Gjaldskrár sérleyfisfyrirtækja
Gjaldskrár flutningsfyrirtækis og dreifiveitna eiga að gefa tekjur til jafns við tekjumörk fyrirtækjanna að viðbættum óviðráðanlegum kostnaði. Gjaldskrárbreytingar eru sendar til raforkueftirlitsins til yfirferðar áður en þær taka gildi.
Hægt er að sjá verð fyrir flutning og dreifingu á vefsíðu Orkuseturs og nánar á vefsíðum sérleyfisfyrirtækjanna sjálfra.
Dreifiveitur innheimta samkvæmt sínum gjaldskrám og sjá einnig um innheimtu vegna flutnings raforku og jöfnunargjalds hjá almennum notendum. Jöfnunargjaldið greiðist af öllum almennum notendum og er nýtt til að niðurgreiða dreifikostnað notenda sem staðsettir eru á dreifiveitusvæði sem skilgreint er sem dreifbýli.
Tvö svæði eru skilgreind sem dreifbýli í dreifingu raforku, annars vegar Vestfirðir utan þéttbýlisstaða og hins vegar dreifisvæði RARIK utan þéttbýlisstaða. Skilgreining á dreifbýli og þéttbýli fylgir raforkulögum, reglugerð 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga og skilgreiningu Hagstofu Íslands um byggðarkjarna.
Gjaldskrár í flutningi og dreifingu skiptast annars vegar í aflgjald, sem miðar við hámarksnotkun, og hins vegar orkugjald, sem miðar við hve mikil raforka er notuð á tímabilinu. Gjaldi er skipt eftir því hvort er um að ræða útmötun frá kerfinu eða innmötun inn á kerfið frá virkjunum. Einnig er tengigjald innheimt fyrir nýjar tengingar.
Kostnaður sérleyfisfyrirtækja er að mestu bundinn við flutnings- og dreifigetu og er því fastur til skamms og meðallangs tíma litið. Hagkvæmast er að nýta kerfin með sem jöfnustum hætti til að afkastageta sé ekki ónýtt stóran hluta sólarhrings. Þess vegna greiða notendur með ójafna notkun hlutfallslega hærra aflgjald því kostnaður sérleyfisfyrirtækjanna er að mestu fastur m.t.t. hámarksnotkunar. Dæmi um notendur með ójafna notkun eru hleðslustöðvar, en dæmi um notendur með jafna notkun eru stórnotendur.
Sérleyfisfyrirtæki eiga að byggja gjaldskrár sínar upp þannig að þær endurspegli kostnað og stuðli að skilvirkni, hagkvæmni og jafnræði. Raforkueftirlitið leggur mikla áherslu á greiningu gjaldskráa með tilliti til ofangreindra markmiða og sendir tilmæli til sérleyfisfyrirtækjanna varðandi áherslur og úrbætur.