Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Að halda rétt á spöðunum

Að halda rétt á spöðunum

24 mars 2022
Að halda rétt á spöðunum

Er von á garra, gjólu eða blæstri næstu daga? Eða kannski næðingi og stinningskalda? Það er varla tilviljun að íslenskan nær yfir á annað hundrað slíkra blæbrigða vindsins. Hér dansar vindurinn, eins og segir í laginu, af mismiklum ákafa allt árið um kring. Lognið er stundum eins og fjarskyldur ættingi sem við hittum sjaldan. Við þekkjum betur að taka á móti hviðunni sem hversdagurinn færir okkur í fang.

Því kann að vera framandi að vindinn megi nýta eins og fiskinn í sjónum. Það er hins vegar staðan í dag. Tæknin eflist stöðugt og kostnaður við framleiðslu orku með þessum hætti hefur hríðlækkað. Samhliða hafa fjölmörg vindorkuver sprottið upp um víða veröld til að takast á við hlýnun jarðar og stór áform eru framundan bæði á landi og hafi. Vindurinn á semsagt mikla möguleika þó hann sé í reynd takmörkuð auðlind. Hann verður nefninlega ekki virkjaður án sambýlis við land- eða hafsvæði sem hvert ríki á mismikið af og ráðstafar á ólíka vegu.

Ísland er engin undantekning á áhuga fyrirtækja að byggja upp vindorkuver enda aðstæður hér hagstæðar. Vindorkan er hins vegar ekki syndlaus í samhengi umhverfismála og náttúrukostnað þarf að meta. Fyrst og fremst er það ásýnd lands sem breytist þegar hvítar strýtur myllanna gnæfa saman í kór í beru landslagi ásamt suði frá mylluvængjum sem snúast í fjarlægð. Uppbygging felur í sér rask s.s. áhrif á fugla, línur og vegir, en mismikið eftir staðsetningum og hönnun á landi og hafi. Útkoma nýtingar er vissulega eftirsótt endurnýjanleg orka sem hentar vel inn í raforkukerfið á Íslandi og getur skapað margvísleg verðmæti sé rétt haldið á spöðunum. Vindurinn hvín nefninlega með krafti á veturna þegar lón vatnsaflsvirkjana ganga á birgðar sínar, en hægir á sér á sumrin þegar meira vatn er til staðar.

Hvort vindorkan verður raunveruleg auðlind fyrir samfélagið fer þó einnig eftir umgjörðinni um nýtingu hennar. Fram til þessa hefur orkunýting á Íslandi að mestu skilað beinum arði til samfélagsins í gegnum fyrirtæki í eigu þjóðar og sveitarfélaga. Í vindorkunni kemur breytt landslag orkumála í ljós því flestir á bak við verkefnin eru einkaðilar. Það þýðir að beinn arður af auðlindinni skilar sér ekki með sama hætti. Hér þarf því að útfæra reglur þannig að auður streymi áfram til þjóðarinnar samhliða því að nýliðar styðji við nýsköpun í umhverfinu.

Góðu fréttirnar eru að ýmislegt má læra af reynslu annarra þjóða á þessu sviði. Og áður en lengra er haldið er einmitt tækifæri til móta skýra sýn og leikreglur í samhengi við íslenska veruleika. Hér er verk að vinna á vettvangi stjórnmálanna og skiptir miklu máli að vanda sig.

Vindum okkur í heimavinnuna, beitum langtímahugsun í skipulagsmálum og tryggjum að öll nýting skili bæði orku og beinum auð fyrir land og þjóð. Það er kjarni málsins. 

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri - greinin birtist fyrst á visir.is - 24. mars 2022