Almenn úthlutun úr Orkusjóði 2024
16 ágúst 2024Föstudaginn 16. ágúst staðfesti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, tillögu Orkusjóðs um að veita 1,342 milljónum króna í almenna styrki til orkuskipta á þessu ári og hefur heildarupphæð fyrir almenna auglýsingu aldrei verið hærri. Styrkveitingarnar nú hafa þau áhrif að áætlaður samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis vegna þeirra verkefna sem styrk hljóta hefur aldrei verið meiri, eða sem nemur 11 milljón olíulítrum á ári.
Samtals fengu 53 verkefni styrk úr Orkusjóði að þessu sinni. Verkefnin eru af ýmsum stærðum og koma til framkvæmda víða um land og hafa það að markmiði að draga hratt úr losun. Alls bárust um 154 umsóknir að upphæð rúmlega 6,7 milljarða kr. og því ljóst að mikil eftirspurn er eftir styrkjum sem þessum. Áætlaður heildarkostnaður allra þeirra verkefna sem sótt var um styrki fyrir nam rúmum 30 milljörðum kr. Þau 53 verkefni sem styrkt eru (utan innviðaverkefna) eru metin á 8,4 ma. kr., en hver styrkupphæð getur hæst numið einum þriðja af heildarkostnaði verkefna.
Auglýst var eftir styrkveitingum í þrem flokkum. Fyrir innviði fyrir rafknúin farartæki, raf- og lífeldsneytisframleiðslu og lausnir sem draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Innviðalausnir sem hlutu styrk eiga að gera það að verkum að rafbílar í ýmsum stærðum munu geta ferðast víðar um land en áður. Eins eiga verkefni sem draga úr notkun jarðefnaeldsneytis að hafa það í för með sér að framboð á lausnum fyrir starfsemi sem nú þarf mikla olíu muni aukast, t.d. varðandi fiskmjölsverksmiðjur og rafkyntar varmaveitur.