Raforkuöryggi
Öruggt aðgengi að rafmagni er grundvallarþörf fyrir samfélagið allt.
Raforkukerfið gegnir því afar mikilvægu hlutverki til að sjá samfélaginu fyrir stöðugu framboði raforku.
Orkubúskapur og raforkukerfi Íslands er einstakt að mörgu leyti með tilliti til raforkuöryggis:
Ísland er eyja og því þarf raforkukerfi okkar að vera algerlega sjálfbært um raforku. Flest önnur lönd Evrópu eru hins vegar með samtengd raforkukerfi.
- Við reiðum okkur að stærstum hluta á vatnsorku. Framboð vatns er talsvert mismunandi milli ára og er vatni því safnað í miðlunarlón til að minnka líkur á vatnsorkuskorti. Aukist raforkueftirspurn hratt þarf að gera ráðstafanir til að ekki gangi of hratt á vatnsforðann.
- Háspennulínur eru útsettar fyrir náttúröflunum og það er krefjandi verkefni að tryggja örugga raforkuafhendingu um allt land óháð veðri og eldsumbrotum.
Hugtakið raforkuöryggi er skilgreint í raforkulögum:
Raforkuöryggi felst í að notendur hafi aðgang að raforku þegar hennar er þörf og þar sem hennar er þörf, með hliðsjón af almennri stefnumörkun stjórnvalda á hverjum tíma og skilgreindum áreiðanleika og gæðum.
Eftirlit
Eftirlit með raforkuöryggi er á hendi raforkueftirlits Orkustofnunar
Í 1. gr. raforkulaga 2003/065 er lýst markmiðum laganna og þ. á m. að tryggja fullnægjandi raforkuöryggi, hagsmuni neytenda og neytendavitund á raforkumarkaði. Í 24. gr. raforkulaga kemur fram að eftirlit samkvæmt lögum þessum, að undanskildum verkefnum tengdum virkjanaleyfum, er falið raforkueftirliti Orkustofnunar. Raforkueftirlitið hefur því það mikilvæga hlutverk að hafa eftirlit með raforkuöryggi þjóðarinnar.
Raforkuöryggi er fólgið í mörgum mismunandi þáttum og hefur raforkueftirlit Orkustofnunar skilgreint nánari viðmið í því skyni að hægt sé að setja mælanleg markmið. Mælanleg markmið eru nauðsynleg til að hægt sé að hafa virkt og gagnsætt eftirlit með raforkuöryggi.
Viðmið
Viðmið raforkueftirlits Orkustofnunar um fullnægjandi raforkuöryggi
Við eftirlit með raforkuöryggi notar Orkustofnun eftirfarandi viðmið fyrir fullnægjandi raforkuöryggi til skemmri og lengri tíma:
Næstu fimm til tíu ár sé nægt framboð orkukosta sem ákvarðast út frá umhverfis-, efnahags- og samfélagslegum sjónarmiðum og orkuþörf vegna orkuskipta.
Framleiðslu- og flutningsgeta geti mætt áætlaðri aukningu í eftirspurn til næstu tveggja til fimm ára.
Framleiðsluöryggi til eins árs, þ.e. að fyrir hendi séu allir innviðir og skipulag sem teljast nauðsynleg til þess að tryggja rekstur næsta árið og mæta breytilegu álagi og náttúrlegum sveiflum, t.d. í vatnsbúskap, rekstrarstöðvunum o.s.frv.
Rauntímaöryggi, þ.e. að sú framleiðslu- og flutningsgeta sem er þegar til staðar nýtist ávallt til að anna rauntímaeftirspurn. Í því er einkum fólgið að stjórnstöð flutningskerfisins sé ávallt í stakk búin til bregðast við álagsþörf í rauntíma með skilvirkum verkferlum og aðgengi að reiðuafli. Þá eru einnig metnar líkur á aflskorti, þ.e. getu raforkukerfisins til að anna eftirspurn þær stundir þegar mest raforkunotkun er í heild, t.d. á annasömum dögum um hávetur.
Tvö minnisblöð um raforkuöryggi voru gefin út árið 2024 og eru aðgengileg undir Raforka á síðunni Upplýsingar - Bæklingar og skýrslur.
Raforkuspá
Við mat á raforkuöryggi er byggt á raforkuspá Orkustofnunar um eftirspurn raforku, sem tekur tillit til orkuþarfar vegna orkuskipta almennra notenda.