Vinna við nýja heimasíðu Umhverfis- og orkustofnunar er í gangi. Heimasíða Orkustofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.“

Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Hitaveita

Um 90% af þeirri orku sem nýtt er til húshitunar á Íslandi koma úr jarðhita (árið 2020). Þetta háa hlutfall er einstakt á heimsvísu og fer hækkandi þar sem hlutfallslega er meiri uppbygging á svæðum þar sem jarðhitaveitur eru starfandi, en einnig hafa nýjar hitaveitur tekið til starfa á undanförnum árum. Á þeim landsvæðum sem ekki njóta jarðhita er húshitun að mestu með raforku, bæði bein rafkynding en einnig eru starfræktar nokkrar rafkyntar fjarvarmaveitur. Önnur orkunotkun er olíukynding, aðallega sem varaafl í fjarvarmaveitum.


Upphaf nýtingar jarðhita til húshitunar má rekja til ársins 1908 þegar Stefán B. Jónsson á Suður-Reykjum í Mosfellsbæ veitti hveravatni heim að bæ sínum til upphitunar. Þá var hitaveita tekin í notkun í Laugaskóla í Reykjadal í nóvember 1924 og í Laugarvatnsskóla árið 1928, en samfélagslegar veituframkvæmdir hófust í stórum stíl með tilkomu Laugaveitunnar árið 1930 þegar 3 km löng pípa var lögð úr Þvottalaugunum í Reykjavík að Austurbæjarskóla. Hitaveita Reykjavíkur var í framhaldinu formlega stofnuð árið 1946, en áður höfðu Hitaveita Mosfellsbæjar og Hitaveita Ólafsfjarðar verið stofnaðar árin 1943 og 1944.

Olíukreppur

Olíukreppurnar árin 1973 og 1979 urðu til þess að breyta íslenskri orkustefnu. Mikil áhersla var lögð á að draga úr innflutningi á olíu og höfðu stjórnvöld frumkvæði að því að efla rannsóknir á jarðhita og ýta undir uppbyggingu hitaveitna.

Töluvert er til af sögulegum heimildum um hitaveitur landsins og jarðhitanotkun í víðara samhengi. Má þar meðal annars nefna bækurnar Auður úr iðrum jarðar eftir Svein Þórðarson (1998) og Jarðhitabókin eftir Guðmund Pálmason (2005).

 

Hvað gerum við

Hlutverk Orkustofnunar gagnvart starfsemi hitaveitna á Íslandi snýr að miklu leyti að gagnasöfnun, vinnslu og miðlun upplýsinga. Orkustofnun safnar upplýsingum um varmanotkun hitaveitna, hvort heldur sem er jarðhitaveitna eða fjarvarmaveitna og birtir talnaefni, sjá hér.

Orkustofnun sér einnig um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar vegna húsnæðis sem ekki er tengt jarðhitaveitu, sjá hér.

Stærstu hitaveitur á Íslandi hafa einkaleyfi, útgefið af ráðherra, til starfsemi á sínu veitusvæði, eða hluta þess, og starfa samkvæmt reglugerð. Þessi heimild er miðað við þau skilyrði sem orkulög nr. 58/1967, með síðari breytingum, ákveða. Mestur hluti varmans sem þær veita er fenginn frá jarðhitasvæðum en þó nokkrar rafkyntar fjarvarmaveitur eru starfandi á Vestfjörðum og Austurlandi. Þessar hitaveitur sjá um 95% þjóðarinnar fyrir heitu vatni. Áætlað er að um 200 minni jarðvarmahitaveitur séu starfandi víðs vegar í dreifðari byggðum landsins og sjá bæði heimilum og atvinnustarfsemi fyrir varma.

Hitaveitur með einkaleyfi skv. gildandi reglugerð í nóvember 2021. 

Umsóknir og leyfisveitingar

Orkustofnun veitir leyfi til leitar og rannsókna á jarðhita hvort sem um er að ræða eignarlönd eða þjóðlendur, í samræmi við lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998 (auðlindalög). Fari leit eða rannsókn fram á vegum landeiganda þarf þó ekki leyfi Orkustofnunar, en þó ber að senda Orkustofnun áætlun og lýsingu á fyrirhuguðum borunum, sprengingum, gerð námuganga eða öðrum verulegum framkvæmdum í þessu skyni.

Nýting auðlinda úr jörðu er háð leyfi Orkustofnunar skv. auðlindalögum hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða í þjóðlendum. Þó er landeiganda heimilt án leyfis að nýta allt að 3,5 MW til heimilis- og búsþarfa, miðað við vermi sem tekið er úr jörðu alls innan eignarlands. Þó ber að tilkynna Orkustofnun um fyrirhugaðar jarðboranir og aðrar meiriháttar framkvæmdir vegna þessa.

Þá gefur stofnunin út rannsóknar- og nýtingarleyfi á örverum í samræmi við auðlindalög og reglur nr. 234/1999, en eftirlit er á höndum Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Stofnunin gefur einnig út virkjunarleyfi fyrir jarðhitavirkjanir skv. raforkulögum nr. 65/2003 en grundvöllur þeirra er að til staðar sé nýtingarleyfi. Þó þarf ekki virkjunarleyfi vegna raforkuvera með uppsettu afli sem er undir 1 MW nema orka frá raforkuveri sé afhent inn á dreifikerfi dreifiveitna eða flutningskerfið. Vegna varaaflsstöðva sem gegna eingöngu því hlutverki að útvega afl til eigin nota vegna bilana, skorts á flutningsgetu, orkuskorts eða annarra þátta þarf þó ekki virkjunarleyfi. Eigendur virkjana með uppsett afl 30–1.000 kW skulu skila Orkustofnun tæknilegum upplýsingum um virkjun. Einnig er skylt að tilkynna Orkustofnun árlega um heildarraforkuvinnslu raforkuvera með uppsettu afli yfir 100 kW.

Í tilvikum þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir falla undir ákvæði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, ber jafnframt að liggja fyrir niðurstaða Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld, ellegar álit stofnunarinnar á matsskýrslu verkefnisins, áður en leyfisumsókn er send Orkustofnun.