Eingreiðsla vegna umhverfisvænnar orkuöflunar
Með breytingum á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar var opnað á möguleika ríkisins til að taka þátt í stofnkostnaði við umhverfisvæna orkuöflun sem dregur úr rafhitun eða olíukyndingu. Hægt er að minnka rafhitun með ýmsu móti, m.a. með varmadælum, viðarkyndingu o.s.frv.
Íbúðareigendur sem nú hafa niðurgreidda rafhitun og vilja taka upp umhverfisvæna orkuöflun og/eða ráðast í aðgerðir sem leiða til bættrar orkunýtingar við húshitun geta sótt um styrk. Um er að ræða eingreiðslustyrk vegna aðgerða sem leiða til betri orkunýtingar við húshitun.
Styrkurinn er reiknaður út frá kaupum á búnaði og efniskostnaði við uppsetningu hans og er helmingurinn af heildarefniskostnaði að hámarki 1.337.000 kr. Niðurgreiðslur skerðast ekki við styrkveitinguna og haldast áfram í samræmi við notkun að hámarki 40.000 KWh/ári. Við styrkveitinguna er gerður samningur sem miðast við 15 ár á viðkomandi fasteign en eftir þann tíma er aftur hægt að sækja um sambærilegan styrk á sömu fasteign.
Hægt að sækja um með tvennu lagi:
- Fylla út umsókn í Þjónustugátt á vef Orkustofnunnar.
- Fylla út eyðublað á pappírsformi og senda í pósti til Akureyrarseturs Orkustofnunar, Rangárvöllum 2, hús 8, 603
Akureyri. Orkustofnun sendir eyðublaðið til þeirra sem þess óska. Hringja má í síma 569 6000 eða senda tölvupóst á netfangið nidurgreidslur@os.is.
Með umsókn skal skila inn öllum reikningum í tengslum við framkvæmdirnar (sundurliðun reikninga er mikilvæg sér í lagi þegar um nýbyggingu er að ræða) auk mynda af uppsettum búnaði bæði og úti. Vert er að geta þess að ofnar og gólfhitakerfi er ekki styrkhæfur kosnaður.
Styrkhæfur kostnaður við uppsetningu á varmadælu:
- Varmadæla
- Festingar og allur aukabúnaður með varmadælu
- Efniskostnaður frá rafvirkja
- Efniskostnaður pípara
- Flutningskostnaður varmadælunnar
- Hluti plægi- og kjarnaborunarkostnaðar vegna tengingar jarðvarmadælna