Um okkur

Orkustofnun starfar undir yfirstjórn Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins samkvæmt lögum og reglugerð um Orkustofnun.

Um okkur

Menu

Raforkueftirlitið

Náttúruauðlindir

Orkuskipti

Upplýsingar

Stjórnsýsla

Rannsóknar- og nýtingarleyfi á, í eða undir hafsbotni.

image_heading_paragraph

Yfirlit um upplýsingar sem fram þurfa að koma í umsókn um rannsóknar- og nýtingarleyfi

1. Tegund leyfis þ.e. rannsóknar eða nýtingarleyfi
2. Gerð auðlindar sem leita skal að eða sem á að vinna
3. Tilgangur framkvæmdar og rannsóknarmarkmið
4. Staðarmörk leitarsvæðis og/eða hnitamörk vinnslusvæðis
5. Hvenær starfsemi skal hefjast og hvenær henni skuli lokið
6. Fyrirhuguð not
7. Áætlað efnismagn
8. Öryggis- og umhverfisráðstafanir, eins og við á
9. Aðrar upplýsingar eftir atvikum

Nánar um rannsóknar og nýtingarleyfi á, í, eða undir hafsbotni.

Samkvæmt þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990 , sbr. ákvæði 2. gr. laga nr. 68/2008 , mun Orkustofnun veita rannsókna- og/eða nýtingaleyfi samkvæmt 2. gr. og 3. gr. laga nr. 73/1990 frá með 1. ágúst 2008.

Utan 115 m út frá stórstraumsfjöruborði landareignar gilda lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990 , með síðari breytingum. Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Enginn má leita að efnum til hagnýtingar á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga, eða nýta þaðan efni, nema að fengnu skriflegu leyfi Orkustofnunar.

Umsókn um rannsóknar- og nýtingarleyfi

Ferlið er þannig að viðkomandi aðili sækir um leyfi til Orkustofnunar. Orkustofnun sendir þá umsóknina til umsagnar umsagnaraðila. Ef leyfið er veitt fer Orkustofnun með eftirlit með leyfinu og skipar hún ábyrgðarmann með því og fer jafnfram fram á að leyfishafi geri slíkt hið sama.

Rannsóknarleyfi

Sækja þarf um rannsóknarleyfi til Orkustofnunar áður en hægt er að taka efni úr sjó. Á grundvelli niðurstaðna rannsókna er síðan gefið út nýtingarleyfi. Í rannsóknarleyfinu er rannsóknarsvæðið afmarkað með hnitum eða á annan skýran hátt og rannsóknarmarkmið umsækjanda skýrð. Rannsóknarleyfi er gefið út tímabundið, yfirleitt til eins árs og mest til tveggja ára í senn. Rannsóknarleyfi veitir ekki einkaleyfi á rannsóknum á tilteknu svæði.

Áður en rannsóknarleyfi er veitt, leitar Orkustofnun umsagnar til:

• Umhverfisstofnunar

• Hafrannsóknarstofnunarinnar

• Siglingastofnunar

• hlutaðeigandi sveitarfélags

• Aðrir aðilar eftir atvikum sem hagsmuna hafa að gæta á umræddu svæði

Nýtingarleyfi

Á grundvelli niðurstaðna rannsókna er gefið út nýtingarleyfi. Nýtingarleyfið er ekki sérleyfi og er bundið afmörkuðu, hnitsettu svæði á hafsbotni og miðar tímalengd leyfisins við tiltekna hagnýtingu með afmarkað upphaf og endi. Nýtingarleyfið er almennt gefið út til hæfilegs tíma miðað við aðstæður, en það má ekki vera til lengri tíma en 30 ára samkvæmt lögum.

Ef um matsskylda framkvæmd, skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum, er að ræða, þarf úrskurður Skipulagsstofnunar að liggja fyrir, áður en nýtingarleyfi fæst. Þegar um er að ræða framkvæmd sem ekki er háð mati á umhverfisáhrifum, þarf viðkomandi aðili að gera athugun á lífríki efnistökusvæðisins, áður en nýtingarleyfi er gefið út.

Áður en nýtingarleyfi er veitt, leitar Orkustofnun umsagnar til:

• Umhverfisstofnunar

• Hafrannsóknarstofnunarinnar

• Siglingastofnunar

• hlutaðeigandi sveitarfélags

• Aðrir aðilar eftir atvikum sem hagsmuna hafa að gæta á umræddu svæði

Málsmeðferð

Ferlið er þannig að viðkomandi aðili sækir um leyfi til Orkustofnunar. Orkustofnun sendir þá umsóknina, af því gefnu að allar upplýsingar liggi fyrir í umsókn, til umsagnar lögbundinna umsagnaraðila. Umsagnir eru því næst kynntar umsækjenda og honum eftir atvikum boðið að koma á framfæri athugasemdum um framkomnar umsagnir. Á grundvelli umsóknar, umsagna og athugasemdum umsækjenda um þær tekur Orkustofnun ákvörðun um útgáfu leyfis eða synjunar um leyfi.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um eignarrétt ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, sæta stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun rannsóknar- eða nýtingarleyfa samkvæmt lögunum kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina.