Nýtni var það, heillin
25 september 2023Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri skrifar um tækifæri í betri nýtingu auðlinda okkar. „Nýtni er nefnilega ekki stöðnun heldur hvetur hún til nýsköpunar og sóknar með það sem við höfum á milli handanna hverju sinni og styður við sjálfbærni um leið.“
Ég var nýflutt að heiman þegar amma heitin kíkti í heimsókn í litlu íbúðina. Að vanda kom hún færandi hendi. Í þetta sinn þó ekki með kleinur eða smákökur, heldur hlaðin eldhúsáhöldum til gjafar. Þiggðu þetta, Halla Hrund mín, sagði hún og dreifði rösklega úr djásninu á eldhúsborðið. Mér var litið yfir misstórar ausur, handþeytara, skeiðar og steikarspaða, flest af sitt hvorri sortinni og alls ekki af nýjustu gerð. „En, amma, það má græja þetta allt í IKEA,“ hikstaði ég rúmlega tvítug um leið og ég hugsaði hvað það yrði nú fallegt að hafa þetta allt í stíl. En amma var ekki af baki dottin (frekar en fyrri daginn). „Ég hef tekið frá og safnað fyrir þig það sem ég á tvennt af. Þá þarftu ekki að eyða í vitleysu og getur nýtt peninginn í eitthvað viturlegra.“
Þessi orð mælti konan sem hafði um árabil nýtt hverja auðlind sveitabæjar þeirra afa af natni og uppskorið allt frá verðlaunamjólk yfir í fyrsta flokks afurðir. Þannig byggðu þau sjálfbæran og úrræðagóðan rekstur, juku verðmæti og komu sínu fólki á legg. Samfélög hafa að undanförnu einmitt verið að reyna að innleiða hugsun ömmu aftur sem mótsvar við „henda öllu“-hagkerfinu sem á rætur að rekja til Bandaríkjanna, oft með einnota borðbúnað sem birtingarmynd. Nýtni er nefnilega ekki stöðnun heldur hvetur hún til nýsköpunar og sóknar með það sem við höfum á milli handanna hverju sinni og styður við sjálfbærni um leið.
Hugsunin á heldur betur við í auðlindanýtingu, en þar á meginmarkmiðið alltaf að vera að fá sem mest verðmæti fyrir alla nýtingu. Þannig má skapa velmegun fyrir núverandi kynslóðir, án þess að ganga of langt á möguleika þeirra sem á eftir koma. Í samhengi loftslagsmálanna hefur Alþjóðlega orkumálastofnunin til dæmis bent á að á heimsvísu megi bæta orkunýtni, og þar draga úr orkuþörf, til að ná 40% af markmiðum Parísarsáttmálans er tengist losun frá orkuframleiðslu. Einnig er mikilvægt að horfa á nýsköpun heilt yfir í hringrásarhagkerfinu til að komast í mark.
Áherslan á þessi mál hefur aukist töluvert á Íslandi og eigum við Íslendingar enn fjölmörg tækifæri til að nýta orkuna okkar betur, af virðingu fyrir okkar dýrmætu endurnýjanlegu orkulindum og náttúru. Dæmi um nýlegar aðgerðir á orkusviðinu eru lög sem gefa færi á að bæta nýtingu núverandi virkjana með því að stækka þær með betri tækjabúnaði án þess að fara inn á óröskuð landsvæði. Annað dæmi er snjallmælavæðing orkukerfisins þar sem tæknin getur hjálpað okkur að dreifa betur álagi á raforkukerfið sem sparar bæði kostnað við fjárfestingu í dýrum innviðunum og dregur úr raforkuþörf. Þriðja dæmið er vinna opinberra fyrirtækja við að styrkja æðar raforkukerfisins, rafmagnslínurnar sjálfar, sem eykur getu til að flytja orkuna á milli landshluta svo við nýtum orkuframleiðslu landsins hverju sinni sem best, óháð búsetu fólks og fyrirtækja.
Greinin birtist fyrst í Heimildinni 22. september
Fleiri fréttir