Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Jarðhiti

Ein mesta auðlind þessa lands er jarðhitinn og er Ísland meðal þeirra landa sem nýta þessa orkulind mest á heimsvísu.

Jarðhiti er hvergi mikilvægari í orkubúskapnum á heimsvísu en á Íslandi og eru yfir 60% af frumorkunotkun hérlendis vegna nýtingar hans til framleiðslu á heitu vatni og rafmagni, til ylræktar og annarra nota.


Jarðhiti á Íslandi á rætur að rekja til úrkomu sem kemst í snertingu við heitan berggrunn líkt og gerist á flekamótum annars staðar á jörðinni. Háhitasvæði eru í hinu virka gos- og gliðnunarbelti þar sem hraunkvika er víða á nokkurra kílómetra dýpi. Lághitasvæðin eru í jarðskorpu sem er eldri og hefur kólnað nokkuð um leið og hana hefur rekið út frá gosbeltunum. Á síðustu öld var mikið átak gert í virkjun jarðhita til húshitunar. Á síðari árum hefur einnig verið framleitt töluvert af raforku í jarðhitavirkjunum. Slíkar virkjanir eru yfirleitt á háhitasvæðum og framleiða í mörgum tilfellum einnig heitt vatn samhliða raforkuframleiðslunni.

Hvað gerum við

Orkustofnun ber ábyrgð á stjórnsýslu með rannsóknum og nýtingu jarðhita á Íslandi skv. auðlindalögum nr. 57/1998. Leyfi Orkustofnunar þarf til að nýta auðlindir í jörðu með ákveðnum undantekningum og stofnunin getur einnig veitt öðrum aðilum leyfi til rannsókna á jarðhita. Þá heldur stofnunin utan um mikið gagnasafn jarðhitarannsókna og -nýtingar og ber þar helst að nefna borholuskrá og tölfræðilegar upplýsingar í Orkutölum. Skylt er að skila inn upplýsingum fyrir boranir vegna jarðhitanýtingar.

Náin samvinna er af hálfu Orkustofnunar við aðra opinbera aðila sem koma að jarðhitanýtingu og framkvæmdum vegna hennar. Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands gegna mikilvægu hlutverki, m.a. með því að veita Orkustofnun umsagnir vegna umsókna um jarðhitaleyfi, en einnig eru mörg jarðhitasvæði vernduð að hluta til eða öllu leyti. Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagsmálum og veita framkvæmdaleyfi og Skipulagsstofnun fer með umhverfismat og skipulagsmál. Einnig er samstarf við orku- og veitufyrirtæki og samtök þeirra, Samorku, sem og Orkuklasann og Georg, rannsóknarklasa á sviði jarðhita. Þá hefur Orkustofnun verið aðili að djúpborunarverkefninu IDDP frá byrjun og jafnframt sinnt samstarfi á alþjóðavettvangi á sviði jarðhitanýtingar, þá sérstaklega í gegnum Uppbyggingarsjóð EES. Hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða, enda hefur jarðhitinn mikilvægt hlutverk í íslensku þjóðfélagi.

Umsóknir og leyfisveitingar

Orkustofnun veitir leyfi til leitar og rannsókna á jarðhita hvort sem um er að ræða eignarlönd eða þjóðlendur, í samræmi við lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998 (auðlindalög). Fari leit eða rannsókn fram á vegum landeiganda þarf þó ekki leyfi Orkustofnunar, en þó ber að senda Orkustofnun áætlun og lýsingu á fyrirhuguðum borunum, sprengingum, gerð námuganga eða öðrum verulegum framkvæmdum í þessu skyni.

Nýting auðlinda úr jörðu er háð leyfi Orkustofnunar skv. auðlindalögum hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða í þjóðlendum. Þó er landeiganda heimilt án leyfis að nýta allt að 3,5 MW til heimilis- og búsþarfa, miðað við vermi sem tekið er úr jörðu alls innan eignarlands. Þó ber að tilkynna Orkustofnun um fyrirhugaðar jarðboranir og aðrar meiriháttar framkvæmdir vegna þessa.

Þá gefur stofnunin út rannsóknar- og nýtingarleyfi á örverum í samræmi við auðlindalög og reglur nr. 234/1999, en eftirlit er á höndum Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Stofnunin gefur einnig út virkjunarleyfi fyrir jarðhitavirkjanir skv. raforkulögum nr. 65/2003 en grundvöllur þeirra er að til staðar sé nýtingarleyfi. Þó þarf ekki virkjunarleyfi vegna raforkuvera með uppsettu afli sem er undir 1 MW nema orka frá raforkuveri sé afhent inn á dreifikerfi dreifiveitna eða flutningskerfið. Vegna varaaflsstöðva sem gegna eingöngu því hlutverki að útvega afl til eigin nota vegna bilana, skorts á flutningsgetu, orkuskorts eða annarra þátta þarf þó ekki virkjunarleyfi. Eigendur virkjana með uppsett afl 30–1.000 kW skulu skila Orkustofnun tæknilegum upplýsingum um virkjun. Einnig er skylt að tilkynna Orkustofnun árlega um heildarraforkuvinnslu raforkuvera með uppsettu afli yfir 100 kW.

Í tilvikum þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir falla undir ákvæði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, ber jafnframt að liggja fyrir niðurstaða Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld, ellegar álit stofnunarinnar á matsskýrslu verkefnisins, áður en leyfisumsókn er send Orkustofnun.

Eftirlit

Samkvæmt lögum um Orkustofnun nr. 87/2003 er eitt af meginhlutverkum stofnunarinnar að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings. Til að sinna því hlutverki er Orkustofnun heimilt að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun.

Í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu er nánar kveðið á um eftirlitshlutverk Orkustofnunar ásamt upplýsinga- og tilkynningaskyldu leyfishafa. Í leitar-, rannsóknar- og nýtingarleyfum er jafnan nánar kveðið á um fyrirkomulag og áætlað umfang eftirlits með tilteknu leyfi. Í þeim tilfellum er miðað við lágmarkstímafjölda vegna eftirlits og gagnaskila án athugasemda.

Eftirliti Orkustofnunar með auðlindanýtingu er skipt í fjóra flokka:

Innra eftirlit

Innra eftirlit er eigið eftirlit leyfishafa með sjálfum sér, framkvæmt af starfsmönnum hans eða aðkeyptum þjónustuaðila, sem til þess hefur tilskilin réttindi, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í leyfi, lögum og reglugerðum séu uppfylltar.

Reglubundið eftirlit

Miðað er við að reglubundið eftirlit með leyfum fari fram árlega. Í reglubundnu eftirliti er gengið úr skugga um að starfsemi leyfishafa/eftirlitsþega sé í samræmi við lög, reglur og leyfi bæði með því að fara í vettvangsheimsóknir og því að hafa almennt eftirlit með leyfishafa.

Umfang eftirlits felur annars vegar í sér eftirlit á vettvangi og hins vegar móttöku og yfirferð gagna, ábendinga og fyrirspurna vegna starfseminnar. Hlutfall þess tíma sem fer í vettvangsferð á móti öðru umfangi (skrifborðseftirliti) er talsvert breytilegt eftir tegund starfsemi og því getur verið breytilegt hversu mikill tímafjöldi er innheimtur vegna eftirlits með leyfisskyldri starfsemi sem fellur innan sama málaflokks.

Fyrirvaralaust eftirlit

Óvenjubundnar og fyrirvaralausar vettvangsferðir í kjölfar ábendinga eða vísbendinga um frávik frá leyfum. Almennt er fyrirvaralausu eftirliti aðeins beitt til rannsóknar á alvarlegum og/eða ítrekuðum brotum á skilyrðum leitar-, rannsóknar- og nýtingarleyfa. Fyrirvaralaust eftirlit skal framkvæmt svo fljót sem auðið er og eftir því sem við á, fyrir veitingu, endurskoðun eða uppfærslu leyfis.

Viðbótareftirlit

Ef eftirlit sýnir fram á veruleg brot á leyfisskilyrðum skal fara fram viðbótareftirlit innan 6 mánaða frá því að brot átti sér stað eða vitneskja um brot barst eftirlitsaðila.

Eftirfylgni vegna frávika er innheimt samkvæmt tímagjaldi og komi til umfangsmikils eftirlits, s.s. vegna ábendinga, gagnaskila eða annarra ófyrirséðra þátta, mun Orkustofnun innheimta viðbótargjald skv. gjaldskrá og rauntímaskráningum í verkbókhaldi stofnunarinnar.

Tölulegar upplýsingar

Orkustofnun safnar gögnum um jarðhitanýtingu, þ.m.t. jarðhitavinnslu, framleiðslu í jarðhitavirkjunum o.fl.

Jarðhitavinnsla, eða frumorkunotkun jarðhita, er yfir 170 PJ á ári og skiptist svona á milli nýtingaraðila:

Ítarefni

Jarðhitinn er ein mikilvægasta auðlind Íslands og eru heimildir um nýtingu hans allt frá 13. öld, þegar Snorri Sturluson byggði laug í Reykholti. Sundlaugar, heitir pottar og aðrir baðstaðir skipa stóran sess í íslenskri menningu og er jarðhitinn því nátengdur þjóðarsálinni. Upphaflegar ástæður þess að ráðist var í stórtæka nýtingu jarðhita á fyrstu áratugum síðustu aldar voru ekki umhverfisverndar- eða loftslagssjónarmið, heldur peningaáhyggjur fátækrar þjóðar. Talið var að hægt væri að spara háar fjárhæðir með því að hætta að nota erlent jarðefnaeldsneyti til húshitunar og nýta þess í stað innlenda auðlind þar sem verðið myndi vera stöðugra. Þetta myndi þar að auki skapa meira orkuöryggi, en dæmi voru um að fólk hefði ekki haft efni á eldsneyti til upphitunar á fyrstu áratugum 20. aldar þegar mikill skortur var á eldsneyti og verðið himinhátt vegna stríðsreksturs úti í heimi. Enn í dag nýtur Ísland góðs af þessari ákvörðun og er húshitunarkostnaður hér með því lægra sem þekkist í heiminum.

Í auðlindalögum merkir hugtakið jarðhiti „annars vegar jarðvarmaforða í bergi í jarðskorpunni og hins vegar stöðugan straum varma úr iðrum jarðar sem ekki telst grunnvatn.“ Mörkin á milli jarðhitavatns og grunnvatns eru yfirleitt augljós, en þó geta komið upp mál þar sem jarðhiti er nýttur við lágt hitastig og mörkin þá ekki ljós. Jarðhiti er almennt skilgreindur sem endurnýjanleg auðlind en vinnsla jarðhita er sjálfbær ef aðstreymi til jarðhitasvæðanna er í jafnvægi við vinnsluna. Ef vinnsla er of ágeng er oft mögulegt að hvíla jarðhitasvæðið um tíma til að það nái jafnvægi á ný.

Á Íslandi er hefð fyrir því að skipta jarðhitasvæðum í tvo flokka:

Háhitasvæði

Háhitasvæði kallast þau svæði þar sem hitastig ofan 1000 m dýpis er hærra en 200°C. Þar eru skilyrði til að reisa jarðhitavirkjanir sem virkja gufu úr jarðhitasvæðinu til að keyra hverfla og framleiða rafmagn. Slíkar virkjanir framleiða gjarnan líka heitt vatn en þá eykst nýtni virkjunarinnar til muna. Háhitasvæði eru innan gosbeltisins sem nær frá Reykjanesi í suðvestri og í gegnum landið til norðausturs. Dæmi um háhitasvæði eru m.a. Hengilssvæðið, Svartsengi og Krafla.

Lághitasvæði

Lághitasvæði eru þar sem hiti á 1000 m dýpi er undir 150°C, og eru þau gjarnan nýtt til hitaveitu. Slík svæði eru utan gosbeltisins í bergi sem hefur kólnað eftir því sem það hefur rekið lengra út af gosbeltinu. Sem dæmi má nefna jarðhitasvæði í Laugardal í Reykjavík, Hjalteyri í Eyjafirði og Deildartungu í Borgarfirði. Stundum hefur verið talin ástæða til að aðgreina lághitasvæði þar sem hitastig er yfir 100°C en svæðið telst þó ekki sem háhitasvæði, og hafa þau verið kölluð sjóðandi lághitasvæði. Þar eru möguleikar til að framleiða takmarkað magn af rafmagni meðfram heitavatnsframleiðslu. Dæmi um slíka nýtingu er t.d. við Kópsvatn í Hrunamannahreppi þar sem framleidd er raforka áður en heita vatnið fer inn á hitaveitukerfi Flúða.