Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Ávarp orkumálastjóra

Halla Hrund Logadóttir - Ávarp orkumálastjóra á ársfundi Orkustofnunar

Spila myndband

Í dag eru liðin 8 ár síðan að Parísarsamningurinn var samþykktur og síðar á þessu ári lýkur sérstöku stöðumati á markmiðum og loftslagsaðgerðunum sem farið hefur verið í. Við vitum nú þegar við erum eftir á þegar kemur að því að halda okkur innan við 1,5° hlýnun. Komið hefur fram að eingöngu 7 ríki af þeim tæplega 200 þjóðum sem eru aðilar að samkomulaginu eru á réttu róli. Slæmu fréttirnar eru að ríkin sem menga mest, losa mest af gróðurhúsalofttegundum, voru ekki á þeim lista á meðan við þurfum á þeim að halda fyrir árangur. Til að setja losun stærri ríkja í samhengi þá eru Kína, Bandaríkin og Indland saman ábyrg fyrir rúmlega 40% af losun gróðurhúsalofttegunda heimsins, á meðan 100 ríkin sem losa minnst bera ábyrgð á tæplega 3%.

En skoðum nánar þróun mála hjá stóru ríkjunum

Byrjum í Kína sem trónir á toppnum. Undanfarna tvo áratugi hefur losun þar í landi stóraukist samhliða efnahagslegum vexti, en Kína, sem hýsir um fimmtung mannkyns, losar meira en Bandaríkin, Evrópusambandið og Japan til samans. Hins vegar hefur endurnýjanleg orka byggst hratt upp í landinu. Sem dæmi má nefna að vind- og sólarorka í flutningskerfinu hefur 90-faldast á undanförnum áratug og jarðhitinn hefur einnig komist á flug í samstarfi við íslenskt hugvit svo dæmi séu tekin. Samhliða hefur Kína lagt áherslu á þróun margs konar tækni og það verður áhugavert að sjá hvort Kínverjum takist að byggja upp ákveðið samkeppnisforskot í þessari nýju iðnbyltingu okkar tíma.

Höldum næst til Indlands, en Indland er númer í þrjú í losun í heiminum. Indverjar framleiða 75% af sinni raforku í kolaverum. Indverjum miðar töluvert hægar en nágrönnum sínum í Kína. Heilt yfir glíma bæði ríkin við þá staðreynd að vöxtur fólksfjölda og hagkerfisins almennt eykur einfaldlega losun umfram fjárfestinguna í grænum lausnum.

Á heimsvísu skortir einmitt hraðari fjárfestingu í grænum innviðum og umræðan um réttlát umskipti er sérstaklega hávær hjá ríkjum sem bera litla ábyrgð á sögulegri losun en þurfa að fjárfesta mikið til að uppfylla markmið sín. Í takt við það mun áhersla næstu loftslagsráðstefnu í Abu Dhabi meðal annars snúast um að ná samkomulagi milli ríkari og fátækari þjóða um fjármögnun endurnýjanlegra orkuinnviðaverkefna. Þetta er sérstaklega mikilvæg áhersla. Því það að fjárfesta í grænum innviðum í vanþróaðri ríkjum í dag kemur í veg fyrir að efnahagsþróun leiði til mikillar aukningar í mengun eins og sést glögglega í tilfellum Indlands og Kína.

En færum okkur nú frá Asíu og víkjum að stöðu mála lykilaðila hér vestra. Bandaríkin eru númer tvö á lista yfir þá sem losa mest í heiminum. Þau tóku vissulega mikilvægt skref í fyrra með hinu svokallaða „The Inflation Reduduction Act“ frumvarpi sem tryggði nálægt 400 milljörðum dala fyrir grænar lausnir og tækniþróun En betur má ef duga skal.

Þróunin í Evrópu hefur hins vegar verið mun afdráttarlausari eftir að stríðið hófst. Álfan hefur dregið mjög úr kaupum á rússnesku gasi eða úr um 40% niður í 7,5% á milli 2021-2022.

Þess má reyndar geta að Rússar eru númer fjögur þegar kemur að losun en áhersla þeirra á olíu og gas hefur sjaldan verið meiri en nú þó að salan fari nú að mestu til hagkerfa Asíu.

Til að takast á við þennan veruleika orkumála í Evrópu hefur Evrópusambandið, sem í dag ber ábyrgð á 18% af losun, eflt áherslu á græna orku til muna og stefnir á að verða fyrsta kolefnislausa heimsálfan árið 2050. Samhliða hefur fjárfesting í nýjum kjarnorkuverum í Evrópu aukist þrátt fyrir lokanir í Þýskalandi enda hefur grunnorka sjaldan verið mikilvægari fyrir orkuöryggi og orkuskiptin.

En hvað annað en græn orkuframleiðsla er svar heimsins í orkumálunum?

Þó að endurnýjanleg orkuvinnsla sé lykilmál þá hefur Alþjóðlega orkumálastofnunin einnig bent á að hægt sé að nota orkunýtni til að ná 40% af markmiðum Parísarsáttmálans er tengist losun frá orku. Einnig er mikilvægt að horfa á nýsköpun heilt yfir í hringrásarhagkerfinu til að komast í mark.

Ekki er hægt að fara af nýsköpunarsviðinu án þess að nefna nýleg gervigreindartól á borð við ChatGPT frá Open AI. Sú tækni hefur burði til að greina mikið magn af gögnum um veðurfar, orkunotkun og ástand flutningskerfisins sem getur bætt áreiðanleika endurnýjanlegra orkukerfa sem er mikilvægt fyrir framtíðina.

En hver verða áhrif þessarar stöðu og breytinga alþjóðlega á Ísland?

Við sjáum skýrt í dag hversu mikilvæg nýsköpunin er fyrir framlag okkar til loftslagsmálanna á heimsvísu. Það birtist í útflutningi á tækni jarðhitans sem er í mikilli sókn eins og í Kína, í samstarfi Carbfix á heimsvísu og nýjum vaxtarsprotum s.s. E1 hleðslulausninni, Sidewind, Alor og Snerpu power sem geta haft áhrif um víða veröld.

Einnig hefur verið eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku fyrir margs konar verkefni. Samtímis er ljóst að Ísland verður aldrei batterí fyrir raforkuþörf alls heimsins. Stærsta tækifærið okkar er, eins og stjórnvöld hafa sett á oddinn, einfaldlega klára orkuskiptin og vera fyrirmyndin. Ef Ísland getur það ekki, með 85% af frumorku okkar þegar frá endurnýjanlegum auðlindum – hver getur það þá?

En hvernig hefur hafa orkutengd loftslagsmál verið að þróast hér á landi?

Við erum að byrja á góðum stað á Íslandi og eigum erfiðari orkuskipti - í flugi og fiskiskipum eftir, þar sem tæknin er skemmra á veg komin. Losun hefur einmitt og fremst verið að aukast nýverið vegna umsvifa ferðaþjónustu eftir COVID. Þegar kemur að samgöngum á landi er árangur meiri og mikilvægt að taka fram að almenningur hefur staðið sig best það sem af er ári, 60% allra nýskráninga hjá almenningi hafa verið rafbílar. Eftir standa bílaleigubílar en af nýskráningum þeirra eru um 16% rafbílar í ár. Flutningabílar hafa tekið stökk inn í framtíðina með frumkvöðlum líkt og í Brimborg, og innviðauppbygging bæði í hleðslustöðvum og grænvæðingu hafna, s.s. hjá Faxaflóahöfnum og Hafnarfjarðarhöfn er í fullum gangi.

Það er óhætt að segja að það sé mikil gróska í geiranum og mikilvæg verkefni sem Orkustofnun kemur að. Eitt af þeim kjarnaverkefnum eru leyfisveitingar fyrir nýtingu auðlinda okkar - orku, vatns og jarðefna. Leyfisumsóknum fer fjölgandi í alla þessa málaflokka en að baki er eitt umfangsmesta leyfisár í sögu Orkustofnunar í kjölfar markviss umbótaferlis okkar sem við förum yfir í dag. Ferlin eru orðin viðameiri í lagaumgjörð og mikil vitundarvakning er um mikilvægi umhverfismála hjá almenningi.

Hvað varðar afgreiðslutíma leyfa þá fær stofnunin reglulega að heyra að flýta eigi þjóðhagslega mikilvægum verkefnum eins og í orkumálum sérstaklega. Sambærilegar kröfur koma hins vegar líka frá leyfisumsækjendum í vatnsnýtingu svo sem fyrir fiskeldi sem er í mikilli sókn víða um land, og frá fyrirtækjum í jarðefnanýtingu.

Sjónarmiðið er þó skiljanlegt og umhugsunarvert fyrir stjórnmálin. En í dag er einfaldlega ekkert í löggjöfinni sem gefur okkur færi á að flýta afgreiðslu leyfisumsókna vegna vatns fram yfir jarðefni eða orku á kostnað hinna eða gefa afslátt á skilyrðum leyfisveitinga í ljósi mikilvægi verkefna eða burðar þeirra til vaxtar. Það skiptir ekki máli hver þú ert eða hversu stór þú ert, þú getur treyst á jafnræði og fagleg vinnubrögð stjórnsýslunnar. Hins vegar er eðlilegt að ræða um fjárfestingu í mannafla í takt við markmið stjórnvalda. Hér hefur Orkustofnun átt í góðu samtali við ráðuneytið um nauðsyn og sameining stofnana mögulega leika hlutverk.

En hvað þá með orkuskiptin og loftslagsmarkmiðin. Vissulega eru þau hjartað í bæði orkustefnu landsins og meginstef í stjórnarsáttmála sem stofnanir eins og Orkustofnun aðstoða við að framkvæma. Einnig erum við með lagalegar loftslagsskuldbindingar sem þurfum að greiða háar fjárhæðir ef við náum markmiðum ekki eins og komið var inn á í ræðu ráðherra. Ljóst er hins vegar að núverandi löggjöf gefur hvorki færi á að tryggja að orkuverkefnum sé flýtt né að orkan nýtist í markmið stjórnvalda um orkuskipti og loftslagsmál sem er áhætta sem þarf að horfast í augu við þegar samkeppni um orku er mikil.

Til að taka raundæmi um þessa áhættu hér má líta til Noregs þar sem 70% af raforkunni þeirra sem framleidd er af vindorkugörðum á landi hafi ekki farið í orkuskipti heldur til stækkunar iðnaðar, mest til álvera. Þetta er í sjálfu sér fyrirséð þróun þar sem langtímasamningar við sterka kaupendur, eins og núverandi iðnað, auðvelda fjármögnun orkuverkefna. Erfiðara getur verið fyrir rafeldsneyti, þar sem markaður er í mótun eða nýsköpunarverkefni sem geta verið áhættumeiri í byrjun, að ná samningum.

En hvað þýðir þetta í raun fyrir loftslagsmarkmiðin? Hér vil ég byrja á að undirstrika að sala á grænni orku í ólík verkefni getur skapað mikil verðmæti, hagvöxt og störf um allt land.

En ef stærstur hluti sölu á orku frá nýjum virkjunum sem við hrindum af stað á næstu árum verður bundin í langtímasamninga í annað en orkuskiptaverkefni þá nást markmiðin ekki og Ísland þarf að greiða sektir, þrátt fyrir að hafa aukið raforkuframleiðsluna með það að markmiði að ná í mark fyrst þjóða.

En það að virkja fyrir orkuskiptin sérstaklega, vitandi að engin trygging er fyrir því að orkan rati að hluta í slík verkefni, er eins og ef slagorðið „kjósum hitaveituna“ sem notað var á árum áður hefði ekki skilað okkur heitum húsum heldur hefði hitaveitan verið byggð og heita vatnið nýtt í eitthvað allt annað eins og mjólkurþurrkun. Slík niðurstaða hefði ekki endilega verið alslæm en komið niður á árangrinum sem við stærum okkur af í dag.

Með orkumarkaði Evrópusambandsins er vissulega flóknara að hafa áhrif á þessi mál og ábyrgðin þar hvílir hjá orkufyrirtækjunum sem gera orkusamningana. Orkustofnun hefur hins vegar hvatt til umræðu um hvernig styðja megi við umhverfið þannig að það tryggi hluta orku til orkuskipta og nýsköpunar og heilbrigðs atvinnulífs í senn. Leiðir sem rúmast innan regluverks ESB eru til m.a. í gegnum eigendastefnur opinberra fyrirtækja, löggjöf og hvata eins og stofnunin hefur bent á í samræmi við lögbundið ráðgefandi hlutverk sitt. Í hitaveituvæðingunni var einmitt tryggt með lögum að heita vatnið færi í að hita húsin okkar og lítum til baka til þeirra ákvarðana með stolti.

Lykilmálið er að takast á við þessa áhættu svo hægt sé að koma hratt í mark og hugsið ykkur – það eru 8 milljarðar manna á þessari plánetu og við gætum verið fyrsta þjóðin sem rekur heilt samfélag á grænni orku! Það er tækifæri. Þannig getum við skapað verðmæta sérstöðu fyrir Ísland og náð í mark af skynsemi, án þess að ganga of langt á verðmæti náttúrunnar sem sannarlega vex hratt í virði á okkar tímum.

Ég vil þakka samstarfsfólki mínu fyrir frábært samstarf. Einnig vil ég þakka traust ráðherra og ráðuneytisins fyrir samvinnu sem og stjórnsýslunni í heild sem og fjölbreytta flóru fyrirtækja, samtaka og almennings. Við hjá Orkustofnun erum til, til þess að sinna ykkur öllum, ekki sem hagsmunaaðili eins eða neins, heldur sem þjónustuaðili í framkvæmd laganna með áherslu á að nýta auðlindir okkar af alúð og sjálfbærni Íslands til heilla.