Fréttir, opinberar birtingar, starfsmenn og laus störf er að finna á vef Umhverfis- og orkustofnunar.

Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Jarðefni á landi

Jarðefni merkir í auðlindalögum öll gosefni og önnur steinefni, málma, málmblendinga og málmsteindir, kol, jarðolíu, jarðgas og önnur nýtanleg efni sem finnast kunna í jörðu.

Hvað gerum við

Orkustofnun sinnir lögbundnu hlutverki sínu er varðar leyfisveitingar og eftirlit leyfa vegna leitarrannsókna og nýtingar auðlinda (hér jarðefna*) í jörðu. Ásamt því sinnir stofnunin almennri stjórnsýslu fyrir málaflokkinn, sem meðal annars getur snúið að umsögnum er varðar umhverfismat framkvæmda og önnur skipulagsmál, og á í samvinnu við aðrar stofnanir, hagaðila og lögbundna umsagnaraðila eftir því sem við á hverju sinni.

Öll nýting úr jörðu er háð nýtingarleyfi Orkustofnunar, samkvæmt auðlindalögum. Undantekningin er þó að landeiganda (eða þess sem hann semur við) er heimilt án leyfis Orkustofnunar til að rannsaka og hagnýta á eignarlandi berg, grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mold, mó og surtarbrand.

Þetta þýðir að sækja þarf um leyfi til Orkustofnunar vegna leitarrannsóknar eða nýtingar annarra jarðefna* hvort sem það er innan eignarlands, þjóðlendna eða ríkisjarða. Ásamt því þarf ávallt að sækja um leyfi til Orkustofnunar vegna leitarrannsóknar eða nýtingar á jarðefnum innan þjóðlendna.

Þar að auki er Orkustofnun heimilt að hafa frumkvæði að og/eða láta rannsaka og leita að auðlindum (hér jarðefnum) í jörðu hvar sem er á landinu og skiptir þá ekki máli þó að landeigandi hafi sjálfur hafið slíka rannsókn eða leit eða heimilað það öðrum, nema viðkomandi aðili hafi gilt rannsóknarleyfi.

Umsóknir og leyfisveitingar

Sótt er um leyfi vegna leitarrannsóknar eða nýtingar jarðefna á landi (eftir því sem við á) til Orkustofnunar. Ef stofnunin telur umsóknina fullnægjandi er hún send til umsagnar lögbundinna umsagnaraðila og, eftir atvikum, annarra stofnanna eða hagsmunaaðila. Umsagnir eru því næst kynntar umsækjenda og honum boðið að koma á framfæri athugasemdum um þær. Á grundvelli umsóknar, umsagna og athugasemda umsækjenda um þær tekur Orkustofnun ákvörðun um útgáfu leyfis eða synjunar um leyfi.

Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laga, nr. 57/1998, sæta stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun rannsóknar- eða nýtingarleyfa samkvæmt lögum þessum kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina

Vegna umsóknar:

Vegna umsóknar: um leitar-, rannsóknar-eða nýtingarleyfi þarf eftirfarandi að vera upplýst:

  1. Tilgangur rannsóknar.

  2. Nákvæm afmörkun rannsóknarsvæðis.

  3. Tímasetning rannsóknarinnar, og rannsóknaráfanga, ef við á.

  4. Greinargerð um líkleg áhrif nýtingar á nærliggjandi svæði.

  5. Yfirlit um fyrri rannsóknir á svæðinu, skýrslur og gögn.

  6. Rannsóknaráætlun í megindráttum, áfangar og þættir.

  7. Áætlun um fyrirhugaðar boranir og aðrar framkvæmdir við rannsóknina, og frágang borana og mannvirkja.

  8. Upplýsingar um landeigendur á umræddu svæði.

  9. Hvernig skuli ráðstafa vinnslumannvirkjum og vinnslutækjum að leyfistíma loknum.

Rannsóknarleyfi

Rannsóknarleyfi samkvæmt auðlindalögum felur í sér heimild til þess að leita að viðkomandi auðlind (hér viðeigandi jarðefnum) á tilteknu svæði á leyfistímanum, rannsaka umfang, magn og afkastagetu hennar og fylgja að öðru leyti þeim skilmálum sem tilgreindir eru í auðlindalögum og Orkustofnun telur nauðsynlega. Rannsóknarleyfi er aðeins veitt einum aðila á hverju svæði.

Nýtingarleyfi

Nýtingarleyfi samkvæmt auðlindalögum felur í sér heimild til handa leyfishafa til að vinna úr og nýta viðkomandi auðlind (hér viðeigandi jarðefni) á leyfistímanum í því magni og með þeim skilmálum öðrum sem tilgreindir eru í lögunum og Orkustofnun) telur nauðsynlega.  

Ef um matsskylda framkvæmd, skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum, er að ræða þarf úrskurður Skipulagsstofnunar að liggja fyrir áður en nýtingarleyfi fæst.

Áður en rannsóknar- eða nýtingarleyfi er veitt leitar Orkustofnun skv. ákvæðum hafsbotnslaga umsagnar til:

•         Umhverfisstofnunar

•         Náttúrufræðistofnunar Íslands

•         Hafrannsóknarstofnunar (eftir atvikum)

•         Viðkomandi sveitarstjórnar (á við um nýtingarleyfi)

Aðrir umsagnaraðilar sem stofnunin getur m.a. leitað til eftir málsatvikum:

•        Minjastofnun Íslands

•         Aðrir aðilar eftir atvikum sem hagsmuna hafa að gæta á umræddu svæði

Eftirlit

Samkvæmt lögum um Orkustofnun nr. 87/2003 er eitt af meginhlutverkum stofnunarinnar að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings. Til að sinna því hlutverki er Orkustofnun heimilt að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun.

Í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu er nánar kveðið á um eftirlitshlutverk Orkustofnunar ásamt upplýsinga- og tilkynningaskyldu leyfishafa. Í leitar-, rannsóknar- og nýtingarleyfum er jafnan nánar kveðið á um fyrirkomulag og áætlað umfang eftirlits með tilteknu leyfi. Í þeim tilfellum er miðað við lágmarkstímafjölda vegna eftirlits og gagnaskila án athugasemda.

Eftirlit Orkustofnunar með auðlindanýtingu er skipt í fjóra flokka:

Innra eftirlit

Innra eftirlit er eigið eftirlit leyfishafa með sjálfum sér, framkvæmt af starfsmönnum hans eða aðkeyptum þjónustuaðila, sem til þess hefur tilskilin réttindi, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í leyfi, lögum og reglugerðum séu uppfylltar.

Reglubundið eftirlit

Miðað er við að reglubundið eftirlit með leyfum fari fram árlega. Í reglubundnu eftirliti er gengið úr skugga um að starfsemi leyfishafa/eftirlitsþega sé í samræmi við lög, reglur og leyfi bæði með því að fara í vettvangsheimsóknir en einnig með því að hafa almennt eftirlit með leyfishafa.

Umfang eftirlits felur annars vegar í sér eftirlit á vettvangi og hins vegar móttöku og yfirferð gagna, ábendinga og fyrirspurna vegna starfseminnar. Hlutfall þess tíma sem fer í vettvangsferð á móti annars umfangs (skrifborðseftirlits) er talsvert breytilegt eftir tegund starfsemi og því getur verið breytilegt hversu mikill tímafjöldi er innheimtur vegna eftirlits með leyfisskyldri starfsemi sem fellur innan sama málaflokks.

Fyrirvaralaust eftirlit/atvikabundið eftirlit

Óvenjubundnar og fyrirvaralausar vettvangsferðir í  kjölfar ábendinga eða vísbendinga um frávik frá leyfum. Almennt er fyrirvaralausu eftirliti aðeins beitt til rannsóknar á alvarlegum og/eða ítrekuðum brotum á skilyrðum leitar-, rannsóknar- og nýtingarleyfa. Fyrirvaralaust eftirlit skal framkvæmt svo fljót sem auðið er og eftir því sem við á, fyrir veitingu, endurskoðun eða uppfærslu leyfis.

Viðbótareftirlit

Ef eftirlit sýnir fram á veruleg brot á leyfisskilyrðum skal fara fram viðbótareftirlit innan 6 mánaða frá því að brot átti sér stað eða vitneskja um brot barst eftirlitsaðila.

Eftirfylgni vegna frávika er innheimt samkvæmt tímagjaldi og komi til umfangsmikils eftirlits, s.s. vegna ábendinga, gagnaskila eða annarra ófyrirséðra þátta, mun Orkustofnun innheimta viðbótargjald skv. gjaldskrá og rauntímaskráningum í verkbókhaldi stofnunarinnar.