Fréttir, opinberar birtingar, starfsmenn og laus störf er að finna á vef Umhverfis- og orkustofnunar.

Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Vatn

Í umfjöllun um vatn er handhægt að aðgreina gerðir þess eftir aðgengileika (yfirborðsvatn, lindir og grunnvatn) sem og út frá nytjamöguleikum þess (nytjavatn, neysluvatn og jarðsjór). Þá eru þekktar megingerðir íslenskra vatnsfalla lindár, dragár og jökulár.

Vatn er undirstaða alls lífs og aðgengi að heilnæmu neysluvatni er grundvöllur heilbrigðis og framfara. Nægur aðgangur að vatni er forsenda flestra atvinnuvega landsins, s.s. fiskveiði, fiskeldis, iðnaðar, landbúnaðar (þ.m.t. garðyrkju, mjólkurframleiðslu og kjötframleiðslu), og margvísleg dægurdvöl, t.a.m. sundlaugar og böð, er óhugsandi án auðvelds aðgengis og ríkulegs vatnsmagns. Vatn er jafnframt helsti orkuberi landsins, bæði í vatnsafli og jarðvarma.

Hvað gerum við

Orkustofnun ber ábyrgð á stjórnsýslu með tveimur afmörkuðum sviðum vatnamála á Íslandi. Þar er annars vegar um að ræða vatn sem auðlind til beinna nytja og hins vegar vatn sem orkubera fyrir vatnsafl og jarðhita. Þá heldur stofnunin utan um skilgreind verkefni vegna framkvæmda í og við vatn.

Náin samvinna er af hálfu Orkustofnunar við aðra opinbera aðila sem bera ábyrgð hver með sínum hætti á skyldum sviðum vatnamála. Þar má nefna Fiskistofu, sem veitir leyfi vegna framkvæmda í og við veiðivötn, og Veðurstofu Íslands, sem ber ábyrgð á almennum rannsóknum á vatnafari. Umhverfisstofnun hefur umsýslu varðandi lög um stjórn vatnamála og fer, ásamt Matvælastofnun, með yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti á vegum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, sem aftur bera ábyrgð á hreinleika neysluvatns. Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands rannsaka líf í vatni og Skipulagsstofnun fer með umhverfismat og skipulagsmál. Einnig er samstarf við orku- og veitufyrirtæki og samtök þeirra, Samorku, svo og við hin ýmsu sveitarfélög. Hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða, enda kemur vatnið víða við og frá mörgum hliðum.

Umsóknir og leyfisveitingar

Orkustofnun veitir leyfi til leitar, rannsókna og nýtingar grunnvatns, hvort sem um er að ræða eignarlönd eða þjóðlendur, í samræmi við lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Stofnunin hefur jafnframt með höndum stjórnsýslu og eftirlit varðandi vatn á yfirborði jarðar samkvæmt vatnalögum og veitir rannsóknar- og virkjunarleyfi til undirbúnings vatnsaflsvirkjana samkvæmt ákvæðum raforkulaga.

Við leyfisveitingar Orkustofnunar til nýtingar vatns, og við aðrar leyfisveitingar, ber stofnuninni að tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun sem unnin er í samræmi við lög um stjórn vatnamála, nr. 36/2011. Í tilvikum sem fyrirhugaðar framkvæmdir falla undir ákvæði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, ber jafnframt að liggja fyrir niðurstaða Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld, ellegar álit stofnunarinnar á matsskýrslu verkefnisins, áður en leyfisumsókn er send Orkustofnun.

Leyfi – umsóknir (og nánari upplýsingar):

Nytjavatn

Nytjavatn tekur til hvers konar vatns sem nýtt er til neyslu og brynningar, eða til annarra beinna þarfa, svo sem í garðyrkju, iðnaði, til hitunar húsa með eða án varmaskipta og í fiskeldi. Á Íslandi er nytjavatns að langmestu leyti aflað úr grunnvatni eða lindum, en til undantekninga heyrir bein nýting úr yfirborðsvatni. Grunnvatn getur verið ferskt, ísalt eða salt sem sjór (jarðsjór).

Neysluvatn

Neysluvatn er ferskvatn til neyslu og matvælaframleiðslu sem uppfyllir tilskildar kröfur um hreinleika og hollustu. Neysluvatn er skilgreint sem matvæli að gæðum samkvæmt lögum og reglugerðum þar að lútandi. Neysluvatnsauðlindin er allt það vatn sem nýta má sem neysluvatn á skynsamlegan og hagkvæman hátt.

Grunnvatn

Grunnvatn er skilgreint sem vatn neðan jarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, sem fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi. Nýting grunnvatns krefst yfirleitt mannvirkjagerðar, borholu til að færa vatnið upp á yfirborð. Nýting grunnvatns er almennt háð leyfi Orkustofnunar í samræmi við 6. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998 (auðlindalög).
Eignarlandi fylgir eignarréttur að grunnvatni, sem og öðrum auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn. Landeiganda er heimilt án leyfis að nýta allt að 70 l/sek af grunnvatni í eignarlandi sínu til heimilis og búsþarfa skv. 14. gr. auðlindalaga.

Lindir

Lindir teljast náttúruleg uppkoma grunnvatns til yfirborðs. Samkvæmt vatnalögum, nr. 15/1923, má hver maður gera brunna og vatnsból á landareign sinni, þar sem vatn er tekið eða nytjað á staðnum, án borunar eða meiriháttar mannvirkjagerðar sem ætlað væri að koma vatni upp á yfirborð. Aðrir en landeigendur geta í vissum tilvikum sótt sér vatn af landareign annarra ef þar er nægt vatn afgangs, enda náist samningar við landeiganda um framkvæmdir eða bætur, ellegar aflað er heimildar um eignarnám.

Yfirborðsvatn

Yfirborðsvatn er hugtak yfir allt rennandi og kyrrstætt vatn á yfirborði jarðar, í föstu eða fljótandi formi. Nýting yfirborðsvatns til neyslu er hverfandi en helsta beina nýtingin er til raforkuframleiðslu. Samkvæmt 7. gr. vatnalaga skulu „vötn öll renna sem að fornu hafa runnið“ og hefur þessi meginregla verið í gildandi lögum allt frá þjóðveldisöld. Samkvæmt sömu grein vatnalaga er óheimilt nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til að:
  • breyta vatnsbotni, straumstefnu, vatnsmagni eða vatnsflæði, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð,

  • gerstífla straumvatn eða gera mannvirki í vatni eða yfir því,

  • veita vatni af einni fasteign á fasteign annarra,

ef tjón eða hætta er af því búin eign annars manns eða réttindum, óhæfilegar tálmanir almennri umferð eða tjón eða hætta að nokkru ráði fyrir hagsmuni ríkis eða almennings.
Þá ber samkvæmt vatnalögum að leita leyfis til vatnsmiðlunar (68. gr.), breytinga á vatnsfarvegi eða að gera nýjan farveg eða önnur mannvirki í vatni eða við það (75. gr.). Alla jafna ber að leita leyfis Orkustofnunar sem fer með stjórnsýslu og eftirlit með framfylgd vatnalaga (143. gr.), nema ef um er að ræða veiðivötn samkvæmt skilgreiningu í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, en Fiskistofa veitir leyfi til framkvæmda í og við slík vötn (33. gr. lax- og silungslaga).
Um leyfi til að virkja vatnsfall fer samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, og leyfi Orkustofnunar til miðlunar, veitingar og nýtingar vatns til raforkuframleiðslu er þá hluti virkjunarleyfis, sbr. 4. gr. raforkulaga, sjá nánar í umfjöllun um vatnsorku.

Vatnsorka

Landareign hverri, þ.m.t. þjóðlendu, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni sem á henni er með þeim hætti sem tilgreindur er í vatnalögum, nr. 15/1923. Eiganda landareignar sem vatnsréttindi fylgja, svo og öðrum sem heimildir hafa á þeim tekið, er rétt að nota það vatn sem um hana rennur til að vinna úr því orku, enda sé enginn fyrir það sviptur því vatni sem hann þarf að nota samkvæmt III. og IV. kafla sömu laga, né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun, né vatni er nota þarf með þeim hætti spillt fyrir neinum svo að til verulegra óþæginda horfi.
Leyfi Orkustofnunar þarf til að reisa og reka raforkuver. Þó þarf ekki slíkt leyfi vegna raforkuvera með uppsettu afli sem er undir 1 MW nema orka frá raforkuveri sé afhent inn á dreifikerfi dreifiveitna eða flutningskerfið. Vegna varaaflsstöðva sem gegna eingöngu því hlutverki að útvega afl til eigin nota vegna bilana, skorts á flutningsgetu, orkuskorts eða annarra þátta þarf þó ekki virkjunarleyfi.
Eigendur virkjana með uppsett afl 30–1.000 kW skulu skila Orkustofnun tæknilegum upplýsingum um virkjun. Einnig er skylt að tilkynna Orkustofnun árlega um heildarraforkuvinnslu raforkuvera með uppsettu afli yfir 100 kW.
Orkustofnun hefur útbúið leiðbeiningar og eyðublað til útfyllingar við umsókn um virkjunarleyfi, þ.m.t. fyrir vatnsaflsvirkjanir.