuð verða við vinnuna  GDHSH punkta verður U4GEcalc, reiknivél og tengd módel. 

Unnið verður því áfram að markmiðum verkefnisins með sjálfbærum hætti þó að verkefninu sé lokið, til að auka hagkvæmni í rekstri hitaveitna með jarðhita til lengri tíma og bæta umhverfið, draga úr gróðurhúsalofttegundum og auka orkuöryggi í Evrópu, með áherslu á Pólland, Slóvakíu og Ungverjaland. Hitaveitur, sveitarfélög, bæir, borgir, sem og notendur hitaveitna í Evrópu geta því nýtt sé þá þekkingu og ávinning til framtíðar sem verkefnið hefur skapað á þessu sviði.       

Nánari upplýsingar frá ráðstefnunni s.s. erindi má sjá hér. Verkefnið „Bætt nýtni hitaveitukerfa með breyttum áherslum notenda“ (User4GeoEnergy) er styrkt af Uppbyggingarsjóð EES og Noregs á sviði byggðamála.

Nánari upplýsingar um verkefnið má sjá á User4Geoenergy og hjá pajak@meeri.pl

Baldur Pétursson annaðist umsjón verkefnisins fyrir hönd Orkustofnunar, en með honum að verkefninu starfaði einnig Heimir Tryggvason hjá Orkustofnun. Nánari upplýsingar má finna um styrktarsjóð EES og Noregs fyrir svæðisbundið samstarf.