Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Hlutverk og stefnur

Orkustofnun fer með stjórnsýslu í orkumálum og aflar þekkingar á nýtingu orkulinda og annarra jarðrænna auðlinda. Stofnunin safnar gögnum og heldur gagnagrunn um nýtingu orkulinda, stendur fyrir rannsóknum á nýtingu þeirra og vinnur að áætlanagerð til langs tíma um orkubúskap þjóðarinnar.

Orkustofnun er ríkisstjórn til ráðuneytis um orkumál og aðra auðlindanýtingu. Stofnunin fer með leyfisveitingar vegna rannsókna og nýtingar á auðlindum og orkuvinnslu og annast stjórnsýslu sem henni er falið með lögum, svo sem auðlindalögum, vatnalögum, raforkulögum, lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins og lögum um kolvetni.

Orkustofnun annast eftirlit með framkvæmd raforkulaga, sérstaklega sérleyfishluta þeirra, flutningi og dreifingu raforku, sem og sérlögum á sviði auðlindamála.

Stofnunin fer með umsýslu Orkusjóðs, jarðhitaleitarátaks og niðurgreiðslna vegna húshitunar, og sér um vettvang um vistvænt eldsneyti sem og Orkusetur.

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun. Auk þess er kveðið á um hlutverk stofnunarinnar í öðrum lögum.

Jafnréttisstefna

Jafnréttisáætlun Orkustofnunar byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. 

Markmið 

Að allt starfsfólk hafi sömu tækifæri og sambærileg réttindi, óháð kynferði, þjóðerni, stöðu og högum. Þannig verði allir metnir á grundvelli einstaklingsbundinna eiginleika. Þetta skal gilda um rétt til starfa, aðstöðu, endurmenntun og kjör fyrir sambærileg störf. Svo og að enginn verði fyrir misrétti af neinu tagi. 

Orkustofnun stefnir að þessu markmiði með eftirfarandi aðgerðum: 

 • Með því að gæta jafnréttis við ákvarðanatökur sem snúa að starfsfólki. 

 • Að öllum kynjum sé gert kleift að samræma atvinnu og fjölskyldulíf. Þetta skal gert með sveigjanlegum vinnutíma og með því að kynna starfsmönnum reglur um fæðingarorlof og tryggja að þeir geti samræmt vinnuna og þarfir sínar. 

 • Með skipulagningu atburða sem starfsmenn geti sótt, og tryggt er að höfði til allra kynja og allra aldurshópa, er unnið að því að auka samstöðu á meðal starfsmanna. 

 • Með því að gæta þess að starfsfólk lendi ekki utan hópsins og að tryggja að enginn verði fyrir einelti af hópnum. 

 • Að brýna fyrir starfsfólki að hvorki einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni né kynferðisleg áreitni verði liðin og að starfsfólk verði upplýst um það hvernig það eigi að bregðast við verði það fyrir slíku. Sjá einnig viðbragðsáætlun í samskiptastefnu Orkustofnunar. 

 • Með því að auglýsingar séu hlutlausar varðandi kyn nema þegar ætlunin er að jafna kynjaskiptingu og er það þá tekið fram í auglýsingu.  

  Ráðningar 

  Orkustofnun mun, við auglýsingar á lausum störfum á stofnuninni, hér eftir sem hingað til, vekja athygli á því markmiði stofnunarinnar að jafna hlut kynjanna. 

  Markmið: að jafna hlut kynjanna í störfum á stofnuninni. 

  Ábyrgð/starfsmenn: orkumálastjóri/ starfsmannastjóri, jafnréttisfulltrúi. 

  Aðgerð, tími: Í öllum auglýsingum skulu störf ókyngreind. Í mars árlega aflar jafnréttisfulltrúi upplýsinga um kynjahlutfall í störfum á stofnuninni. Jafnréttisfulltrúa skal einnig veittur aðgangur að yfirliti yfir auglýst störf, kyn umsækjenda og niðurstöður ráðninga. 

  Kynning, eftirfylgni: Árlega kynnir jafnréttisfulltrúi kynjahlutfall starfsmanna stofnunarinnar og tekur við ábendingum frá starfsfólki um mögulegar aðgerðir til úrbóta og vinnur aðgerðaáætlun ef þörf er á.  Jafnréttisfulltrúi kynnir orkumálastjóra mögulegar úrbætur. 

  Kjaramál 

  Orkustofnun mun sjá til þess að laun og önnur starfskjör eða hlunnindi séu jöfn fyrir sömu eða sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir öll kyn og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismunun. 

  Markmið: að öll kyn njóti sömu kjara fyrir sambærileg og jafn verðmæt störf. 

  Ábyrgð/starfsmenn: orkumálastjóri/ starfsmannastjóri, jafnréttisfulltrúi. 

  Aðgerð, tími: Að gera launagreiningu árlega í nóvember til að athuga hvort kynbundinn launamunur sé til staðar. Kynna skal niðurstöður fyrir lok desember árlega fyrir starfsfólki.  Innleiða jafnlaunastjórnunarkerfi og hljóta jafnlaunavottun hjá faggildum úttektaraðila.  

  Kynning, eftirfylgni: árrlega kynnir jafnréttisfulltrúi niðurstöður um launajafnrétti og tekur við ábendingum frá starfsfólki um mögulegar aðgerðir til úrbóta og vinnur úrbótatillögur. 

  Jafnréttisfulltrúi kynnir mögulegar úrbætur fyrir orkumálastjóra. 

  Endurmenntun 

  Það er markmið Orkustofnunar að hafa ávallt í sínu starfsliði hæfasta starfsfólkið á hverju sviði. Til að svo megi verða hvetur stofnunin starfsfólk til að afla sér endur- og símenntunar. Orkustofnun hvetur öll kyn til að auka á þekkingu sína með þessum hætti. Þá leitast Orkustofnun við að láta starfsmenn vita af slíkum möguleikum, og jafnvel bjóða upp á ýmiss konar almenna fræðslu sem öllum gagnast, t.d. um vellíðan á vinnustað, almenna fræðslu um starfsmannaréttindi o.fl. 

  Fjölskyldustefna 

  Orkustofnun hefur lagt mikla áherslu á að tryggja möguleika starfsfólks til að samræma starfskyldur þannig að þær samrýmist sem best þörfum fjölskyldunnar. Starfsmenn hafa sveigjanlegan vinnutíma, möguleiki er á því að vinna hlutastörf og stofnunin er opin fyrir fleiri möguleikum eftir því sem eðli starfs og aðstæður leyfa. Konum og körlum skal gert kleift að minnka við sig tímabundið til að sinna fjölskylduábyrgð, t.d. vegna veikinda barna eða annarra fjölskyldumeðlima. 

  Gengið er út frá því að foreldrar ungbarna taki það fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á og eru feður sérstaklega hvattir til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Öll kyn eru hvött til að vera heima hjá veikum börnum til jafns við konur í samræmi við þá stefnu að allir starfsmenn njóti sömu réttinda óháð kyni. 

  Svo starfsmenn geti notið réttar sem að framan greinir skal m.a. auðvelda starfsfólki að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof og eftir leyfi frá vinnu vegna óviðráðanlegra og nauðsynlegra fjölskylduaðstæðna. 

  Þá skulu starfsmenn minntir á að hvort foreldri um sig á rétt á launalausu foreldraorlofi þar til barnið nær 8 ára aldri skv. samkomulagi við vinnuveitanda. 

  Markmið: að öll kyn geti samræmt starfsskyldur og fjölskyldulíf. 

  Ábyrgð/starfsmenn: orkumálastjóri/ starfsmannastjóri, jafnréttisfulltrúi. 

  Aðgerð, tími: starfsmannastjóri kynnir rétt starfsfólks til sveigjanlegs vinnutíma, fæðingar- og foreldraorlofs. 

  Kynning, eftirfylgni: starfsmannastjóri fylgist með hvort fjölskyldufólk er að nýta rétt sinn með eðlilegum hætti. 

  Vellíðan í starfi 

  Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og kynbundið ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni, einelti eða annað ofbeldi verður ekki liðið. Starfmaður sem verður fyrir einhvers konar misferli getur leitað til starfsmannastjóra sem leiðbeinir honum í slíkum málum og veitir nauðsynlega aðstoð. Einnig skal starfsmannastjóri fylgjast með og hlutast til um ef vísbendingar eru um misferli. Þá eru aðrir starfsmenn hvattir til að láta vita af því ef þeir verða vitni að eða heyra af misferli gagnvart öðrum starfsmanni. Starfsmannastjóri skal taka við þeim upplýsingum sem honum berast með opnum hug. 

  Markmið: fylgst er með því hvort kynbundið ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni, einelti, annað ofbeldi eða mismunun af nokkru tagi eigi sér stað meðal starfsfólks. 

  Ábyrgð/starfsmenn: orkumálastjóri/ starfsmannastjóri, jafnréttisfulltrúi. 

  Aðgerð, tími: brugðist við ábendingum hið fyrsta eftir því sem efni standa til. Sinna forvörnum árlega í mars með því að kynna fyrir starfsfólki hvernig á að bregðast við ef grunur leikur á kynbundnu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni, einelti, öðru ofbeldi eða mismunun af nokkru tagi. Kynningin skal stuðla að góðum starfsanda. 

  Kynning, eftirfylgni: starfsmenn hafa samráð við orkumálastjóra um mögulegar almennar aðgerðir til úrbóta. 

  Kynning 

  Jafnréttisáætlun skal kynnt starfsfólki stofnunarinnar. Nýjum starfsmönnum skal gerð grein fyrir efni áætlunarinnar. Jafnréttisáætlun skal vera á vef Orkustofnunar. 

  Endurskoðun 

  Fara skal yfir stöðu jafnréttismála hjá Orkustofnun og jafnréttisáætlun endurskoðuð þriðja hvert ár. 

  Markmið: regluleg endurskoðun jafnréttisáætlunar. 

  Ábyrgð/starfsmenn: orkumálastjóri, starfsmannastjóri og jafnréttisfulltrúi. 

  Aðgerð, tími: lokið fyrir lok október 2023. 

  Kynning, eftirfylgni: rekstrar- og starfsmannastjóri fylgist með hvenær þörf er á endurskoðun. 

  Ábyrgð 

  Ábyrgð á jafnréttismálum stofnunarinnar og framgangi þeirra er í höndum orkumálastjóra í samráði við starfsmannastjóra og jafnréttisfulltrúa stofnunarinnar. 

  Samgöngustefna

  Markmið

  Orkustofnun er leiðandi afl í þjóðfélaginu varðandi orkuskipti í samgöngum. Í því hlutverki ber stofnuninni að sýna gott fordæmi og hún setur því eftirfarandi samgöngustefnu með það að leiðarljósi að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum.

  Leiðir

  Starfsmenn sem skuldbinda sig til að ferðast á vistvænan hátt til og frá vinnu eiga rétt á samgöngustyrk frá stofnuninni. Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta annan en að ferðast til og frá vinnu á einkabíl, svo sem að ganga, hjóla eða ferðast með strætisvögnum.

  Starfsfólk Orkustofnunar skal, þegar kostur er, nýta almenningssamgöngur á vinnutíma á kostnað stofnunarinnar og leitast við að hjóla eða ganga styttri vegalengdir nema sérstakar aðstæður kalli á annað.

  Leitast verður við að draga úr ónauðsynlegum ferðum með hjálp upplýsingatækni og aukinni samnýtingu ferða.

  Orkustofnun tryggir góða aðstöðu fyrir reiðhjól fyrir starfsfólk og gesti stofnunarinnar.

  Fyrir það starfsfólk sem að jafnaði notar vistvænan samgöngumáta greiðir stofnunin leigubílakostnað þegar nauðsyn ber til á vinnutíma, t.d. vegna veikinda og/eða slysa.

  Til að auðvelda starfsmönnum að nýta sér vistvæna ferðamáta til og frá vinnu mun Orkustofnun sjá um farkosti vegna ferða starfsmanna á vinnutíma, s.s. með rafhjólum, deilibílum, bílaleigubílum eða leigubílum.

  Þegar leigðar eru bifreiðar, deili-, bílaleigu- eða leigubílar, skal einungis leitað þjónustu fyrirtækja sem bjóða upp á bifreiðar knúnar endurnýjanlegum orkugjöfum.

  Starfsmenn skulu ávallt á vinnutíma og í ferðum á vegum stofnunarinnar gæta fyllsta öryggis við val á samgöngutækjum og fylgja lögum og almennum reglum við notkun þeirra.

  Umhverfis og loftslagsstefna

  Markmið 

  Árið 2030 er Orkustofnun til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum og hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi stofnunarinnar um 40% miðað við árið 2019. Stofnunin hvetur til aðgerða í loftslagsmálum með því að stuðla að ábyrgri og upplýstri stjórnsýslu um orkumál og þau áhrif sem losunin hefur í för með sér. Orkustofnun leggur áfram sitt af mörkum til að markmiðum um loftslagsmál í lögum og stefnu stjórnvalda sé náð og tekur virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar. 

  Fram til 2030 mun Orkustofnun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 40% miðað við árið 2019. Orkustofnun mun jafnframt kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum frá og með árinu 2022. Stofnunin mun einnig draga úr úrgangsmyndun um 3% árlega. 

  Leiðir 

  Umhverfis- og loftslagsstefnan tekur til umhverfisáhrifa af rekstri stofnunarinnar auk áherslna í starfi hennar að orkumálum í samræmi við áherslur laga, reglugerða og stefnu stjórnvalda. 

  Orkustofnun mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri vegna eftirfarandi þátta starfsemi sinnar: 

 • Losunar gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða starfsfólks innanlands.  

 • Losunar gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða starfsfólks erlendis.  

 • Losunar gróðurhúsalofttegunda vegna aksturs á bílaleigu- og leigubílum.  

 • Fjölda starfsfólks með samgöngusamninga.  

 • Rafmagns- og heitavatnsnotkunar.  

 • Úrgangs sem fellur til ásamt innkaupum og plast- og pappírsnotkun. 

 • Jafnframt mun Orkustofnun leggja sitt af mörkum til umhverfis- og loftslagsmála í víðara samhengi með eftirfarandi aðgerðum: 

 • Orkusjóði, þar sem verkefni til orkuskipta og loftslagsmála eru styrkt. 

 • Samstarfi við systurstofnanir, vísindasamfélagið og aðra aðila um vitundarvakningu og aðgerðir í loftslagsmálum.  

 • Fræðslu um umhverfis-, orku- og loftslagsmál innanlands og erlendis. 

 • Rekstur 

  Við einsetjum okkur að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum og úrgangi. Bein losun sem fellur til vegna rekstrar stofnunarinnar er kolefnisjöfnuð. 

  Við höldum myndun úrgangs í lágmarki. Við vinnum jafnt og þétt að því að draga úr pappírsnotkun og að plastnotkun sé í lágmarki. Sá úrgangur sem til fellur er flokkaður í viðeigandi úrgangsflokka. 

  Við viljum fjölga í hópi starfsfólks sem notar vistvæna ferðamáta til og frá vinnu og nýtir sér samgöngusamning. Starfsfólki býðst rafbíll vegna ferða á vinnutíma. Orkustofnun hvetur til skjáfunda til að draga úr flug- og ökuferðum. 

  Við miðlum upplýsingum og fróðleik um grænan lífsstíl og umhverfisvernd innan stofnunarinnar með því að taka þátt í viðburðum eins og nýtnivikunni, hjólað í vinnuna og sambærilegum viðburðum. 

  Við innkaup tökum við mið af stefnu ríkisins um vistvæn innkaup. Umhverfismerktar vörur og þjónusta eru valdar umfram aðrar. 

  Stjórnsýsla 

  Í ráðgjöf og í leyfisveitingum á vegum stofnunarinnar leggjum við áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda, að gætt sé að náttúruvernd við auðlindanýtingu og að umhverfisáhrif séu lágmörkuð. 

  Við vinnum að þróun rafrænnar stjórnsýslu við leyfisveitingar, eftirlit og miðlun á vegum stofnunarinnar. 

  Stefnumótun 

  Orkustofnun starfar í þágu samfélagsins og í takt við orkustefnu Íslands sem grundvallast á markmiðum um sjálfbæra þróun og í átt að kolefnishlutleysi. Hlutverk hennar er að skapa skýra umgjörð um orkumál, stuðla að nýsköpun og upplýstri umræðu og veita stjórnvöldum faglega ráðgjöf í þágu almannaheilla. 

  Miðlun 

  Við miðlun upplýsinga og fagþekkingar leggjum við áherslu á aðferðir og faglega nálgun sem miðar að skilvirku samráði leyfishafa og eftirlitsþega stofnunarinnar. 

  Við kappkostum að hafa viðburði og útgáfu efnis á okkar vegum með vistvænum hætti og hvetjum þátttakendur til þess að nýta sér vistvæna ferðamáta á viðburði á vegum stofnunarinnar. Við leggjum áherslu á rafræna miðlun fyrir viðskiptavini og almenning. Við höldum grænt bókhald og birtum lykiltölur sem snúa að grænum rekstri. 

  Framfylgd 

  Orkustofnun gerir aðgerðaráætlun til þriggja ára um framfylgd umhverfis- og loftslagsstefnunnar. 

  Orkumálastjóri ber ábyrgð á stefnunni og felur umhverfisteymi stofnunarinnar framkvæmd hennar. Stefnan er rýnd árlega og yfirmarkmið og undirmarkmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun GHL á milli ára. Stefnan er samþykkt af yfirstjórn og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað til starfsfólks og á heimasíðu Orkustofnunar. 

  Orkustofnun skilar árlega grænu bókhaldi til Umhverfisstofnunar og birtir árangur og aðgerðaráætlun á heimasíðu sinni. 

  Upplýsingastefna

  Markmið

  Upplýsingastefnu Orkustofnunar er ætlað að stuðla að því að verkefnum verði komið í framkvæmd með sem skilvirkustum hætti þar sem ábyrgð, nákvæmni, gagnsæi og góð samskipti eru höfð að leiðarljósi.  

  Leiðir

  Afhending gagna er samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Beiðnum um afhendingu gagna er svarað og tekin er afstaða til afhendingar þeirra.   

  Við starfsemi Orkustofnunar sé til faglegur og traustur upplýsingagrunnur um orkumál, nýtingu orkuauðlinda, vatn og jarðefni.  

  Leitast skal við að auka skilning á orkumálum og skapa traust milli almennings, sérfræðinga, fjölmiðla og stjórnvalda.  

  Upplýsingar séu settar fram á skýran og auðskiljanlegan hátt og gerðar aðgengilegar fyrir almenning.  

  Lögð er áhersla á að svara spurningum fjölmiðla eins fljótt og kostur er. Beina skal slíkum fyrirspurnum til stjórnenda, sem koma þeim í réttan farveg.  

  Gagnaöflun og upplýsingamiðlun sé framkvæmd með hagkvæmum hætti og nýtir sjálfvirkar lausnir eins og kostur er. Varðveisla gagna, heimilda og annarra upplýsinga um orkumál sé skipuleg og örugg. Starfsfólk þekki skyldu til skráningar og varðveislu gagna.  

  Ákvarðanir, leyfisveitingar, leiðbeiningar, beiting úrræða, breyting á verklagi eða túlkun laga og reglna, kærur og upplýsingar um ný gögn innan fagsviða Orkustofnunar skulu birtar á vefnum. Ný lög og reglugerðir á sviði orkumála skulu kynntar sérstaklega.   

  Yfirlit yfir nýtt efni á vefsíðu Orkustofnunar skal vera aðgengilegt með fréttum eða öðrum hætti.   

  Orkumálastjóri eða starfsfólk í umboði hans koma fram fyrir hönd stofnunarinnar út á við.