Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Þrír nýir stjórnendur hjá Orkustofnun

Þrír nýir stjórnendur hjá Orkustofnun

6 janúar 2022

Í kjölfar stefnuinnleiðingar og skipulagsbreytinga hjá Orkustofnun síðastliðið haust voru auglýst þrjú ný stjórnendastörf hjá stofnuninni.

• Dr. Marta Rós Karlsdóttir hefur verið ráðin sviðsstjóri sjálfbærrar auðlindanýtingar
• Sigurður Ingi Friðleifsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri loftslagsmála, orkuskipta og nýsköpunar
• Sólveig Skaftadóttir hefur verið ráðin samskiptastjóri stafrænnar miðlunar


Marta Rós starfaði frá árinu 2014 hjá Orku nátúrunnar, meðal annars sem forstöðumaður auðlinda og nýsköpunar þar sem hún byggði upp sviðið og bar ábyrgð á auðlindanýtingu og grænni nýsköpun fyrirtækisins, sem og stefnumótun og samskiptum við hagsmunaaðila í tengslum við auðlindanýtingu og loftslagsmál. Þá sat hún í framkvæmdastjórn ON og fór með mannaforráð á sviðinu. Frá ársbyrjun 2021 hefur hún starfað sem fagleiðtogi sjálfbærni hjá Verkís þar sem hún hefur sinnt innleiðingu á sjálfbærni í hönnun og ráðgjöf fyrirtækisins. Marta Rós er með doktors- og meistaragráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og hefur jafnframt verið fyrirlesari og leiðbeinandi við HÍ, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna.

Sigurður Ingi hefur starfað hjá Orkustofnun og verið framkvæmdastjóri Orkuseturs frá árinu 2006. Þar hefur hann verið virkur í upplýsingamiðlun, prófunum og innleiðingu nýrrar tækni á sviði orkuskipta bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Þá hefur hann tekið virkan þátt í rannsóknum og nýsköpun og skrifað fjölmargar greinar og víða haldið fyrirlestra um orku- og loftslagsmál. Ennfremur hefur Sigurður Ingi sinnt kennslu við Háskólann á Akureyri á árunum 2007-2010, og er sveitarstjórnarfulltrúi í Eyjafjarðarsveit frá 2016. Áður starfaði Sigurður Ingi m.a. sem sérfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu og við kennslu. Sigurður Ingi er með meistaragráðu í umhverfisvísindum frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð og BSc próf í líffræði og próf í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands.

Sólveig hefur undanfarið starfað hjá Norðurlandaráði sem pólitískur ráðgjafi flokkahóps jafnaðarmanna og sem aðstoðarmaður þingflokks Samfylkingarinnar á Alþingi allt frá árinu 2017, þar sem hún sá m.a. um samskiptamál og stafræna upplýsingamiðlun. Áður starfaði Sólveig m.a. sem verkefnastjóri og LEAN ráðgjafi og tók þátt í uppbyggingu stafræns miðlunar umhverfis hjá Upplýsingaskrifstofu Evrópuþingsins í Kaupmannahöfn. Sólveig er með meistaragráðu í alþjóðafræðum frá Háskólanum í Hróarskeldu í Danmörku og BA gráðu í Evrópufræðum frá Háskólanum í Málmey í Svíþjóð.

Orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, segir ráðningar þessa öfluga hóps stjórnenda geri Orkustofnun enn betur í stakk búna í að takast á við mikilvægt hlutverk sitt að styðja við orkustefnu Íslands og loftslagsmarkmið stjórnvalda.

Orkustofnun starfar í þágu samfélagsins og í takt við orkustefnu Íslands. Orkustofnun leggur áherslu á að byggja upp þekkingu á fagsviðum stofnunarinnar svo sem á sviðum orkuvinnslu, orkunýtingar og loftslagsmála, stunda skilvirka og gagnsæja stjórnsýslu, sem og sjálfstætt og vandað eftirlit. Þannig getur stofnunin skapað málaflokknum skýra umgjörð, stuðlað að nýsköpun, upplýstri umræðu, og veitt stjórnvöldum faglega ráðgjöf í þágu almannaheilla.

Nánari upplýsingar veitir Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, halla@os.is