Vindur
Hægt er að nýta vind til orkuframleiðslu og hafa tækniframfarir á sviði vindorkunýtingar verið örar undanfarna áratugi. Vindorkunýting á landi er orðin umtalsverð á heimsvísu og þróun vindorkunýtingar á hafi er í mikilli sókn.
Á Íslandi eru veðurfarsleg skilyrði til vindorkunýtingar víða góð og samrekstur á vindafli og vatnsafli gæti verið álitlegur kostur í íslensku raforkukerfi. Vindorka er mest á veturna þegar lágt getur verið í lónum en er minni á sumrin þegar vatnsrennsli er mest. Hámarksorkuvinnslugeta vindafls er því á veturna en vatnsafls á sumrin. Einnig má spara vatn í uppistöðulónum þegar vindafls nýtur við og bæta þannig heildarnýtingu á framleiðslugetu raforku á Íslandi. Vindur er þó töluvert frábrugðinn hinum hefðbundnu orkulindum Íslands, sem eru fremur staðbundnar út frá náttúru- og jarðfræðilegum skilyrðum sem þær einskorðast við, þ.e.a.s. vatnsafli og jarðhita. Vindur er aðgengilegur mun víðar á landsvísu og þarf nýting hans að taka mið af þerri sérstöðu sem og þeim hagsmunum sem undir liggja er varðar áhrif á náttúru, samfélög og efnahag.
Hvað gerum við
Auk þeirra hlutverka sem Orkustofnun eru falin með lögum um Orkustofnun nr. 87/2003 ber hún, á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003, ábyrgð á stjórnsýslu vegna hagnýtingar vinds til raforkuframleiðslu. Vindorkugarðar sem hafa uppsett afl 10 MW eða meira þurfa að vera í nýtingarflokki rammaáætlunar, líkt og raforkuframleiðsla úr öðrum auðlindastraumum.
Orkustofnun ber ábyrgð á stjórnsýslu er varðar nýtingu vindorku til raforkuframleiðslu skv. ákvæðum raforkulaga, nr. 65/2003. Er þar með talin veiting virkjunarleyfa og veiting umsagna um málsmeðferðir annarra opinberra stjórnsýslustofnana er varða vindorkunýtingu og aðra stjórnsýslulega aðkomu slíkra verkefna. Auk þessa hefur Orkustofnun á hendi eftirlitsskyldur með framleiðslu rafmagns með vindafli, bæði hvað varðar almenn skilyrði laga og reglna og sértækar skyldur sem felast í sjálfum virkjunarleyfunum.

Umsóknir og leyfisveitingar
Ekki þarf að afla sérstaks rannsóknarleyfis Orkustofnunar. Ætli aðili sér að rannsaka gæði einstakrar staðsetningar verður það að vera í samráði við viðkomandi landeiganda. Eftir sem áður kunna framkvæmdir vegna rannsókna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, auk þess sem þær verða að vera í samræmi við skipulag svæðisins og afla þarf leyfa sveitarfélags vegna þeirra.
Orkustofnun veitir virkjunarleyfi til vindorkuvera samkvæmt ákvæðum raforkulaga. Undantekning er þó að ekki þarf slíkt leyfi vegna raforkuvera með uppsettu afli sem er undir 1 MW nema orka frá raforkuveri sé afhent inn á dreifikerfi dreifiveitna eða flutningskerfið. Vegna raforkuvera með uppsettu afli 100 kW eða minna þarf þó ekki virkjunarleyfi.
Samkvæmt reglugerð nr. 1040/2005 þurfa eftirtalin gögn að vera lögð fram með umsókn um virkjunarleyfi:
Nafn umsækjanda, kennitala hans, heimilisfang og upplýsingar um rekstrarform.
Niðurstöður rannsókna á viðkomandi virkjunarkosti.
Lýsing á virkjuninni, þ.m.t. kort og uppdrættir sem sýna legu og tilhögun mannvirkja, helstu tölulegar upplýsingar um virkjunina og afmörkun virkjunarsvæðis.
Framkvæmdaáætlun, þ.m.t. um hvenær ætlunin er að hefja framkvæmdir, hvenær þeim á að vera lokið og hvenær rekstur virkjunar á að hefjast.
Fjárhagsáætlun vegna framkvæmdanna.
Samningur um tengingu við flutningskerfið eða dreifikerfi á viðkomandi svæði.
Upplýsingar um hvort fyrir liggi samkomulag við landeigendur og eigendur orkulinda um endurgjald fyrir nýtingu viðkomandi auðlindar.
Upplýsingar um helstu umhverfisþætti virkjunar og áhrif hennar á viðkomandi orkulind, þ.m.t. nýtingu sem fyrir er á svæðinu, eftir því sem við á. Upplýsa skal um hvort um matsskylda framkvæmd er að ræða samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ef svo er skal skýrsla um mat á umhverfisáhrifum fylgja umsókninni svo og úrskurður umhverfisyfirvalda um mat á umhverfisáhrifum. Þá skal, eftir því sem við á, gera grein fyrir þeim mótvægisaðgerðum og öðrum ráðstöfunum sem ætlunin er að framkvæma vegna umhverfisáhrifa sem virkjunin hefur samkvæmt framlögðum gögnum.
Upplýsingar um þau leyfi sem umsækjandi telur sig þurfa að afla frá öðrum stjórnvöldum og hvort framkvæmdin samræmist gildandi skipulagi þar sem ætlunin er að reisa virkjunina.
Samkvæmt 34. gr. raforkulaga skal Orkustofnun kynna umsókn um leyfi samkvæmt lögum þessum með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Þar skal gefa þeim aðilum er málið varðar færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar. Umsækjandi skal kosta birtingu slíkrar auglýsingar.
Auk þessa eru eftirtalin skilyrði til veitingar virkjunarleyfis með vindorku:
Virkjunarleyfi verður aðeins veitt sjálfstæðum lög- og skattaðila.
Tengja skal leyfisskylda virkjun flutningskerfinu, sbr. þó 1. mgr. 11. gr. raforkulaga. Virkjanir sem eru 7 MW eða stærri skulu tengjast flutningskerfinu beint en minni virkjunum er heimilt að tengjast því um dreifiveitu. Samningur við flutningsfyrirtækið eða dreifiveitu á því dreifiveitusvæði sem virkjunin er á skal liggja fyrir þegar sótt er um virkjunarleyfi.
Ef framkvæmd fellur undir viðauka 1 með lögum um mat á umhverfisáhrifum skal fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi um mat á umhverfisáhrifum liggja fyrir áður en virkjunarleyfi er veitt. Ef framkvæmd fellur undir 2. viðauka sömu laga skal ákvörðun um matsskyldu liggja fyrir áður en leyfi er veitt og eftir atvikum fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi um mat á umhverfisáhrifum.
Við leyfisveitinguna skal taka tillit til mats á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar og fullnaðarúrskurðar stjórnvalda þar um. Skal eftir því sem við á mæla fyrir um mótvægisaðgerðir og önnur skilyrði til að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum framkvæmdar á umhverfi og til að stuðla að sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og því að varlega sé farið í nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda. Slíkar aðgerðir eða skilyrði skulu vera í eðlilegum tengslum við framkvæmdina og geta m.a. lotið að hönnun og búnaði viðkomandi mannvirkja, staðarmörkum, nýtingarmagni, vöktun, mælingum, rannsóknum, upplýsingaskilum, framkvæmdum sem miða að því að varðveita náttúrugæði og frágangi á starfsstöðvum og landi á starfstíma og að honum loknum.
Leyfi skal bundið þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til að tekið verði tillit til nýtingar sem fyrir er á viðkomandi svæði.
Framkvæmdir á grundvelli virkjunarleyfis skulu vera í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.
Áður en framkvæmdir hefjast á grundvelli leyfis skal leyfishafi sýna fram á að hann geti aflað nægilegs fjármagns til að reisa virkjunina og nauðsynleg mannvirki og búnað henni tengdan. Fyrir sama tíma skal leyfishafi einnig leggja fram hönnunargögn vegna mannvirkja og tækjabúnaðar sem tengjast virkjuninni. Hönnunargögnin skulu unnin eða yfirfarin af sérfræðingum sem hafa þekkingu og reynslu af hönnun virkjana.
Eftirlit
Samkvæmt lögum um Orkustofnun nr. 87/2003 er eitt af meginhlutverkum stofnunarinnar að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings. Til að sinna því hlutverki er Orkustofnun heimilt að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun.
Í raforkulögum nr. 65/2003 er nánar kveðið á um eftirlitshlutverk Orkustofnunar með virkjunarleyfum ásamt upplýsinga- og tilkynningaskyldu leyfishafa. Í leitar-, rannsóknar- og virkjunarleyfum er jafnan nánar kveðið á um fyrirkomulag og áætlað umfang eftirlits með tilteknu leyfi. Í þeim tilfellum er miðað við lágmarkstímafjölda vegna eftirlits og gagnaskila án athugasemda.
Eftirliti Orkustofnunar með virkjunarleyfum er skipt í fjóra flokka:
Innra eftirlit
Innra eftirlit er eigið eftirlit leyfishafa með sjálfum sér, framkvæmt af starfsmönnum hans eða aðkeyptum þjónustuaðila, sem til þess hefur tilskilin réttindi, í þeim tilgangi að tryggja að kröfur í leyfi, lögum og reglugerðum séu uppfylltar.
Reglubundið eftirlit
Miðað er við að reglubundið eftirlit með leyfum fari fram árlega. Í reglubundnu eftirliti er gengið úr skugga um að starfsemi leyfishafa/eftirlitsþega sé í samræmi við lög, reglur og leyfi bæði með því að fara í vettvangsheimsóknir og því að hafa almennt eftirlit með leyfishafa.
Umfang eftirlits felur annars vegar í sér eftirlit á vettvangi og hins vegar móttöku og yfirferð gagna, ábendinga og fyrirspurna vegna starfseminnar. Hlutfall þess tíma sem fer í vettvangsferð á móti öðru umfangi (skrifborðseftirliti) er talsvert breytilegt eftir tegund starfsemi og því getur verið breytilegt hversu mikill tímafjöldi er innheimtur vegna eftirlits með leyfisskyldri starfsemi sem fellur innan sama málaflokks.
Fyrirvaralaust eftirlit
Óvenjubundnar og fyrirvaralausar vettvangsferðir í kjölfar ábendinga eða vísbendinga um frávik frá leyfum. Almennt er fyrirvaralausu eftirliti aðeins beitt til rannsóknar á alvarlegum og/eða ítrekuðum brotum á skilyrðum leitar-, rannsóknar- og nýtingarleyfa. Fyrirvaralaust eftirlit skal framkvæmt svo fljót sem auðið er og, eftir því sem við á, fyrir veitingu, endurskoðun eða uppfærslu leyfis.
Viðbótareftirlit
Ef eftirlit sýnir fram á veruleg brot á leyfisskilyrðum skal fara fram viðbótareftirlit innan 6 mánaða frá því að brot átti sér stað eða vitneskja um brot barst eftirlitsaðila.
Eftirfylgni vegna frávika er innheimt samkvæmt tímagjaldi og komi til umfangsmikils eftirlits, s.s. vegna ábendinga, gagnaskila eða annarra ófyrirséðra þátta, mun Orkustofnun innheimta viðbótargjald skv. gjaldskrá og rauntímaskráningum í verkbókhaldi stofnunarinnar.