Tekjur sérleyfisfyrirtækja
Raforkueftirlitið ákvarðar leyfðar tekjur fyrir sérleyfisfyrirtæki, og kallast þær tekjumörk. Tekjumörk eru heildartekjur sem sérleyfisfyrirtæki mega hafa að viðbættum óviðráðanlegum kostnaði. Tekjurnar eiga að nægja fyrir verðlagsleiðréttum rekstrargjöldum, afskriftum og arðsemi af fastafjármunum.
Tekjumörkin setja viðmiðunarútgjöld á fimm ára fresti og kallast það setning tekjumarka. Markmiðið með setningu viðmiðunarútgjalda er að ná fram hagræðingu og skilvirkni í rekstri sérleyfisfyrirtækjanna. Á hverju ári fer svo fram uppgjör fyrir nýliðið ár þar sem bókhald sérleyfisfyrirtækja er borið saman við sett tekjumörk. Bókhald vegna tekjumarka fylgir raforkulögum en er þó að miklu leyti hliðstætt ársreikningum sérleyfisfyrirtækjanna.
Landsnet skiptir tekjumörkum sínum í tvennt, annars vegar flutning til dreifiveitna í íslenskum krónum og hins vegar flutning til stórnotenda, sem gerður er upp í bandarískum dollurum. Stórnotandi er notandi sem notar innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 gígavattstundir. Aðrir notendur kallast almennir notendur.
Tvær dreifiveitur skipta tekjumörkum sínum upp í þéttbýli og dreifbýli, en hinar þrjár eru með sameiginleg tekjumörk fyrir alla notendur á dreifisvæði sínu.
Þegar tekjumörkum er skipt upp í almenna notendur og stórnotendur, eða í þéttbýli og dreifbýli, þá miða gjaldskrár fyrirtækjanna einnig við þessa skiptingu. Þannig er Landsnet með tvær gjaldskrár, og einnig eru aðskildar gjaldskrár eftir svæði hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða.
Uppskipti tekjumarka krefjast greiningar á sameiginlegum kostnaði og fjárfestingum sem skipt er á milli tekjumarkanna. Raforkueftirlitið hefur eftirlit með þeirri greiningu ásamt öllum gögnum og útreikningum við setningu og uppgjör tekjumarka og ákvörðun gjaldskráa.
Lagagrundvöllur tekjumarka er í samræmi við 12. og 17. gr. raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum, reglugerð um framkvæmd raforkulaga nr. 1040/2005 með síðari breytingum og reglugerð nr. 192/2016 með síðari breytingum um mat á vegnum fjármagnskostnaði sem viðmið um leyfða arðsemi.