Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Vinna við nýja heimasíðu Umhverfis- og orkustofnunar er í gangi. Heimasíða Orkustofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.“

Rannsóknarleyfi

Leiðbeiningar fyrir umsókn á rannsóknarleyfi

image_heading_paragraph

Vegna umsóknar um rannsóknarleyfi þarf eftirfarandi að vera upplýst:

1. Tilgangur rannsóknar
2 .Nákvæm afmörkun rannsóknarsvæðis.
3 .Tímasetning rannsóknarinnar, og rannsóknaráfanga, ef við á.
4. Greinargerð um líkleg áhrif nýtingar á nærliggjandi svæði.
5. Yfirlit um fyrri rannsóknir á svæðinu, skýrslur og gögn.
6. Rannsóknaráætlun í megindráttum, áfangar og þættir.
7. Áætlun um fyrirhugaðar boranir og aðrar framkvæmdir við rannsóknina, frágangur borana og mannvirkja.
8. Upplýsingar um landeigendur á umræddu svæði.

Samantekt þessi um nauðsynlegar upplýsingar vegna umsókna um rannsóknarleyfi byggist einkum á 18. gr. laganna, liðum 2. - 5., 11. og 12., auk ákvæða 16. og 17. greinar.

Umsókn um rannsóknarleyfi

1. Tilgangur rannsóknar (16. gr.).

Tilgangur rannsóknarleyfis skal koma skýrt fram í  umsókn. Rannsóknirnar eru undirbúningur og aðdragandi að síðari tíma nýtingu eða áformum um nýtingu og því þarf að tilgreina fyrirhugaða nýtingu í umsókn. Búast má við, að niðurstöður rannsóknar ráði miklu um stærð eða umfang nýtingar, en engu að síður er æskilegt að umsækjandi tilgreini mörk á væntanlegri nýtingu. Stærð og vinnsluhættir hafa áhrif á hagkvæma nýtingu en einnig á hugsanlega skerðingu á nærliggjandi vinnslusvæðum. Öll þessi áhrif verða að öðru jöfnu minni því minni sem orkuvinnslan er.

2. Nákvæm afmörkun rannsóknarsvæðis (18. gr., 3. liður).

Nákvæm afmörkun rannsóknarsvæðis þarf að liggja fyrir. Rannsóknin sem slík er bundin við viðkomandi rannsóknarsvæði hverju sinni (sbr. 5. gr.). Tilgreina þarf mörkin með einhlítum markalínum og koma þá einkum til greina hnitapunktar, fallvötn, vatnaskil eða beinar línur milli skýrra marka í landslagi. Kort í viðunandi mælikvarða þarf að fylgja, svo að lega markanna fari ekki á milli mála.

3. Tímasetning rannsóknarinnar (18. gr., 2. liður).

Mikilvægt er að fyrir liggi tímaáætlun vegna fyrirhugaðra rannsókna þar sem skipuleg, skynsamleg og hagkvæm framkvæmd rannsóknar er nátengd tímasetningu einstakra þátta. Þar að auki er einnig eftirlit Orkustofnunar (21. og 22. gr.) að sínu leyti bundið við leyfistímann.  Tilgreina þarf nákvæma tímalengd og nákvæmar dagsetningar fyrir upphaf og lok rannsóknar eða leyfðs rannsóknaráfanga.

4. Greinargerð um líkleg áhrif nýtingar á nærliggjandi svæði (17. gr.).

Við meðferð umsókna þarf að meta líkur á áhrifum rannsókna á nýtingu á nærliggjandi vinnslusvæðum. Einnig líkur á áhrifum vinnslu á nærliggjandi svæðum á vinnslu á umræddu svæði. Mat á slíkum líkum getur ekki verið nákvæmt, áður en rannsóknir hefjast, en það fer eftir tilverandi þekkingu. Um hagsmunaárekstra getur orðið að ræða milli vinnsluaðila á nærliggjandi svæðum og umsækjanda og þarf að gera grein fyrir líkum á því. Ljóst er, að kalla getur þurft eftir frekari upplýsingum á grunni þessara gagna.

5. Yfirlit um fyrri rannsóknir á svæðinu, skýrslur og gögn.

Fyrri rannsóknir eru grunnur að rannsóknaráætlun og geta því einnig haft veruleg áhrif á tímasetningu rannsóknar, fyrirhugaða nýtingu og fleiri atriði tengd rannsóknunum.

6. Rannsóknaráætlun í megindráttum, áfangar og þættir.

Rannsóknaráætlun er forsenda skilvirkrar skrár um upplýsinga- og tilkynningaskyldu leyfishafa gagnvart Orkustofnun (18. gr., 6. liður, 22. gr.). Einnig er á að líta, hvaða rannsóknir verða gerðar og hvort ætlunin er að vinna rannsóknina í áföngum, en tímasetning leyfis getur farið eftir þessum atriðum.

7. Áætlun um fyrirhugaðar boranir og aðrar framkvæmdir við rannsóknina, frágangur borana og mannvirkja.

Áætlun um mannvirki og jarðrask við rannsóknina þarf að liggja fyrir (18. gr., 5. liður, 12. liður). Orkustofnun hefur umsögn um ýmsar framkvæmdir vegna rannsókna, svo sem boranir o.fl. (4. gr., 2. mgr., 21. og 22. gr.). Tengt þessari áætlun er, hvernig ganga skuli frá "starfsstöðvum og landi sem breytt hefur verið við rannsókn [...]" (18.gr., 12. liður), en það varðar eftirlit Orkustofnunar með jarðhitasvæðum (21. gr.). Þannig verður að liggja fyrir, hvernig skuli ganga frá borholum, vegaslóðum o.fl. Aðgerðir til að draga úr umhverfisspjöllum nýtingar (24. og 25. gr.) geta varðað Orkustofnun vegna eftirlits hennar (21. og 22. gr.). svo og vegna upplýsingar- og tilkynningarskyldu (18. gr., 6. liður).

8. Upplýsingar um landeigendur.

Á leyfisveitanda hvílir sú skylda samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, að kynna viðeigandi landeigendum framkomnar umsóknir um rannsóknarleyfi og gefa þeim kost að koma að athugasemdum um þær í samræmi við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-45/2004. Því er óskað eftir upplýsingum frá umsækjendum um þinglýsta landeigendur á fyrirhuguðu rannsóknarsvæði svo unnt sé að senda framkomnar umsóknir til umsagnar samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

Málsmeðferð umsóknar

Ferlið er þannig að viðkomandi aðili sækir um leyfi til Orkustofnunar. Orkustofnun sendir þá umsóknina, af því gefnu að allar upplýsingar liggi fyrir í umsókn, til umsagnar lögbundinna umsagnaraðila. Umsagnir eru því næst kynntar umsækjenda og honum eftir atvikum boðið að koma á framfæri athugasemdum um framkomnar umsagnir. Á grundvelli umsóknar, umsagna og athugasemdum umsækjenda um þær tekur Orkustofnun ákvörðun um útgáfu leyfis eða synjunar um leyfi. Ef leyfið er veitt fer Orkustofnun með eftirlit með leyfinu og skipar hún ábyrgðarmann með því og fer jafnfram fram á að leyfishafi geri slíkt hið sama.

Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laga, nr. 57/1998, sæta stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun rannsóknar- eða nýtingarleyfa samkvæmt lögum þessum kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina.