Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Fréttir
Er pláss fyrir einn bensínbíl í viðbót?

Er pláss fyrir einn bensínbíl í viðbót?

29 nóvember 2022

Við kynnum Orkuskiptalíkan Orkustofnunar – spá í kvikum heimi -  hér er upptaka af kynningunni.

Kynningin fer fram í fyrirlestrasal Grósku í dag, þriðjudaginn 29. nóvember, kl. 14:00. Horfið á streymi hér: 

Orkuskiptalíkanið kynnt til sögunnar og farið yfir virkni þess ásamt niðurstöðum greininga. 

Orkuskiptalíkanið www.orkuskiptaspa.is er gagnvirkt verkfæri til að móta áætlanagerð út frá stillanlegum forsendum sem geta rímað við markmið, stefnu og skuldbindingar Íslands í orku- og loftslagsmálum. Það er ekki nóg að setja fram spár, við verðum líka að skilja hvað það þýðir í innleiðingu á aðgerðum.  

Verkefnið er hluti af innleiðingu nýrrar stefnu Orkustofnunar þar sem gagnsætt og gagnvirkt upplýsingaflæði er í forgrunni.  Mikilvægt er að sem flest geti haft aðgengi að góðum gögnum og séð hvaða áhrif mismunandi forsendur hafa á orkuskiptin.  

Þetta er einnig fyrsta skref stofnunarinnar í að samvinna orkuspár sem hafa áður verið gefnar út í sitthvoru lagi í formi skýrslna. Orkuskiptalíkanið tengir eldsneytisspá og raforkuþörf vegna orkuskipta. Fyrri spár byggðu á eftirspurn eftir olíu og aðallega samfélagsþróun og orkunýtni sem höfðu áhrif á niðurstöður spánna. Nú eru nýir orkugjafar að ryðja sér til rúms með tilheyrandi óvissu. Það er flókið að áætla hver skiptingin verður milli rafeldsneytis og beinnar nýtingar raforku ásamt innleiðingarhraða nýrrar tækni. Margar spurningar vakna:

  • Hvenær verða nýir orkugjafar allsráðandi og hvenær?  
  • Hvaða nýi orkugjafi verður fyrir valinu?  
  • Verða nýir orkugjafaframleiddir hér eða erlendis? 
  • Hvaða áhrif hefur fjöldi ferðamanna á orkuþörf? 

Aldrei í orkusögunni hefur verið erfiðara að spá. 

Með þessari framsetningu leggur Orkustofnun meiri áherslu á aðgengi upplýsinga og gagnvirkni til að stuðla að upplýstri umræðu.  

"Er pláss fyrir einn bensínbíl í viðbót á Íslandi?" er yfirskrift kynningarinnar. Stærstan hluta losunar á beinni ábyrgð Íslands gagnvart Parísarsáttmálanum má rekja til eldsneytisnotkunar. Hún kemur að mestu frá olíunotkun bifreiða og fiskiskipa. Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 29% árið 2030 miðað við 2005. Enn fremur kemur fram í stjórnarsáttmála að Ísland muni setja sér sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2030.

Núverandi aðgerðaáætlun í loftslagmálum stefnir að 35% samdrætti losunar á beinni ábyrgð Íslands. Þar á meðal er gert ráð fyrir 21% samdrætti losunar í vegasamgöngum og 42% samdrætti losunar frá fiskiskipum, ferjum og strandsiglingum. Grunnsviðsmynd Orkuskiptalíkansins, sem gerir ráð fyrir hraðari orkuskiptum en áður, gefur til kynna að við verðum töluvert frá því að ná markmiðum aðgerðaáætlunar um samdrátt losunar frá bifreiðum. Flýta verður innleiðingu nýorkubíla verulega til að markmið náist. Sem dæmi um hraðari innleiðingu má líta til Noregs. En þar í landi verður bannað að nýskrá fólks-, og sendibíla eftir 2025 sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Í Orkuskiptalíkaninu er hægt að sjá áhrif slíkra aðgerða. Með því myndi Ísland ná markmiði núverandi aðgerðaáætlunar og rúmlega það vegna eldsneytisnotkunar bifreiða. 

Áhugaverðar niðurstöður greininga

Bifreiðar og fiskiskip bera uppi stærstan hluta af notkun jarðefnaeldsneytis innanlands. Orkuskipti í almennum fólksbílaflota er komið vel af stað en þó eru aðeins 8% af flotanum hreinir rafbílar eða metanbílar. Það tekur langan tíma að umbreyta flota landsmanna, enda eru bílar í notkun í 10-20 ár. Huga þarf að bílaleigubílum og stærri ökutækjum. Allt tekur þetta tíma.  

Mikil óvissa ríkir um orkuþörf fiskiskipa þar sem aflahorfur stýra henni að miklu leyti. Þá munu orkuskipti fiskiskipa taka lengri tíma en í vegasamgöngum. Rafeldsneyti er líklegur kostur til lengri tíma litið en ör tækniþróun á sér stað um þessar mundir. Leita gæti þurft leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til skemmri tíma svo markmiðum stjórnvalda verði náð t.d. með íblöndun lífeldsneytis.  

Það lítur út fyrir að fjöldi ferðamanna muni stýra því hversu snemma við getum dregið úr heildarolíunotkun. Ferðamenn hafa töluverð áhrif, að mestu vegna flugferða en einnig vegna keyrslu bílaleigubíla og hópferðabíla. Flýta þarf orkuskiptum bílaleigubíla þar sem þeir spila stórt hlutverk í markaði notaðra bíla og hægja á orkuskiptum í bílaflota landsmanna ef þeir ganga mikið lengur fyrir jarðefnaeldsneyti.  

Orkuþörf og orkuskipti

Í tilefni kynningarinnar gefur orkustofnun út skýringarefni þar sem orkuþörf í orkuskipti er spegluð við virkni núverandi orkumarkaðar. Ekki er tryggt að laus orka rati í orkuskiptin og samkeppnin um orku er mikil. Það er í höndum orkufyrirtækja að ákveða hvert orkan er seld. Orkustofnun bendir á mögulegar leiðir til að nálgast orkumarkaðinn og styðja við loftslagsaðgerðir hins opinbera.

Orkuskiptalíkan Orkustofnunar er verk í vinnslu og býður stofnunin til samtals um þróun líkansins og hvetur aðila til að koma athugasemdum til stofnunarinnar með því að senda á orkuskipti@os.is.