Jarðefni
Jarðefnaauðlindir (e. mineral resources) nefnast þær auðlindir einu nafni sem eiga það sameiginlegt að vera unnar úr jarðskorpunni (e. lithosphere).
Meginuppistaða jarðskorpunnar eru svokölluð steinefni. Steinefni geta samanstaðið af aðeins einu frumefni, eins og gull, silfur, brennisteinn og kolefni (demantur), en flest þeirra myndast af ýmsum samsetningum frumefnanna átta O, Si, Al, Fe, Ca, Na, K, og Mg. Samanlagt mynda þessi efnasambönd uppistöðu jarðskorpunnar um allt að 98,5 %. Jarðefnaauðlindir eru óendurnýjanlegar auðlindir og innihalda sumar þeirra málma (t.d. járn, kopar og ál) en aðrar ekki (t.d. salt, gifs, leir, sandur og fosföt).
