Viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum ríkisflotans
1 október 2024Í nýrri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er að finna aðgerð sem nefnist Full orkuskipti ríkisflota og samgönguþjónustu fyrir 2030. Þessi aðgerð felur einfaldlega í sér að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki klára orkuskipti í sínum flota fyrir árið 2030 þ.e. í flokki fólksbíla og sendibíla. Sem sagt að allar fólks- og sendibifreiðar í eigu og notkun ríkisins keyri að fullu á íslenskri, endurnýjanlegri orku í lok árs 2029. Lykilatriði er einfaldlega að rafknúnar samgöngur eru að jafnaði hagkvæmari þegar kaup og rekstur er borin saman við bensín- og dísilbíla.
En er þetta tæknilega hægt?
Aðgerðaráætlun var m.a. unnin í góðu samstarfi við Bílgreinasambandið sem eru samtök atvinnurekenda í sölu ökutækja, vöru og þjónustu þeim tengdum. Sérfræðingar þar töldu enga tæknilega annmarka á því að rafknúin ökutæki, í flokki fólks- og sendibíla, gætu tekið við jarðefnaeldsneytisbílum í starfsemi ríkisins á næstu sex árum. Ef einhverjir bílar henta ekki í dag þá mun það örugglega breytast á næstu sex árum með nýjum tegundum rafbíla.
Orkuskipti í samgöngum hjá ríkinu eru ekki á neinum byrjunarreit og stór hluti stofnana þegar byrjaður á þessari vegferð. Nú þurfa forstöðumenn ríkisstofnana, ef þeir eru ekki þegar búnir að því, að setja upp orkuskiptaáætlun til 2030 og festa í sessi reglur um kaup á samgönguþjónustu sem tryggir nýtingu á rafknúnum ökutækjum sem nota íslenska og mengunarlausa raforku.
Vörður fyrir árangur í orkuskiptum er skipt niður í 4 þrep, 30, 60, 90 og 100% árangur.
Til að fylgja á eftir þessari aðgerð hefur Orkustofnun komið á hvatakerfi sem veitir viðurkenningar fyrir árangur í orkuskiptum bílaflota hjá ríkisstofnunum og -fyrirtækjum. Unnið er út frá gögnum Samgöngustofu yfir ríkisbifreiðar og skoðað hlutfall hreinorkubíla í flotanum. Viðurkenningin er á formi veggspjalds sem er skafmiði þar sem stofnanir skafa nýtt dekk þegar áfanga er náð. Hugmyndin af viðurkenningunni er að gefa stofnunum og fyrirtækjum tól til að sýna fram á árangur í orkuskiptum og sömuleiðis fyrir starfsmenn að sjá hver staðan er hverju sinni. Lagt er upp með að veggspjaldið verði hengt upp á vinnustöðum og fagnað verði svo með starfsmönnum þegar nýr áfangi næst.
Á ársfundi Orkustofnunar voru fyrstu viðurkenningar veittar. Alls fengu 24 stofnanir og fyrirtæki boð um að koma og veita viðurkenningunnnu viðtöku. Í þessum fyrsta áfanga er horft til bílaflota sem eru 5 bílar eða fleiri. Fyrstu viðurkenninguna fengu Heilbrigðisstofnun Suðurnesja en það er sú stofnun sem hefur náð bestum árangri í orkuskiptum bílaflotans og fyrsta stofnun ríkisins til að að ná plantínudekkinu. Helga Hauksdóttir veitti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd þeirra með henni var umhverfis- orku og og loftslagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson sem tók við viðurkenningu fyrir Umbra - Þjónustumiðstöð stjórnarráðsins sem eru komin með gulldekkið.
Helga Hauksdóttir frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fyrst til að skafa platínudekkið.
Hafþór Ingi Þorgrímsson mætti fyrir hönd lögreglustjórans á Vesturlandi. Þeirra starfsemi er dæmi um krefjandi bifreiðanotkun þar sem rafbílar þurfa að dekka stórt athafnasvæði við erfiðar aðstæður. Rafbílarnir hafa reynst vel og sparað mikinn eldsneytis- og viðhaldskostnað.
Sigurður Ingi Friðleifsson sviðstjóri hjá Orkustofnun, Hafþór Ingi Þorgrímsson frá Lögreglunni á Vesturlandi og Guðlaugur Þór Þórðarson Umhverfis- , orku-, og loftslagsráðherra.