Uppruni raforku 2013

Frá því í desember 2011 hafa íslensk orkufyrirtæki gefið út og selt upprunaábyrgðir og voru það ár seldar upprunaábyrgðir fyrir um það bil 2 teravattstundir [TWst] vegna raforkuframleiðslu á Íslandi en heildarframleiðslan nam 16,8 TWst. Í staðinn fyrir útgefnar og seldar upprunaábyrgðir þarf að færa inn sama magn í hlutföllum samkvæmt vegnu meðaltali á samsetningu raforkuframleiðslu í Evrópu í stað þeirra 2 TWst. sem seldar voru úr landi í formi upprunaábyrgða. Þannig er endanleg raforkusala á Íslandi eftir orkugjöfum reiknuð út.     


Á Íslandi er nánast öll raforkuframleiðsla frá endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðvarma og vatnsorku en einungis 0,01% er framleidd með jarðefnaeldsneyti eins og sést á myndinni hér fyrir ofan. Meiri hluti raforku í Evrópu á hins vegar uppruna sinn í jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Á myndinni hér að neðan má sjá þau gögn sem Orkustofnun hefur tekið saman fyrir árið 2013 varðandi uppruna raforku á Íslandi og upplýsingar um orkuvinnslu í Evrópu í staðinn. Sölufyrirtækin sem ekki selja upprunaábyrgðir skulu birta svokallaða staðlaða yfirlýsingu fyrir árið 2013. Í yfirlýsingunni kemur fram uppruni raforku og úrgangsefni vegna framleiðslu hennar og eru það þær upplýsingar sem íslenskir raforkukaupendur munu fá sendar með raforkureikningi sínum einu sinni á ári.


Því ber að halda til haga að hér á landi eru aðstæður með þeim hætti að raforka er hvorki flutt til eða frá landinu og því er sú raforka sem seld er hér á landi af endurnýjanlegum uppruna og verður það áfram þrátt fyrir framangreint. En til að hægt sé að halda því fram þarf að fylgja henni upprunaábyrgð. Samkvæmt lögunum er Landsneti falið að gefa út upprunaábyrgðir hér á landi en hlutverk Orkustofnunar er eftirlit og birting tölfræðiupplýsinga sem tengjast útgáfu upprunaábyrgða.


Uppruni raforku - Stöðluð yfirlýsing fyrir árið 2013